Vefsíða lýðheilsufræðings

Heimilisofbeldi og börn sem verða vitni af heimilisofbeldi

Afleiðingar covid-19 hafa komið skýrt fram í heimilisofbeldismálum víðs vegar um heim og þar er Ísland ekki undanskilið. Einangrun bíður oft upp á að þolandi þarf að verja miklum tíma með geranda sínum innan veggja heimilisins sem hefur gríðarlega slæmar afleiðingar. Börn eru líka þolendur og oft er skólinn griðarstaður en vegna covid-19 hafa þessi börn þurft að vera í einangrun heima hjá sér eða í sóttkví. Þessi börn hafa ekki haft neina útgönguleið. Afleiðingar þessa geta komið í ljós bæði núna og seinna á lífsleið barnsins.

Alþjóðaheilbrigðisstofnuninn gerði rannsókn byggða á gögnum frá 161 ríki frá árinu 2000 til 2018 þar sem fram kom að ein af hverri fjórum konum verður fyrir heimilisofbeldi af hendi eiginmanns eða sambýlismanns fyrir þrítugsaldur. Áætlað er að 1 af 3 konum á heimsvísu verði fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni2 .

Nýlega gaf ríkislögreglustjóri út skýrslu þar sem fram kom að fjöldi tilvika heimilisofbeldis sem tilkynnt eru til lögreglu hafa aldrei verið fleiri en síðastliðinn tvö ár í samanburði við sex ár þá á undan. Árið 2021 voru tilkynningar um heimilisofbeldi þriðjungi fleiri en 2015. Í þolendakönnun lögreglu kemur einnig fram að á síðustu árum hefur 7-20% svarenda tilkynnt um ofbeldi af hendi maka/fyrrum maka til lögreglu sem og að 80-83% gerenda eru karlar og um 70% þolenda eru konur1.

Á árunum 2010-2020 voru fjölskyldutengsl eða náin tengsl milli gerenda og þolenda í 50% manndrápsmála á Íslandi. Áður fyrr var litið á heimilisofbeldi sem einkamál fólks og almenningur skipti sér lítið af svoleiðis málum. Hlutverk lögreglunnar hér áður var að stilla til friðar sem var tímabundin lausn þar sem ofbeldishringurinn hélt bara áfram og börnum var lítið sinnt. Í dag er raunin önnur, þökk sé vitundarvakningu og rannsóknum. Einstaklingar sem voru börn hérna áður fyrr og bjuggu við heimilisofbeldi eru enn að súpa seyðið af því í dag, mörgum árum, jafnvel áratugum seinna1.

Börn sem búa við heimilisofbeldi

Fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi hvort sem það er að heyra, sjá eða finna fyrir spennu á heimilinu getur það haft í för með sér bæði sálrænar og líkamlegar afleiðingar. Því er mikilvægt að koma með leiðir til að vernda börnin betur gegn skaða og auka vitundarvakningu. Í Bandaríkjunum er talið að 1 af 15 börnum verði fyrir og/eða vitni af heimilisofbeldi.

Hér eru nokkrar afleiðingar sem koma strax af því að barn verður vitni af heimilisofbeldi.

Að verða vitni af heimilisofbeldi getur leitt til þess að börn þrói með sér fjölda neikvæðra áhrifa. Rannsóknir sem beinast af vitsmunalegum, hegðunar- og tilfinningalegum áhrifum sýna að börn sem verða vitni af ofbeldi á heimilinu eru að sýna sömu sálrænar afleiðingar og börn sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi. Börn sem verða vitni af heimilisofbeldi eru í aukinni hættu á að þróa með sér kvíða og þunglyndi en einnig að þróa með sér ytri hegðun s.s. ofbeldishegðun, leggja í einelti eða verða fyrir einelti, ljúga, stela og svindla. Þessi hegðun birtist líka í skólanum eða heima fyrir s.s. í formi félagslegs vanda, erfileika í námi, erfileika í samskiptum við aðra og mikillar reiði sem bitnar á nærumhverfinu4.

Börn sem búa við heimilisofbeldi eru líklegri til að viðhalda ofbeldishringnum með því að beita sjálf ofbeldi eða verða fyrir ofbeldi. Því má segja að heimilisofbeldi gengur í erfðir og heldur áfram kynslóða á milli ef ekkert er gert. Börn sem búa við ofbeldi eru fimmtán sinnum líklegri til að verða fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Það er ekki einungis sálrænar afleiðingar sem það hefur að verða vitni af heimilisofbeldi heldur einnig eru þau í mikilli hættu að verða sjálf fyrir ofbeldi af hendi gerandans3.

Rannsóknir hafa sýnt að það eru veruleg hætta á að barn sem verður vitni af heimilisofbeldi þrói með sér líkamlegan, tilfinningalegan og félagslegan skaða. Þessi skaði hefur mismunandi birtingarmyndir en felur í sér oft, erfileika við nám, takmarkaða félagslega færni, áhættuhegðun, ofbeldishegðun, afbrotahegðun, alvarlegt þunglyndi og kvíði. Þegar börnin verða eldri geta þessi vandmál haldið áfram og orðið að langtímaafleiðingum. Strákar sem verða vitni af ofbeldi þar sem þolandinn er móðir þeirra eru tíu sinnum líklegri til að beita sjálfir maka sinn ofbeldi á fullorðinsaldri. Stúlkur sem alast upp við að faðir þeirra beiti móður þeirra ofbeldi eru sex sinnum líklegrti til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni3.

Forvarnir

Beinasta leiðin til að koma í veg fyrir útsetningu barna fyrir heimilisofbeldi er að koma í veg fyrir eða binda enda á ofbeldið. Rannsóknir á gæði og áhrif inngripa á sviði heimilisofbeldi eru takmarkaðar en nokkrar kerfisbundnar úttektir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif s.s. hagsmunagæsla eða heildræn meðferðarnálgun fjölskyldna. Athvörf fyrir konur hafa líka dregið úr útsetningu barna fyrir heimilisofbeldi þar sem konur geta leitað skjóls þar sem þær eru oft fjárhagslega skuldbundnar eiginmönnum sínum og einangraðar. Að hafa athvörf sem veita konum og börnum öruggt skjól, mat og stuðning hefur sýnt fram á ávinning þrátt fyrir að margar konur fari til baka í heimilisaðstæðurnar þá er nauðsynlegt að þessi athvörf séu aðgengileg. Í stuttu máli eru nýjar vísbendingar um að meðferðir sem miða að móður og barni sýni jákvæðar breytingar í hegðunar- og geðheilbrigði barna sem verða vitni af heimilisofbeldi5.

Mínar tillögur:

  • Heilsugæslan og skólahjúkrunarfræðingar verða að auka fræðslu á neikvæðum áhrif heimilisofbeldis á börn og skima fyrir börnum sem búa við heimilisofbeldi.
  • Fræða þarf betur skólahjúkrunarfræðinga og heimilislækna um heimilisofbeldi og neikvæð áhrif þeirra á börn sem verða vitni af heimilisofbeldi.
  • Það þarf að víkka sýn fólks sem vinnur með börnum á afleyðingar heimilisofbeldis á börn, auka vitundavakningu og úrræði.
  • Foreldranámskeið þar sem foreldrum er ráðlagt viðeigandi leiðir til að aga börnin sín og stuðla að ofbeldislausum leiðum til að leysa átök. Þetta ætti að vera gjaldfrjálst hjá öllum sveitarfélögum.
  • Fræða foreldra og almenning um neikvæðar afleiðingar þess að börn séu vitni af heimilisofbeldi.
  • Verkferlar í skólum til að skima fyrir einkennum heimilisofbeldis sérstaklega þegar barn lendir í tilfinningalegum-, námslegum- og hegðunarvandamálum.
  • Bjóða upp á fleiri úrræði fyrir börn sem verða vitni af heimilisofbeldi, sálfræðiþjónustu, ráðgjafaviðtöl o.s.frv.
  • Bjóða upp á heildræna fjölskyldumeðferð þar sem farið er í áhættumat og öryggisáætlun.
  • Auka fræðslu og forvarnir meðal barna og unglinga á heimilisofbeldi, jafnrétti kynjana, samskipti kynjana o.s.frv.
  • Viðurkenna að börn eru líka þolendur, líka þau sem eru vitni af heimilisofbeldi!

Heimildir

  1. Oddur Ævar Gunnarsson (28.mars 2022) Fréttablaðið. Sótt 28.mars 2022 af: https://www.frettabladid.is/frettir/heimilisofbeldi-a-islandi-i-haestu-haedum-sidustu-tvo-ar/
  2. WHO (2021) Violence against women. Fact sheet. WHO.INT. Sótt 29.mars 2022 af: https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/violence-against-women
  3. Olivia Harrison (2021) The long-term effects of domestic violence on children. Children´s legal Rights Journal. Volume 41, issue 1. Sótt 29.mars 2022 af: https://lawecommons.luc.edu/cgi/viewcontent.cgi?article=1232&context=clrj
  4. Melissa M. Stiles (2002) Witnessing Domestic violence: Effect on children. Medicne and Society. AM FAM Physician. 2002. Dec 1;66(11): 2052-2067. Sótt 29.mars 2022 af: https://www.aafp.org/afp/2002/1201/p2052.html
  5. Wathen, C. N., & Macmillan, H. L. (2013). Children’s exposure to intimate partner violence: Impacts and interventions. Paediatrics & child health18(8), 419–422.

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur