Vefsíða lýðheilsufræðings

Foreldrakulnun

Kulnun í starfi hefur verið áberandi síðustu ár en það sem fæstir vita er að árið 1980 var hugtakið foreldrakulnun fyrst rannsakað. Nýlega hafa þó rannsakendur skipt hugtakinu niður í kulnun í starfi og foreldrakulnun.

Foreldrahlutverkið er ekki alltaf dans á rósum. Allt frá andvökunætum og ofsaköstum til reiðikasta og heimanáms í stærðfræði, getur verið erfitt að ala upp börn. Sérstaklega erfitt þegar þú ert stöðugt að setja þarfir barnsins framar þínum eigin- sem mörg okkar gera. Þetta getur leitt til kulnunar foreldra, ástands þar sem þú ert svo örmagna að þér finnst þú ekkert hafa eftir að gefa1.

Foreldrar í nútímasamfélagi vinna báðir á vinnumarkaðinum og er vinnunni lokið klukkan fjögur eða fimm á daginn. Þá tekur við foreldarstarfið sem inniheldur oft að sækja börnin, skutla þeim í tómstundir, koma við í búð, fara síðan heim og elda matinn, ganga frá, sinna heimalærdómi, skella í þvottavél, baða og svæfa o.s.frv. Inn í þessari dagskrá áttu líka að hafa tíma til að sinna þínum þörfum s.s. hreyfa þig eða stunda tómstundir2.

Tískubylgja?

Foreldrakulnun er ekkert nýtt hugtak eða ný tískubylgja. Foreldrakulnun var rannsakað áður en hugtakið kulnun í starfi var rannsakað. Foreldrar hafa verið að upplifa foreldrakulnun lengi og sérstaklega á síðustu áratugum. Ástæðu þess má rekja til að konur eru í auknu mæli að vinna á vinnumarkaði. Vinnumarkaðurinn í vestrænum ríkjum er ennþá sniðinn að því að eitt foreldri sé fyrirvinnan og þá oftast karlmaðurinn og móðirinn þá oftast heima að sjá um heimilið og börnin. Þróunin í samfélaginu hefur farið á undan þróuninni á vinnumarkaði og þess vegna erum við að sjá meira af foreldrakulnun en áður. Sérstaklega hafa fræðimenn talað um áhrif covid-19 á aukningu í foreldrakulnun og kulnun. Á árunum 2020 og 2021 hefur tíðni foreldrakulnunnar aukist gríðarlega og má rekja það til atvinnuleysis og fjárhagsáhyggja sem leiðir til álags, streitu og fjárhagskvíða1.

Heimsfaraldur hefur haft gríðarleg áhrif á efnahag þjóða og aukið álag á fjölskyldur. Foreldrar hafa gríðarlegar fjárhagsáhyggjur og mörg börn voru mikið heima í miðjum faraldri. Einstaklingar sem hafa litla seiglu eru líka í áhættuhóp. Einstaklingar sem hafa sjálfir átt erfitt í uppvexti, hafa upplifað tengslarof við sína foreldra, litla þolinmæði og litla seiglu eru í sérstökum áhættuhóp að upplifa foreldrakulnun1.

Rannsóknir

Allir foreldrar eru þreyttir. En hvenær þurfum við að hafa áhyggjur?

Það sem rannsóknir sýna er að foreldrakulnun hefur áhrif á alla í kringum foreldrið. Þetta er ekki bara að vera þreyttur eða eiga erfiða daga. Þetta getur haft alvarlegar langtímaafleiðingar. Myndin hér að neðan sýnir hvaða afleiðingar foreldrakulnun getur haft. Talið er að 5% af öllum foreldrum upplifa foreldrakulnun í heiminum en talið er að það sé 9% í vestrænum ríkjum. Í Bandaríkjum er algengi foreldrakulnunnar 8% sem þýðir að 5.5 milljónir foreldra eru með foreldrakulnun3.

Foreldrakulnun hefur áhrif á alla í kringum foreldrið og þá sérstaklega börnin.
Figure 1. Antecedents and Consequences of Parental Burnout3.

Foreldrar í kulnun eiga í hættu að verða fyrir fjölda neikvæðra afleiðinga sem hafa ekki aðeins áhrif á þau sjálf, heldur einnig börn þeirra. Foreldrarnir sjálfir geta upplifað alvarleg sjálfsvígs- og flóttahugmyndir sem er mun tíðari í foreldrakulnun en kulnun í starfi eða jafnvel þunglyndi. Afleiðingar fyrir barnið geta verið alvarlegar og aukin áhætta er á ofbeldi og vanrækslu hjá börnum sem eiga foreldra í kulnun. Þegar foreldrakulnun er meðhöndluð með markvissri sálfræðilegri íhlutun minnkar ofbeldi og vanræksla foreldra gagnvart börnum4.

Niðurstöður úr rannsókn sem gerð var árið 2018 í Norður Ameríku kom í ljós að tæplega tveir þriðju útivinnandi foreldra segjast hafa upplifað kulnun. Svarendur rannsóknarinnar voru um tvö þúsund foreldrar. Helstu niðurstöðurnar sýndu að 63% útivinnandi foreldrar segjast hafa upplifað tímabil kulnunar. 40% af þeim sögðu kulnunina vera alvarlega. Í rannsókninni töldu 90% útivinnandi foreldra það vera erfiðara í dag að ala upp börn í samanburði við þegar þau voru sjálf börn. Algengasta ástæðan fyrir því væri samfélagsmiðlar, báðir foreldrar eru í fullri vinnu, börn/fjölskyldur takast á við einhvers konar áskoranir í hegðun eða tilfinningum (geðröskunum), samanburður og meiri áhyggjur af ýmsum hættum sem geta snúið að börnum5.

Ráðleggingar

Samskipti er lykilatriði í að ná bata og fyrirbyggja foreldrakulnun. Góð samskipti við maka eða barnsföður/móður er svo mikilvæg. Tjá sig um að þú eigir erfitt og þurfir hjálp. Ræðið saman hvernig væri hægt að létta á og hvernig þið sem foreldrar getið sinnt ykkar grunnþörfum. Jafnræði á heimilinu er ekki bara jafnréttismál heldur líka mikilvægt til að tryggja heilsu foreldra. Ræðið saman, skipuleggið tíma fyrir ykkur saman og í sitt hvoru lagi, skiptið húsverkum á milli og reynið að jafna út álagið1.

Svefn er grunnþörf og grundvallaratriði þegar það kemur að því að ná sér eftir kulnun. Hvíld og svefn minnka streitu og hjálpa þér að einbeita þér betur. Svefn hjálpar til við rökhugsun og þú ert betur á þig komin að takast á við streitu og tilfinningar1.

Hreyfing og líkamsrækt. Það getur verið erfitt að finna sér tíma til að hreyfa sig eða stunda líkamsrækt þegar álagið er mikið og streitan er að fara með þig. Hreyfing hefur þó jákvæð áhrif á orku og getur minnkað streitu. Farðu þér þó hægt og hlustaðu á líkamann. Þú þarft ekki að hlaupa maraþon eða lyfta jafn þungt og þú gerðir fyrir barneignir. Göngutúr með hlaðvarp (podkast), góða bók eða góða tónlist getur gert gæfumuninn1.

Hugleiðsla og hvíld geta hjálpað þegar þér finnst þú vera að missa stjórnina eða komin að þolmörkum. Stígðu út úr aðstæðum. Taktu þér örfáar mínútur og reyndu að ná stjórninni aftur. Fáðu þér kaffisopa eða tesopa, sestu í sófann eða fyrir framan sjónvarpið með börnin og taktu nokkrar örfáar mínútur. Náðu að slaka aðeins á og taktu nokkra djúpa andardrætti. Ég mæli líka með að taka stutta hugleiðslu ef tækifæri gefst1.

Búðu þér til stuðningsnet. Að hafa stuðningsríka fjölskyldu eða maka er mjög mikilvægt. Fjölskylda og vinir geta hjálpað og eina sem þú þarft að gera er að biðja um hjálp. Flestir eru tilbúnir til að hjálpa1.

Ef þú hefur ekki sterkt stuðningsnet í kringum þig er alltaf hægt að fá barnapíu eða húshjálp til að létta á þér. Einstaklingar í sömu stöðu geta líka verið mjög mikilvægur stuðningur. Foreldramorgnar eða stuðningshópar fyrir foreldra geta verið mikilvæg til að skilja hvað þú ert að ganga í gegnum, að þú sért ekki ein/n og fá að tala við aðra í sömu stöðu1.

Sýndu þér mildi. Að ala upp börn er bæði krefjandi og gefandi. Tilfinning um gremju og þreytu getur (og kemur) fram. Það er eðlilegt. Flestir foreldrar munu upplifa foreldrakulnun. Hvernig þú kemur fram við sjálfan þig skiptir miklu máli til að fyrirbyggja og ná bata1.

Leyfðu þér að finna tilfinningar þínar. Þú þarft ekki að horfast í augu við allt ein/n, eða vera frábær mamma og pabbi. Mundu að þú ert manneskja. Þú ert viðkvæm/ur. Þú getur ekki gert allt og vertu þolinmóð/ur við sjálfan þig.

Martha Horta-Granados sálfræðingur

Stundaðu sjálfsrækt. Þetta hljómar kannski of einfalt eða of erfitt en taktu frá tíma fyrir þig á hverjum degi. Það þarf ekki að vera langur tími. Lágmark 2 mínútur á hverjum degi þar sem þú bara hugsar um sjálfan þig og tekur djúpt andann. Að fara í bað áður en þú ferð að sofa og hugleiða getur verið ein leið til að hjálpa þér að slaka á og hvílast betur. Gerðu eitthvað fyrir þig á hverjum degi. Eitthvað sem nærir þig og gefur þér gleði1.


Heimildir

  1. Carissa Stephens (2021) Dear Exhausted and Burnt Out Parents, We’re here to help. Healthline. Sótt 02.02.2022 af: https://www.healthline.com/health/parenting/parental-burnout
  2. Rakel Sveinsdóttir (2021) Foreldrakulnun og vinnustaðurinn. Vísir.is. Sótt 02.02.2022 af: https://www.visir.is/g/20212070949d
  3. Mikrolajczak et al (2021) Beyond Job Burnout: Parental Burnout! Trends in Cognitive Sciences. Volume 25, Issue 5, 2021. Pages 333-336. Sótt 02.02.2022 af: https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1364661321000309
  4. Mikolajczak, M., Gross, J. J., & Roskam, I. (2019). Parental Burnout: What Is It, and Why Does It Matter? Clinical Psychological Science7(6), 1319–1329. https://doi.org/10.1177/2167702619858430
  5. Robyn Whalen (2018) What Employers Should know about Parental Burnout in the Workplace. TotalWellness. https://info.totalwellnesshealth.com/blog/what-employers-should-know-about-parental-burnout-in-the-workplace

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur