Vefsíða lýðheilsufræðings

, ,

Heilsa sem mannréttindi og heilsufar kynjanna.

Skilningur þjóða á því að heilsa almennings sem mannréttindi skapar lagalega skyldu ríkja til að tryggja aðgang að viðunandi og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu. Árið 1946 var sett í stjórnarskrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að hæsta heilsufarsstig sem sérhver manneskja getur náð séu grundvallar mannréttindi1.

Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem
unnt er.
Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og
fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

23.gr. frumvarps Stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga 20122

Réttur til heilbrigðisþjónustu er almennt viðurkennt á Íslandi en réttur til heilsu hefur verið óskýr. Réttur til heilsu getur verið óskýr og það er erfitt að gera grein fyrir því hvað það inniheldur. Hvað þýðir það að hafa rétt til heilsu hæsta heilsufarstig sem unnt er?

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir heilsu sem ,, ástand algjörrar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar velsældar og ekki eingöngu fjarvera sjúkdóma og veikinda“ Grundvallarmannréttindi er sá réttur að njóta heilsu að hæsta marki sem unnt er.

Réttur að heilbrigðiskerfi þar sem allir hafa jafnan rétt á að njóta heilsu, réttur á forvörnum, meðferð og stjórn á sjúkdómum, aðgang að nauðsynlegum lyfjum, heilsa mæðra og barna, kynheilbrigði, jafnt aðgengi að skjótri heilbrigðisþjónustu og aðgangur að heilsutengdri fræðslu og upplýsingum.

Áhrifaþættir heilsu

Hvað þættir hafa áhrif á okkar heilsu?

Samkvæmt Embætti Landlæknis eru það:

  • Lifnaðarhættir: Hreyfing, geðrækt, næring, svefn, tóbak, áfengi, kynheilbrigði og ábyrgur neytandi.
  • Fjölskylda, vinátta og félagstengsl
  • Aðstæður í lífi, leik og starfi: Atvinna, húsnæði, menntun, heilbrigðisþjónusta, matvæli, vatn, hreinalæti, félagsþjónusta, íþróttir og tómstundir, hreyfing, samgöngur og öryggi.
  • Félags- efnahags- og menningarlegar aðstæður, byggð og náttúrulegt umhverfi: Stefna og aðgerðir ríkis, sveitarfélaga, vinnustaða, skóla og félagasamtaka4.

Því miður hafa ekki allir jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu eða viðunandi þætti sem hafa áhrif á heilsuna okkar. Minnihlutahópar hafa verið mælast með lakari heilsu en þeir sem eru í forréttindastöðu. Á Íslandi eru 15% íbúa landsins innflytjendur. Innflytjendur á Íslandi eru að mælast með lakari heilsu en aðrir. Skýringin gæti legið í því að þessi hópur stendur oft verr fjárhagslega, atvinnuleysi innflytjenda er þrefalt til fjórfalt verra en hjá þeim innfæddu og innflytjendur eiga erfiðara með að leita sér að heilbrigðisþjónustu vegna tungumálsins. Í nýlegri úttekt Margrétar Einarsdóttur um andlega heilsu innflytjenda og innfæddra Íslendinga í kórónuveirufaraldrinum kemur í ljós að 34.9% innflytjenda voru með viðmið um slæma andlega heilsu, samanborið við 22.3% Íslendinga. Um níu þúsund félagmanna ASÍ og BRSB tóku þátt. 3 5

Heilsufar kynjanna

Hvernig er þetta á meðal kynja? Er munur á heilsufari kvenna og karla?

Félagsleg, efnhagsleg og umhverfislegir þættir hafa bein og óbein áhrif á heilsu og velferði kvenna. Hugmyndir um karlmennsku og kvenleika sem mótar hvernig karla og konur eiga að hegða sér hefur áhrif á heilsu, heilsuhegðun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu3

Í úttekt um heilsu frá jafnréttis og kynjasjónarmiðum kemur fram að konur búa við lakara heilsufar og verri lífsgæði en karla á Íslandi. Ástæðurnar má rekja til félagslegrar og efnahagslegar stöðu þeirra. Heilbrigðisráðuneytið gerði úttekt þar sem heilsfar kynjanna var kortlagt og mat sett á það hvort heilbrigðisþjónustan komi á móts við þarfir kynjanna. Árið 2019 voru 85% kvenna og 92% karla á aldrinum 24-64 ára virk á vinnumarkaðnum en um 30% kvenna eru í hlutastarfi en aðeins 7% karla. Það hefur verið lengi vitað að konur taka meira á sig sem tengist heimilishaldi og umönnun. Umönnunarábyrgð er mikil á Íslandi og þá sérstaklega meðal kvenna3.

Konur eru líklegri til að meta andlega og líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega. Íbúar sem búa fyrir utan höfuðborgarsvæðisins meta líkamlega og andlega heilsu sína verri en þeir sem búa á höfuðborgarasvæðinu. Mat á eigin heilsu er því tengt því hversu gott aðgengi er að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Þessar niðurstöður eiga líka við nýlega rannsókn þar sem kom í ljós að offita barna er meiri út á landi heldur en á höfuðborgarasvæðinu. Á landsbyggðinni er hlutfallið 9,4% en á höfuðborgarsvæðinu er það 5.6% barna með offitu3 5 6 .

Fjárhagsleg staða fólks hefur líka áhrif á aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega kvenna. Vísbendingar eru um að jaðarsettir hópar búi við lakari heilsu og verra aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Konur eru um 60% örorkulífeyrisþega og hefur verið mikil fjölgun með kvenna 50 ára og eldri. Algengasta sjúkdómsgreiningin meðal fólks á örorkulífeyri eru geðraskanir (39,4%) og stoðkerfisvandamál (26,5%) 3.

Afhverju er svona mikil munur á heilsu kvenna og karla? Ein útskýringin getur verið þessi menningarlega hugmynd að karlmennsku að karlar mega ekki kvarta og eiga að harka af sér. Karlar leita síður að heilbrigðisþjónustu fyrr en vandamálið er orðið stórt. Krabbameinsfélagið hefur verið með herferðir til að hvetja karla til að sækja sér ráðgjöf og panta sér tíma hjá lækni. Í rannsókn frá Krabbameinsfélaginu kemur í ljós að aðeins 35% karla leituðu til læknis innan mánaðar eftir að þeir fóru að finna fyrir einkennum en 60% kvenna. Þetta getur þó verið ein skýring af mörgum7.

Kynbundinn launamunur getur haft áhrif á heilsu kvenna þar sem konur eru oftar en ekki með lægri laun en karlar. Kynbundinn launamunur er enn til staðar á meðal fólks á efri árum en það skýrist út frá því að lífeyrisréttindi eru tengd þátttöku á vinnumarkaði og voru fleiri konur heimavinnandi hérna fyrir nokkrum áratugum. Fjárhagsleg staða hefur áhrif á aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega kvenna3.

Streita og kynbundið ofbeldi

Streita og kulnun hefur verið mikið í umræðunni. Konur eru þar í meirihluta og hafa rannsóknir sýnt að félags- og efnahagslegir þættir geta verið mjög streituvaldandi. Konur upplifa meiri streitu en karlar í daglegu lífi. Mikil eða viðvarandi streita getur haft áhrif á svefn, valdið kvíða, stoðkerfisvanda og kulnun í starfi. Langvinnir sjúkdómar hafa líka verið tengdir streitu eins og háþrýstingur, sykursýki 2 og hjarta og æðasjúkdómar3.

Tölur frá Virk starfsendurhæfingu kemur í ljós að 69% skjólstæðinga þeirra eru konur og aðeins eru karlar um 31%. Sérfræðingar sem hafa verið að rannsaka kulnun hafa komið fram með þá kenningu að konur eru ennþá að taka að sér megin ábyrgð heimilisins og uppeldi barna, samhliða því að vera í 100% vinnu sem gæti skýrt þessa aukningu á kulnun meðal kvenna. Ekkert líffræðilegt bendir til þess að konur séu líklegri til að upplifa kulnun en vinnustaðir þar sem konur eru í meirihluta eru í þremur efstu sætum yfir hæstu tíðni kulnunar8 9.

Kynbundið ofbeldi er mikið vandamál á Íslandi og getur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Rúmlega þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir ofbeldi um ævina. Ofbeldi í nánum samböndum hefur mikil áhrif á þátttöku kvenna í samfélaginu og eru brotaþolar í meirihluta konur. Ofbeldi í nánum samböndum getur leitt til áverka, örorku og dauða en rúmlega þriðjungur morða á konum í heiminum er vegna heimilisofbeldis3.

Afleiðingar ofbeldis eru gríðarlegar fyrir brotaþola, bæði andlega og líkamlega. Afleiðingar á andlega heilsu er þunglyndi, áfallastreituröskun og aðra kvíðaraskanir. Rannsóknir sýna að fjórðungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi frá 16 ára aldri3.

Börn sem verða vitni af heimilisofbeldi eða alast upp við heimilisofbeldi geta þróað með sér sömu heilsufarsleg vandamál og börn sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi. Börn sem alast upp við svona aðstæður eru í aukinni hættu á að hafa hegðunar og tilfinningalegar raskanir en einnig geðraskanir.

Rannsóknir sýna að 24-30% kvenna á Íslandi hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir áreitni á vinnustað á lífsleiðinni. Niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna sýnir háa tíðni áfallastreituröskunar meðal kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Konur með áfallatengdar raskanir eru í aukinni hættu á að fá líkamlega sjúkdóma s.s. sjálfsofnæmissjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma og ýmsar sýkingar á borð við heilahimnubólgu, hjartaþelsbólgu og blóðsýkingu3.

Hvað er til ráða?

Ég tel það vera næsta baráttumál kvenna að auka jafnrétti á vinnumarkaði og inn á heimilunum með því að jafna völd og áhrif kvenna í samfélaginu. Það þarf að útrýma kyndbundnum launamun og kynbundnu ofbeldi. Heilbrigðiskerfið verður að koma á mót við þolendur ofbeldis í nánum samböndum með verkferlum og úrræðum. Efla þarf vitundarvakningu og þekkingu um heilsufar kynjanna og þá sérstaklega kvenna. Hvernig getum við bætt heilsu kvenna og stuðla að jafnrétti á vinnumarkaðnum.


Heimildir

  1. WHO (2017) Human rights and health. Sótt 24. janúar 2022 af: https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/human-rights-and-health
  2. Frumvarp til stjórnskipunarlaga. 2012. https://www.althingi.is/altext/141/s/0510.html. 23. gr.
  3. Finnborg Salome Steinþórsdóttir (2021). Heilsufar og heilbrigðisþjónusta. Kynja- og jafnréttissjónarmið. Heilbrigðisráðuneytið. Sótt 25.janúar 2022 af: https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Heilsa-heilbr-kynja_FSS-leidrett.pdf
  4. Embætti Landlæknis (2019). Áhrifaþættir heilsu og vellíðanar 2019. Sótt 25. janúar 2022 af: https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item37288/
  5. Margrét Einarsdóttir (2021). Andleg heilsa innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði á tímum covid-19. Sótt 25. janúar 2022 af: https://lifogheil.hi.is/andleg-heilsa-innflytjenda-a-islenskum-vinnumarkadi-a-timum-covid-19/
  6. Dagný Hulda Erlendsdóttir (2021) Erfitt að skýra hærri tíðni offitu á landsbyggðinni. Rúv, fréttir. Sótt 25. janúar 2022 af: https://www.ruv.is/frett/2021/10/06/erfitt-ad-skyra-haerri-tidni-offitu-a-landsbyggdinni
  7. Krabbameinsfélagið (2020) Pabbamein. Greinar. Sótt 25. janúar 2022 af: https://www.karlaklefinn.is/pabbamein/
  8. Dr. Christina Maslach & Michael P. Leiter (2013) The truth about burnout. John Wiley & Sons Inc.
  9. Virk (2020) Virk í tölum. Grunnupplýsingar úr starfsemi Virk Starfsendurhæfingarsjóðs. Sótt 25. janúar 2022 af: https://www.virk.is/is/um-virk/upplysingar/virk-i-tolum

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur