Vefsíða lýðheilsufræðings

, ,

Áhrif áfalla og heilbrigðiskostnaður

Vísindarannsókn við Háskóla Íslands um Áfallasögu kvenna og er sú stærsta á heimsvísu sem fjallar um tíðni áfalla og áhrif þeirra á heilsufar kvenna. 32.811 konur hafa skráð þátttöku sína. Frumniðurstöður sýna að 14% þessara kvenna voru með einkenni áfallastreituröskunar, 40% höfðu orðið fyrir ofbeldi og 32% höfðu orðið fyrir áreitni á vinnustað. Þessar tölur eru sláandi og sýna klárlega misrétti kynjana þegar það kemur að vinnumarkaðnum en einnig áhrif áfalla á heilsufar kvenna2.

Að verða fyrir áfalli er erfitt og þungbær reynsla sem hefur eðlilega áhrif á fólk og getur tekið tíma að jafna sig á. Áföll eru misalvarleg og sum áföll eru svo alvarleg að þau valda fólki erfiðleikum. Samkvæmt rannsóknum er ofbeldi það áfall sem felur í sér mestar líkur á áfallastreituröskun. Einkenni áfallastreituröskunar eru fjölmörg og þarf alltaf að greina hana hjá fagaðilum2 3.

Sálrænt áfall:

 • Alvarlegt slys – eða að verða vitni að slíku
 • Ofbeldi eða að verða vitni af slíku
 • Ástvinamissir, skilnaður, atvinnumissir
 • Náttúruhamfarir
 • Alvarleg veikindi, missa heilsuna
 • Hernaður, hryðjuverk, pyntingar, fangabúðir, gíslataka, hamfarir af mannavöldum1.

Samkvæmt áfallasögu kvenna kemur fram að algengasta áfallið er kynferðislegt ofbeldi og líkamlegt ofbeldi sem konur verða fyrir sem leiðir til áfallastreitu. Þetta kemur ekki á óvart enda hafa áhrifavaldar og allskonar félagasamtök verið áberandi síðastliðið ár að berjast fyrir því að breytingar verði. Konur hafa fengið nóg!!2

Langflestir ná sér eftir áföll en ef einkennin eru ennþá sterk eftir 1 mánuð þá getur áfallastreitumeðferð flýtt fyrir bata. Ef einkennin eru enn til staðar eftir 3 mánuði þá er meðferð líklega gagnleg og eftir 1 ár af einkennum er meðferð líklega nauðsynleg. Afleiðingar eftir kynferðisofbeldi eru m.a. þau að 56% líkur eru á að brotaþoli muni glíma við áfallastreituröskun1.

Áhættuþættir á þróun og að viðhalda áfallastreituröskun er :

 • Áfallið sjálft og alvarleiki áfallsins.
 • Endurtekin áföll / langvarandi ofbeldi.
 • Upplifun, persónulegir þættir, auðsæranleiki.
 • Einkenni þolenda, aldur, kyn, félagsleg staða, menntun, óstöðugleiki í fjölskyldu. 1

Einkenni áfallastreituröskunnar eru:

 • Mjög sterkar tilfinningar eða doði
 • Endurupplifun á atburðinum
 • Erfiðleikar með einbeitingu
 • Geðlægð, þunglyndi, kvíði
 • Löngun til að deyja, löngun til að einangra sig
 • Fyrri streita og áföll geta haft mikil áhrif á viðbrögð við nýju áfalli. 1

Líkamleg einkenni áfalla geta verið svefntruflanir, langvarandi verkir, vöðvabólga, vefjagigt, síþreyta, hár blóðþrýstingur, meltingarfærasjúkdómar, ofnæmi, astmi, húðsjúkdómar, átröskun, áfengisnotkun, fíkniefnanotkun, svimi, yfirlið, skjálfti, og óútskýrðanlegir líkamleg vandamál. 1

Börn og áföll

Börn sem upplifa áföll í æsku hefur forspárgildi varðandi líkamlega og andlega heilsu síðar á ævinni. Hjá börnum sem upplifa fjögur eða fleiri áföll í æsku aukast líkurnar á geðrænum vanda, áhættuhegðun, aukinni lyfjanotkun og líkamlegum sjúkdómum á fullorðinsárum. Þessi áföll eru ofbeldi (líkamlegt, andlegt og kynferðislegt), vanræksla (líkamleg, tilfinningaleg), heimilisofbeldi, geðrænn sjúkdómur foreldris, áfengis – og/eða fíkniefnavandi foreldris eða foreldramissir4.

Tengsl foreldra og barna eru mjög mikilvæg og eru grundvöllur þess að barn læri að þekkja tilfinningar sínar og bregðist við þeim á viðeigandi hátt. Foreldri sem líður illa eða er í ójafnvægi getur verið ófært um að lesa í þarfir og bregðast við líðan barnsins. 4

Börn sem búa við ofbeldi, verður fyrir miklu álagi og streitu getur gripið til ósjálfráða varnarviðbragða sem breytir virkni heila barnsins úr því að hleypa öðrum að sér yfir í að loka. Þetta kallast hugrof og er sálfrænt varnarviðbragð við áfalli eins og ógnun, ótta eða vanmætti. 4

Hugrof: Er varnarviðbragð við aðstæðum sem þú gætir upplifað sem hættulegar, að þér sé ógnað eða vegna hræðslu. Einstaklingar sem fara í hugrof aftengjast sjálfum sér og heiminum í kringum sig. Einstaklingar upplifa aðskilnað frá líkama sínum og upplifa heiminn í kringum sig sem óraunverulegan. Upplifun hvers og eins getur verið mismunandi. Sumir upplifa ,,out of body experience“ að þeir séu að horfa á aðstæður utan frá, eins og í bíómynd. Aðrir geta farið í ímyndaðan heim, svo sem álfaheim, og eru því alveg ótengdir aðstæðum. Þessi eiginleiki er leið líkamans og hugans til að komast lifandi í gegnum hættulegar aðstæður4 5.

Börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi í æsku geta þróað með sér hugrof til þess að lifa af erfiðar aðstæður. Í hugrofi er barn óhæft til að verja sig, greina á milli tilfinninga eða finna sársauka. Barnið er ófært um að hugsa eða taka rökum og hefur áfallastreita barna verið greind sem mótþróaþrjóskuröskun þar sem brugðist er við hegðun barnsins sem óþægð eða mótþróa4.

Einkenni hugrofs getur líka verið minnisleysi og þú getur upplifað eyður í lífi þínu þar sem þú manst ekki eftir neinu sem gerðist. Allskonar hljóð, aðstæður, lykt og upplifanir geta kveikt á hugrofi. Einstaklingar sem verða fyrir áfalli í æsku geta upplifað hugrof á fullorðinsárum án áfallavinnu. 5

Áföll í barnæsku og sjúkdómar

Áföll í barnæsku getur haft langvarandi áhrif á hin ýmsu líffærakerfi og stytt lífslíkur fólks um allt að tíu til fimmtán ár. Langvarandi streita hefur áhrif á öll kerfi líkamans og þá sérstaklega fyrir þau sem hafa orðið fyrir miklu áföllum í barnæsku eða þegar líkamskerfið er ennþá að mótast. Miklar breytingar á þroska heilans og þroska þess hvernig boðefnin virka í heilanum. Áföll eins og einelti í æsku hafa líka áhrif á heilsu okkar og heilsuþróun.7

Það er mikilvægt að vinna með vandamálin. Við breytum ekki fortíðinni en við getum breytt óhentugum bjargráðum sem við höfum lært eða tamið okkur vegna álags. Talið er það geti skipt sköpum í því að bæta lífslíkur, lífsgæði og heilsu einstaklinga. Heilsufarsáhrif af áföllum geta farið til baka. 7

Rannsóknir hafa sýnt að langvarandi steita getur haft neikvæð áhrif á ónæmiskerfið okkar og þar með aukið líkurnar á hinum ýmsum sjúkdómum, sjálfsónæmissjúkdómum eins og sykursýki 1, rauðum úlfum, MS, Addisson og Crohns sjúkdóm. Tengsl streitu og áfalla við hjarta- og æðsjúkdóma hefur líka verið rannsökuð og hefur streita neikvæð áhrif á tilurð hjarta- og æðasjúkdóma en ekki er talið að hún sé orsökin. Vísbendingar eru um að áföll og áfallastreituröskun auki hættuna á vefrænum sjúkdómum eins og gigtasjúkdómum. Einstaklingar sem hafa upplifað áföll eða eru með áfallastreituröskun upplifa mikla vanlíðan og depurð. Flóttaleiðin til að takast á við áföllin getur því miður þróast út í fíknissjúkdóma eins og spilafíkn, reiðifíkn, kynlífsfíkn og áfengi og/eða önnur vímuefni. Því er oft tengsl á milli áfalla og fíknar. 8 9

Kostnaður við áfallastreituröskun

Einstaklingar með áfallastreituröskun kosta heilbrigðiskerfið og samfélagið allt mikla fjármuni. Í rannsókn frá Bandaríkjunum var metið að einstaklingur með áfallastreituröskun kostar heilbrigðiskerfið um 1.394.440 kr til 2.385.944 kr á ári 6.

Einstaklingar með áfallastreituröskun virðast þjást af mun meiri skerðingu á almennu heilsufari sínu og bera því mun meiri kostnað á heilbrigðiskerfið en meðaltal. Áfallameðferð virðist lækka þennan kostnað þó til muna eftir fyrsta árið af meðferð. Því er meðferð við áfallastreituröskun hagkvæmari og gagnlegri fyrir ríki að fjárfesta í heldur en að gera ekki neitt. 6

Áfallstreituröskun er mikilvægt lýðheilsuvandamál sem hefur veruleg áhrif á viðkomandi einstaklinga, heilbrigðiskerfi og samfélög. Þrátt fyrir að tíðni áfallastreituröskunar sé lág í Evrópu eða 1.1 til 2.9% er örorkubyrgðin og samfélagslegur kostnaður í tengslum við áfallastreituröskun mjög há. Meiri líkur eru á sjálfsvígum, hjarta- og æðasjúkdómum, geðrænum sjúkdómum, lugnasjúkdómum, fíknisjúkdómum, sjálfsónæmissjúkdómum og veldur óvinnufærni og snemmbúnum starfslokum. Áfallastreituröskun er gríðarleg skerðing á lífsgæðum fólks og eykur nýtingu á heilsugæslu og félagsþjónustu. Því er arðbærara að eyða fjármagni í forvarnir og meðferðir við áfallastreituröskun. Það marg borgar sig fyrir heilbrigðiskerfið.6

Forvarnir í skólum

Til heilsueflingar og forvarna eru skólaumhverfið rökréttur staður til að fræða börn og fjölskyldur. Rannsóknir sýna að arðbærast er að hafa forvarnir og fyrirbyggjandi inngrip í skólum. Börn eru meðtækilegri fyrir forvörnum og bjargráðum sem getur fylgt þeim til fullorðinsára. Skólaumhverfið er í lykilaðstöðu til að koma með fyrirbyggjandi inngrip snemmtæks stuðnings og geðræktar til að hjálpa nemendum og fjölskyldum þeirra til að takast á við áföll, streitu og ofbeldi. 11

Árið 2020 kom út skýrsla starfshóps um geðrækt í skólum á vegum embætti landlæknis þar sem kemur fram að auka þarf heildræna nálgun að forvörnum í skólum og að geðrækt sé kennt á öllum skólastigum. Þar er mælt með þrepaskiptum stuðning sem felur í sér að geðrækt, forvarnir og snemmtæk íhlutun sem nær yfir hegðunar og félags- og tilfinningafærni. Mælt er með að nemendur fái fjölþættan stuðning til lengri tíma og að stuðningsúrræði sé í skólum til að tryggja að öll börn fái jöfn tækifæri að blómstra í námi.10

Ég fagna því að það sé verið að vekja athygli á mikilvægi forvarna, snemmtæks íhlutunar og fyrirbyggjandi inngripum. Það sem ég sé þó aftur og aftur er að með þessu fylgir ekki fjármagn eða aukinn stuðningur í skólum. Oftar en ekki er þetta lagt á herðar kennara og námsráðgjafa sem hafa hvorki þekkingu né tíma til að sjá um þetta.

Ég vil eins og ég hef sagt áður er að auka sérfræðiþekkingu og stuðning í skólum landsins til að sjá um þetta. Hér í Svíþjóð hafa tómstunda- og félagsmálafræðingar verið mikilvægur stuðningur við grunnskólakennara í kennslu í lífsleikni og forvörnum en ekki síst að hjálpa til með félagslegan þátt nemenda s.s. samskipti og fleira10.


Heimildir

 1. Sigríður Hrönn Bjarnadóttir (2015). Áhrif áfalla. Fyrirlestur geðhjúkrunarfræðings.
 2. Áfallasaga kvenna (2022). Frumniðurstöður. Sótt 2.febrúar 2022 frá: https://afallasaga.is/nidurstodur/
 3. Geðfraedsla (2022) Áfallastreituröskun. Hugrún geðfræðslufélag. Sótt 2. febrúar 2022 frá: https://gedfraedsla.is/kvidi-ptsd
 4. Sæunn Kjartansdóttir (2019) Falin áföll ómálga barna. Sótt 2. febrúar 2022 frá : https://www.reykjalundur.is/library/Skr%C3%A1r/Endurh%C3%A6fing/Salfraedithjonusta/SIBS_bla%C3%B0i%C3%B0_%C3%A1f%C3%B6ll.pdf
 5. Mind (2019) Dissociation and dissociative disorders. Sótt 2. febrúar 2022 frá: https://www.mind.org.uk/media-a/2936/dissociation-and-dissociative-disorders-2019.pdf
 6. Bothe, T., Jacob, J., Kröger, C., & Walker, J. (2020). How expensive are post-traumatic stress disorders? Estimating incremental health care and economic costs on anonymised claims data. The European journal of health economics : HEPAC : health economics in prevention and care21(6), 917–930. https://doi.org/10.1007/s10198-020-01184-x
 7. Arnhildur Hálfdánardóttir (2021) Frétt á Rúv. Áföll og streita breyta því hvernig líkaminn virkar. Sótt 07.02.2022 af: https://www.ruv.is/frett/2021/01/24/afoll-og-streita-breyta-thvi-hvernig-likaminn-virkar
 8. Huan Song et al (2018) Stress-related disorders and Autoimmune disease- reply. Jama. 2018 Nov 6;320 (17): 1817-1818. doi: 10.1001/jama.2018.12402
 9. SÍBS blaðið (2019) Áföll og afleiðingar. 35.árgangur. 2 tölublað í júlí 2019. Ábyrgðarmaður Guðmundur Löve. Sótt 07.02.2022 af: https://www.reykjalundur.is/library/Skr%C3%A1r/Endurh%C3%A6fing/Salfraedithjonusta/SIBS_bla%C3%B0i%C3%B0_%C3%A1f%C3%B6ll.pdf
 10. Tillögur starfshóps (2019) Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Sótt 07.02.2022 af: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38659/Starfsh%C3%B3pur%20um%20ge%C3%B0r%C3%A6kt%20%C3%AD%20sk%C3%B3lum_sk%C3%BDrsla.LOKA.pdf
 11. Theresa Kruczek and Jill Salsman (2006) Prevention and treatment of posttraumatic stress disorder in the school setting. Psychology in the schools, Vol 43(4) 2006. Sótt 07.02.2022 af https://onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1002/pits.20160

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur