Vefsíða lýðheilsufræðings

,

Skólaumhverfið og andleg heilsa nemenda

Hugleiðing

Mikið hefur verið í umræðunni um mál í Dalvíkurskóla þar sem árekstur varð á milli nemanda og kennara. Foreldrar stúlkunnar hafa komið fram í fjölmiðlum með þeirra hlið á málinu og segja frá slæmri andlegri heilsu stúlkunnar. Mig langar aðeins að rýna í þetta. Ég hef alltaf verið mikil talsmaður þess að það þurfi að auka sérfræðiþekkingu innan skólakerfisins og að við verðum að auka sértæk úrræði fyrir börn og unglinga í skólum.

Í rannsókn minni um ,,þekkingu og reynslu grunnskólakennara að meta og greina heimilisofbeldi hjá nemendum, kom skýrt fram að kennarar hafa hvorki þekkingu né tíma til að koma nemendum til hjálpar. Einnig voru samskipti þeirra við barnaverndaryfirvöld mjög ábótavant og lýstu yfir miklu vantrausti í garð barnaverndayfirvalda.

Tímarnir hafa breyst. Kennarar eiga að sinna allskonar skyldum sem voru ekki hér áður fyrr. Þeir eiga að sjá um menntun nemenda sinna, uppeldi, aðstoða við samskipti, kenna lífsleikni, sinna félagslegum vanda, hafa augun opin hvort nemandi búi við ofbeldi eða vanrækslu, hafa gott samband við foreldra, tilkynna til barnaverndar, skrifa skýrslur, uppfæra foreldra um nám nemenda, passa mætingu, sitja nemendaverndafundi, tala við félagsráðgjafa, tala við barnavernd, tala við félagsþjónustuna o.s.frv. Ég er örugglega að gleyma einhverju.

Börn eru í dag meiri hluta dagsins í skólanum. Skólaumhverfið er því tilvalin staður til að auka heilsueflingu og forvarnir. Hingað til hefur ábyrgðin verið sett á kennara. Aukið fjármagn til að sinna félagslegum eða samskipta þörfum nemenda hefur ekki fylgt ótalmörgum stefnum sem skólarnir eiga að innleiða. Stefnur eins og eineltisstefna, heilsueflandi grunnskóli, gæðastefna, stefnur um fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn, barnasáttmálann, siðareglur, geðræktar stefnur o.s.frv. hafa verið settar í hendur kennara. Þessar stefnur eru allar mikilvægar fyrir velferð nemenda og starfsmanna. Það sem ég vil gagnrýna er að þetta er allt sett á herðar kennara og skólastjórnenda.

Kulnun eða ,,burnout“ er algengust meðal starfsstétta í heilbrigðis- og kennarastéttum. Í frétt er haft eftir Þorgerði Laufey Diðriksdóttur, formanni Félags grunnskólakennara að einn af hverjum fjórum grunnskólakennurum er með alvarleg einkenni kulnunar og hátt í fjögur prósent þeirra ættu að leita sér hjálpar tafarlaust. Skortur hefur verið á kennurum sem gæti verið ein ástæða kulnunar en einnig hefur aukin ábyrgð verið sett á herðar kennara1.

Skólaráðgjafar

Í Svíþjóð eru skólaráðgjafar (Skolkurator) sem veita ráðgjöf, vinna með andlega heilsu, eru með kynjaskipta hópa og hjálpa nemendum að ná sáttum í ágreiningi. Starf skólaráðgjafa snýst mikið um að fylgjast vel með hvernig nemendum líður í skólaumhverfinu og rýna í einkenni nemenda sem tjá á einn eða annan hátt einkenni mikllar vanlíðanar. Mikilvægt er að greina nemendur sem eiga við erfiðleika að stríða og gæta þess að þeir fái réttan stuðning2.

Skólaráðgjafar sjá um samskipti skólans við forráðamenn og önnur yfirvöld sem og umönnunarstofanir. Nemendur geta fengið viðtalstíma við skólaráðgjafa og fengið hjálp við félagsleg vandamál. Skólaráðgjafar starfa innan skólan til að skapa eins gott umhverfi og mögulegt er fyrir nemendur til náms og þroska. Þeir vinna að því að skapa aukna vitund um almenn samfélagsmál skólans, bæði á einstaklings-, hópa- og skipulagsstigi. Áherslan er á náms- og uppeldisfræðileg vandamál2.

Nemendur þurfa opið og stöðugt samtal til að draga úr fordómum í kringum geðheilbrigði. Því fyrr því betra. Um 50% allra geðsjúkdóma hefjast við 14 ára aldur oft ómeðhöndluð12

Skólaráðgjafar vinna oft náið með skólasálfræðingum þar sem þeir finna lausnir saman á hinum ýmsu sálfélagslegum vandamálum. Skólaráðgjafi vinnur mjög náið með nemendum skólans með ýmis vandamál út frá sálfélagslegu sjónarhorni. Skólasálfræðingur einbeitir sér að sálrænum vandamálum sem byggjast á námsörðugleikum og veitir skólaráðgjöfum handleiðslu. Skólaráðgjafi getur einnig staðið vörð um gildi skólans og stefnur með því að gera bæði nemendur og starfsfólk meðvitað um samfélagsleg málefni s.s. jafnrétti 2,3.

Rannsóknir

Í rannsókn sem gerð var meðal skólaráðgjafa í Svíþjóð kom í ljós að andleg vandamál nemenda hafa aukist síðustu ár um 65% að meðaltali. Ástæður þess mætti rekja til bæði aukinnar þarfar sem og aukinnar vitundarvakningar og óskum nemenda eftir aðstoð. Helstu vandamálin sem þau eru að vinna með eru andleg vanlíðan og vandamál tengdum samfélagsmiðlum. 90% af tíma skólaráðgjafa fer í að sinna andlegri heilsu nemenda sem sýnir að þörfin er mikil 5.

Samkvæmt sænsku lýðheilsustöðinni eru nokkrar rannsóknir sem hafa sýnt að tveir þættir hafi jákvæð áhrif á andlega heilsu nemenda. Það eru góð tengsl við skólann og félagslegur stuðningur. Kortlagning frá lýðheilsustöð Svíþjóðar sýndi að slæm frammistaða í skóla ásamt lélegra tengsla við skólann og starfsfólk hans auki líkur á geðrænum vandamálum. Mikilvægt er að kenna geðheilsu í skólum og auka félagslegan stuðning. Lélegur félagslegur stuðningur frá kennurum til nemenda getur valdið kvíða og þunglyndis einkennum hjá nemendum 4,5.

Rannsókn Elysia Clemens frá 2007 sýndi að samráð og félagslegur stuðningur skólaráðgjafa getur verið góð leið til að lækka streitustig kennara. Einn af streituvöldum kennara voru samskipti við nemendur og geta skólaráðgjafar komið þar inn í. Skólaráðgjafar geta aðstoðað bæði nemendur og kennara við bætt samskipti. Stuðningur skólaráðgjafa við kennara er mikilvægur til að minnka streitu og bætt samskipti kennara og nemenda á milli. Skólinn getur haft mikil áhrif á að bæta andlega og félagslega heilsu nemenda sinna en einnig kennara. Skólaráðgjafar eru því mjög mikilvægir í heilsueflingu í skólum 4,5.

Rannsóknir sýna að ef geðrækt er kennd í skólum minnkar það líkurnar á því að nemendur þrói með sér andleg veikindi. Andlega vandamál eins og kvíði og þunglyndi eru algeng meðal barna á skólaaldri. Þegar skólar fræða börn um geðheilsu, kenna þeir jákvæð samskipti og leiðir til að takast á við kvíða og vanlíðan. Það getur haft mikið forvarnalegt gildi og dregið úr geðrænum vandamálum 6.

Rólegt, styðjandi og vel uppbyggt skólaumhverfi þar sem nemendum líður vel er mjög mikilvægt. Að nemendur fái stuðning frá starfsfólki sem veit hvernig á að takast á við streitu, andlega heilsu, tileinka sér jákvæð samskipti og þekkir einkenni vanlíðanar getur skipt sköpum fyrir námsárangur og heilsu nemenda7.

Andleg líðan barna

Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur við Rannsókn og greiningu segir að miðað við síðustu rannsóknarniðurstöður, kemur í ljós að þunglyndiseinkenni ungmenna mælast meiri en áður og andlega heilsa þeirra er verri. Heimsfaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á andlega líðan nemenda í skólum á Íslandi 8.

Samkvæmt Lýðheilsusviði Landslæknis eru sífellt fleiri börn og ungmenni að meta andlega líðan sína slæma. Bráðtilfellum barna hefur fjölgað um tugi prósenta milli ára hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Síðastliðin ár hefur verið gríðarleg aukning með barna og ungmenna sem meta andlega heilsu sína slæma og hefur covid faraldurinn haft þar slæm áhrif. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri hjá Landlækni, segir að þó svo að covid áhrifin séu að hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu barna og unglinga þá hefur þessi slæma þróun verið í gangi síðustu ár. Mikill niðurskurður hefur verið á þjónustu við börn og einamanaleiki aukist, félagsfærni minnkað og fleiri meta andlega heilsu sína slæma 8 9.

Hér sjáum við mjög hraða þróun!

Niðurstöður

Við verðum að gera betur. Við verðum að huga betur að heilsu barna og ungmenna. Við höfum rannsóknir og við höfum reynslu erlendis frá, sem sýnir að aukin sérfræðiþekking í skólaumhverfinu, skilar betri heilsu til nemenda. Í rannsókn minni tók ég viðtal við nemendaráðgjafa sem sagði að hún gæti ekki sinnt sínu starfi þar sem mikið væri um forföll í skólanum og hún þurfi oft að hlaupa í kennslu. Draumurinn hennar væri að geta verið til taks fyrir nemendur og geta sinnt starfi sínu betur.

Skólinn eru streituvaldandi og í streituvaldandi umhverfi. Við vitum hvaða áhrif streita hefur á heilsu okkar. Við verðum að grípa fyrr inn í áður en þetta orðið vandamál bæði fyrir nemendur og kennara. Kennarar eru að drukkna og tölur um kulnun eru ógnvekjandi. Án inngrips verður þetta aukin kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið, félagskerfið og samfélagið í heild. Horfum til langtíma en ekki skammtíma. Skólinn er tilvalin staður til að auka félagsfærni nemenda, fræða um geðheilsu og veita félagslegan stuðning.

Hér sjáum við einstaklinga sem eru 20 ára og yngri að leita sér aðstoðar á heilsugæslu vegna geðrænna sjúkdóma. Þetta er mjög hröð þróun og án inngripa aukast þau með hverju ári 10.

Hér sjáum við líka mikla aukningu á örorku vegna geðraskana hjá ungu fólki undir 30 ára. 10

Hvað ætlum við að gera?

Samkvæmt samstarfsverkefni sem Embætti Landlæknis gerði um geðheilsu og vellíðan í Evrópu kemur í ljós að veikleikar íslenska skólakerfisins hvað varðar geðrækt í skólastarfi eru ýmsir. Þar ber að nefna að forvarnir, mat og aðstoð við börn vegna sálfélagslegra erfiðleika er ábótavant og engin eftirfylgni er með þessum þáttum svo þeim sé sinnt. Þannig fá börn ekki þá þjónustu sem þau eiga rétt á, skortur á þekkingu er innan skólakerfisins á gagnreyndum aðferðum til að efla jákvæða hegðun, líðan og samskipti nemenda, enginn fastur tími eða skipulag fyrir kennslu í hegðunar-, félags- og tilfinningafærni og engin sérhæfing í kennarnámi fyrir kennslu í félags- og tilfinningafærni. Þá eru ekki gerðar neinar kröfur um gagnreynda kennslu í hegðunar-, félags- og tilfinningafærni né jákvæða og gagnreynda nálgun í hegðun barna í skólum og frístundastarfi.11

Þessi skýrsla er síðan 2019. Afhverju hefur ekkert verið gert?

