NLP þerapistar og ráðgjafar bjóða margir hverjir uppá viðtalsmeðferðir fyrir einstaklinga. Mig langaði að kynna mér betur hvað NLP stendur fyrir og er. NLP er ekki viðurkennd klínísk meðferð og ætti því aldrei að vera eina meðferðin við áföllum eða geðrænum vanda. NLP er mjög gagnlegt fyrir einstaklinga sem vilja ná markmiðum, standa á krossgötum eða vilja efla sjálfan sig.
Hvað þýðir Neuro Lingustic Programming (NLP)?
Tauga (Neuro): Skynfærin fimm, augu, eyru, nef, bragð og snerting vinna úr taugaboðum sem síðan móta hegðun5.
Málfars (Linguistic): Málfar okkar ákvarðar hugsanir okkar og hegðun í samskiptum við aðra5.
Forritun (programming): Leið sem hægt er að velja til að skilja betur hugsanir okkar og gjörðir sem skila okkur betri árangri5.
NLP er taugasálfræðileg nálgun við samskipti, persónulegan þroska og sálfræðimeðferð. Höfundar NLP halda því fram að það séu tengsl á milli taugafræðilegra ferla, tungumáls og hegðunarmynsturs sem lærist með reynslu. Hægt sé að breyta þeim til að ná sérstökum markmiðum í lífinu. NLP hefur verið notað hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum í leiðtogaþjálfun. 1
NLP var þróað á áttunda áratugnum við Háskólann í Kaliforníu í Santa Cruz. John Grinder, Richard Bandler og Judith DeLezier, Leslie Cameron-Bandler eru upphafsmenn NLP. Fyrsta bókin um NLP var gefin út árið 1975, Structure of Magic: A book about language of Therapy. Í bókinni er lögð áhersla á samskiptamynstur sem aðgreinir þá sem hafa framúrskarandi samskiptahæfileika frá öðrum. Áhugi á NLP jókst á seinni hluta áttunda áratugarins eftir að Bandler og Grinder byrjuðu að markaðsetja nálgunina sem verkfæri fyrir fólk til að ná árangri. Í dag er NLP notað á fjölmörgum sviðum þar á meðal við ráðgjöf, í læknisfræði, lögfræði, viðskiptum, sviðslistum, íþróttum, hernum, menntun ofl.1 2
NLP aðferðin hefur ekki verið vísindalega sönnuð og er oft nefnd gervivísindi. Vísindamenn vilja meina að NLP myndlíkingar, um það hvernig heilinn virkar, séu úreltar eða séu ekki í samræmi við núverandi taugafræðilegar kenningar og innihaldi margar staðreyndarvillur. Stuðningsrannsóknir á NLP hafa verið aðferðafræðilega gagnrýndar sem gallaðar og illa gerðar.3
Hvað er NLP?
Markmið NLP er að hjálpa einstaklingum að ígrunda og skoða sjálfan sig til þess að ná fram því besta og komast að því sem virkilega skiptir þig máli. NLP kennir hagnýt verkfæri til sjálfsskoðunar, eflingar og þróunar. Þú getur uppgötvað drauma þína og hvernig þú getur náð þeim markmiðum út frá eigin gildum og eigin óskum.
,, Það er ekki hvað þú hugsar um, eða hvað þú hefur upplifað, heldur hvernig þú hugsar og upplifir það“
Hrefna Birgitta Bjarnadóttir
Sérfræðingar innan NLP segja að allir hafa sitt persónulega kort af veruleikanum. Þeir sem læra NLP greina eigin og önnur sjónarmið til að skapa kerfiðsbundna yfirsýn yfir aðstæður. Með því að skilja margvísleg sjónarmið færðu upplýsingar. Til að vinna úr þessum upplýsingum þarft þú að nota skynfærin, líkamann og hugann til að hafa áhrif á hvort annað. Þetta er reynslunálgun. Á mannamáli vilja þeir meina að þeir geti endurforritað hugsanir, sýn, gildi og jafnvel hvernig við meðtökum upplýsingar. Einstaklingar mynda sér skoðun, sýn, gildi og sannfæringu með reynslu og upplýsingum sem þeir fá frá öðrum í sínu nærumhverfi1.
Sem dæmi má nefna að ef þér var strítt sem barni fyrir að vera með gleraugu myndar þú þér þá skoðun sem þú ert uppnefnd eftir t.d. að þú sért vonlaus, öðruvísi eða skrítin. Þú tengir gleraugu saman við eitthvað neikvætt við þína sjálfsmynd. NLP vill leiðrétta þessa villu og fara í gegnum þessar upplýsingar/minningu og endurforrita hana.
,,Á krossgötum – hver er ég og hvert er ég að fara?“
Hægt er að skilja NLP út frá þremur víðtækum þáttum og helstu hugtökum:
Huglægni: Við upplifum heiminn huglægt þannig að við búum til huglæga framsetningu á reynslu okkar. Þessar huglægu framsetningar á reynslu eru settar saman af fimm skilningarvitum og tungumáli. Upplifun okkar munum við með hjálp skilningarvita okkar. Sem dæmi þá rifjum við upp atburð eða sjáum fyrir okkur fortíðina með því að sjá myndir, heyra hljóð, bragða bragð, finna áþreifanlega skynjun, lykta lykt, og hugsa á móðurmáli.
Hegðun: Hegðun er hægt að lýsa og skilja út frá því hvernig við upplifum heiminn út frá huglægu framsetningunni. Hegðun er munnleg og ómálefnaleg samskipti, vanhæf eða sjúkleg. Hægt er að breyta hegðun með því að hagræða þessum skynrænu huglægu framsetningum5.
Meðvitund: Byggist á þeirri hugmynd að meðvitund sé tvískipt í meðvitaðan þátt og ómeðvitaðan þátt. Þessar huglægu framsetningar sem eiga sér stað utan vitundar einstaklings samanstanda af því sem kallað er ,,ómeðvitaður hugur“5.
Að læra: Eftirlíkingaaðferð er notuð til að upplifa og endurskapa reynslu eða upplifanir. Ráðgjafar í NLP fara í gegnum huglægu upplifunina með skjólstæðing sínum og breyta henni með því að endurskapa5.
Sýn okkar á heiminum mótast í barnæsku og af hvernig uppeldi við fáum. Hver og einn fær sína innri mynd af heiminum og hvernig hann er samsettur. Innri upplifun okkar og túlkun er okkar eigin sannleikur. Okkar innri heimur síar allar upplýsingar sem við meðtökum. Þær upplifanir staðfesta það sem við vitum/trúum5.

Disney módelið
Í NLP er mikið vitnað í svokallað Disney módel en það gengur út á að ná markmiðum og hrinda hlutum sem hafa setið lengi á hakanum í framkvæmd. Disney módelið var þróað af Robert Dilts árið 1994 og er tilgangur þess að búa til hegðunaraðferðir sem styðja skjólstæðinga við að nálgast og samþætta sköpunargáfuna til að hjálpa þeim að ná tiltækum árangri. Þetta módel er kennt við Walt Disney vegna þess að hann náði miklum árangri í að breyta fantasíum í veruleika. Þetta módel hefur mikið verið notað til að þjálfa starfsmenn og teymi innan fyrirtækja að ná markmiðum. Þar eru einstaklingar settir í þessa þrjá mismunandi flokka og vinna svo saman að því að leysa vandamál eða ná markmiðum. Flokkarnir eru eftirfarandi: 4
Dreymandinn: Ferlið byrjar hjá dreymandanum. Við fáum hugmyndir og það fer í vinnslu hjá raunsæismanninum. Dreymandinn hugsar ,,hvað vil ég? hvað langar mig í? hvað er mögulegt?“ Hefur margar tillögur og hugmyndir.7
Raunsæismaðurinn: Getum við raunverulega framkvæmt þessa hugmynd? Raunsæismaðurinn spyr spurninga eins og ,,Hvað er það fyrsta sem ég vil gera? Hvað viltu gera til að ná þessu markmiði?, Hvað er næsta skref? Er þetta raunhæft markmið?“7
Gagnrýnandinn: Hér er gefin endurgjöf á bæði hugmyndinni og framkvæmdinni. Er framkvæmdin raunhæf? Spurningar eins og ,,Hvað er jákvætt við að gera hlutina eins og þeir eru núna? Hvernig getur þú gert breytingarnar sem þú vilt? Hvað og hverja mun það hafa áhrif á?“7

Gagnrýni á NLP
Meðferð með NLP hefur verið mest notuð við kvíða, við fóbíum og til að efla vinnuumhverfi og starfsánægju.
Virkar NLP? Vísindamenn eru ekki sammála. Það er erfitt að meta árangur af NLP vegna þess að það er ekki háð sama staðli um vísindalega áreiðanleika og meðferðir eins og hugræn atferlismeðferð. Sumar rannsóknir hafa fundið ávinning í tengslum við NLP t.d. rannsókn sem birt var í tímaritinu Counseling and Psychotherapy Research leiddi í ljós að skjólstæðingar höfðu betri lífsgæði og minni sálræn einkenni eftir að hafa fengið NLP þjálfun í samanborið við samanburðarhóp6.
Grein í The British Journal of General Practice, þar sem rannsóknir á NLP voru endurskoðaðar, kom fram að 10 rannsóknir voru óhagstæðar. Þar komust þeir að þeirri niðurstöðu að litlar vísbendingar væri á árangri NLP við meðferð á heilsutengdum sjúkdómum eins og kvíðaraskanir, þyngdarstjórnun og lyfjamisnotkun. Talið er að rannsóknir á NLP skorti gæði og séu ekki tiltækar til þess að gefa vísbendingar um það að NLP virki ekki. Þrátt fyrir að NLP hafi verið notuð sem meðferð í meira en 4 áratugi, hefur hvorki árangur NLP né réttmæti kenninganna verið studd með traustum rannsóknum. Rétt er að taka fram að rannsóknir á NLP hafa þó aðallega verið gerðar í meðferðaraðstæðum en ekki á virkni NLP í viðskiptaumhverfinu6.
Mín skoðun er að fagaðilar með starfréttindi frá embætti landlæknis, eiga alltaf að sjá um áfallameðferð og hugræna atferlismeðferð. Einstaklingar sem vilja setja sér markmið og bæta samskipti, þá virkar NLP vel.
Heimildir
- GoodTherapy (2018) Neuro-Linguistic Programming (NLP) Sótt 16.febrúar 2022 af: https://www.goodtherapy.org/learn-about-therapy/types/neuro-linguistic-programming
- Craft, A. (2001). Neuro-linguistic programming and learning theory. The Curriculum Journal, 12(1), 125-136. doi: 10.1080/09585170010017781
- Thyer, Bruce A.; Pignotti, Monica G. (15 May 2015). Science and Pseudoscience in Social Work Practice. Springer Publishing Company. pp. 56–57, 165–67. ISBN 978-0-8261-7769-8.
As NLP became more popular, some research was conducted and reviews of such research have concluded that there is no scientific basis for its theories about representational systems and eye movements.
- ALCN (2022) Academy of Leadership coaching & NLP. Using Walt Disney´s Technique to Model a Path to Creative Success. Sótt 28.febrúar 2022 af: https://nlp-leadership-coaching.com/using-walt-disneys-technique-to-model-a-path-to-creative-success/
- Ingibjörg Sig (2003) Hvað er NLP? Heilsuhringurinn.is. Sótt 28.febrúar 2022 af: https://heilsuhringurinn.is/2003/04/05/hvae-er-nlp-neuro-linguistic-programming/
- Aaron Kandola (2017) What is NLP and what is it used for? Medical News Today. Sótt 28.febrúar 2022 af: https://www.medicalnewstoday.com/articles/320368
- Dr. Rafiq Elmansy (2015) Disney´s creative strategy: The dreamer, the realist and the critic. Designorate. Sótt 28.febrúar 2022 af: https://www.designorate.com/disneys-creative-strategy/
Share this post: on Twitter on Facebook on Google+