Ég er með BA- í tómstunda- og félagsmálafræði og hér í Svíþjóð eru tveir kennarar með 25 manna bekk. Einn grunnskólakennari og einn tómstunda- og félagsmálafræðingur (fritidspedagog). Þetta myndi ég vilja sjá á Íslandi líka. Skólastarfið er orðið svo fjölbreytt og því verðum við að fjölga fagaðilum og auka sérfræðiþekkingu innan skólana. Börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum.


Heimildir

 1. Anna Lilja Þórisdóttir og Dagný Hulda Erlendsdóttir (2021) Um fjórðungur grunnskólakennara með einkenni kulnunar. Frétt á Rúv.is Sótt 21. febrúar 2022 af: https://www.ruv.is/frett/2021/10/17/um-fjordungur-grunnskolakennara-med-einkenni-kulnunar
 2. Lena Ollmark (2022) Skolakuratorn. Psykologiguiden.se. Sótt 21. febrúar 2022 af: https://www.psykologiguiden.se/rad-och-fakta/forskola-och-skola/skola/elevhalsan/skolkuratorn
 3. Fredrik Kornebäck (2021) Kartläggning skolkuratorer 2021. Akademikerförbundet SSR. Sótt 21.febrúar 2022 af: https://akademssr.se/sites/default/files/files/Kartla%CC%88ggning%20av%20skolkuratorer%202021.pdf
 4. Clemens, Elysia (2007) Developmental Counseling and Therapy as a Model for School Counselor Consultation with Teachers. Professional School Counseling. 10 (4): s. 352-359.
 5. Laurens Bolt & Katarina Dahlgren (2021) Skolkuratorers erfarenheter av en global pandemi. Socialhögskolan. Lunds Universitet. Sótt 21.febrúar 2022 af : https://lup.lub.lu.se/luur/download?func=downloadFile&recordOId=9050524&fileOId=9050536
 6. Petersen, S., & Romqvist, A. (2020). När skolan lär barn om psykisk hälsa minskar inåtvända psykiska problem bland barnen : En kartläggning av systematiska litteraturöversikter. Socialmedicinsk Tidskrift, 97(5–6), 832–846. Retrieved from http://urn.kb.se/resolve?urn=urn:nbn:se:umu:diva-178440
 7. Socialstyrelsen & Skolverket (2016) Vägledning för elevhälsan. Sótt 21.febrúar 2022 af: https://www.socialstyrelsen.se/globalassets/sharepoint-dokument/artikelkatalog/vagledning/2016-11-4.pdf
 8. Ingibjorg Eva Thorisdottir et al (2021) Depressive symptoms, mental wellbeing, and substance use among adolescents before and during the COVID-19 pandemic in Iceland: a longitudinal, population-based study. The Lancet, Psychiatry. Volume 8, Issue 8, P663-672. Sótt 21. febrúar 2022 af: https://www.thelancet.com/journals/lanpsy/article/PIIS2215-0366(21)00156-5/fulltext#%20
 9. Berghildur Erla Bernharðsdóttir (2021) Sífellt fleiri börn og ungmenni meta andlega heilsu sína slæma. Frétt á vísi.is. Sótt 21.febrúar 2022 af https://www.visir.is/g/20212114568d/sifellt-fleiri-born-og-ungmenni-meta-andlega-heilsu-sina-slaema
 10. Myndir af töflum teknar frá : https://www.virk.is/is/um-virk/upplysingar/frettir/andlegri-heilsu-islendinga-hrakar-hvad-veldur
 11. Starfshópur um geðrækt í skólum (2019) Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Tillögur starfshóps. Sótt 21.febrúar 2022 af: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38659/Starfsh%C3%B3pur%20um%20ge%C3%B0r%C3%A6kt%20%C3%AD%20sk%C3%B3lum_sk%C3%BDrsla.LOKA.pdf
 12. Kessler RC, Berglund P, Demler O, Jin R, Merikangas KR, Walters EE. (2005). Lifetime Prevalence and Age-of-Onset Distributions of DSM-IV Disorders in the National Comorbidity Survey Replication. Archives of General Psychiatry, 62 (6) pp. 593-602. doi:10.1001/archpsyc.62.6.593.

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur