Vefsíða lýðheilsufræðings

,

Covid bólusetning á meðgöngu

Mikið hefur verið talað um covid-19 bólusetningar á meðgöngu og hugsanlegar aukaverkanir vegna þessa. Hvað segja vísindin okkur?

Ég vil samt taka fram að þetta er ákvörðun hvers og eins. Ég er eingöngu að vísa í vísindagreinar og heimildir sem ég hef menntað mig í að greina.

Konur sem eru barnshafandi eru í aukinni hættu á að verða alvarlega veikar ef þær smitast af covid-19 á meðgöngu. Líkami kvenna verður fyrir miklum breytingum á meðgöngu og því eru ófrískar konur almennt viðkvæmari fyrir sýkingum. Þó benda rannsóknir til að barnshafandi konur smitast ekki frekar af COVID-19 en þær sem ekki eru barnshafandi. Líklegra er þó að barnshafandi konur þurfi öndunaraðstoð að halda og að dánartíðni sé jafnvel lítillega aukin en hjá jafnöldrum. Hærri aldur (> 35 ára), ofþyngd, háþrýstingur og sykursýki virðast auka áhættuna. Veiran leiðir þó ekki til fósturláta svo vitað sé né smitað fóstur á meðgöngu1 3.

Í Svíþjóð eru barnshafandi konur frá 20 vikum taldar vera í áhættuhóp vegna aukinnar hættu á fyrirburafæðingu við að fá COVID-19 á síðari hluta meðgöngu. Með því að bólusetja þig fyrir COVID-19 virðast rannsóknir sýna að þú minnkir líkurnar að veikjast alvarlega og þar með minni líkur á fyrirburafæðingu7.

Á Íslandi og Svíþjóð er mælt með að barnshafandi konur fari í bólusetningu gegn Covid-19 eftir 12 vikna meðgöngu vegna varkárna á fyrsta þriðjungi meðgöngu en einnig vegna aukaverkana sem getur hlotist af bólusetningunni sem getur verið skaðlegt á fyrsta þriðjung meðgöngu s.s. hiti. Hiti á fyrsta hluta meðgöngu getur verið skaðlegur fyrir móður og barn og því vilja fagaðilar bíða með bólusetningu þar sem aukaverkun getur verið hiti. Mesta reynslan er á notkun mRNA bóluefna frá Pfizer og Moderna fyrir barnshafandi konur. Fyrstu rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu ekki fram á skaðleg áhrif á meðgöngu. Nú hafa rannsóknir verið birtar þar sem þetta var rannsakað hjá barnshafandi konum 3.

Í júní 2021 birtist vísindagrein í The New England Journal of Medicine um bráðabirgðaniðurstöður mRNA covid-19 bólusetningar og öryggis hjá þunguðum einstaklingum. Frá desember 2020 til febrúar 2021 var fylgst með konum sem höfðu fengið bólusetningar á meðgöngu. Þetta voru 35.691 barnshafandi konur á aldrinum 16-54 ára. Helstu niðurstöður á aukaverkunum var bólga á stungusvæði, höfuðverkir, kuldahrollur, vöðvaverkir og hiti. Fósturmissir var 13.9% í þýðinu en almennt er tíðni fósturláta í kringum 15% og þannig ekki merki aukinna fósturláta tengt bólusetningu. Þó þessar fyrstu niðurstöður lofi góðu er lengri eftirfylgni og eftirfylgni fjölda kvenna sem voru bólusettar fyrr á meðgöngu nauðsynleg til að fá betri mynd um öryggi mæðra og ófæddra barna þeirra á meðgöngu4.

Fyrir tveimur dögum var birt bandarísk rannsókn þar sem 46.079 ófrískum konum með lifandi fædd börn var fylgt eftir og fengu 98.3% þessara kvenna bólusetningu gegn covid-19 á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu. Bólusetningin jók ekki tíðni fyrirburafæðinga. Það var engin aukin hætta á aukaverkunum eða fyrirburafæðingu með því að vera bólusettur á öðrum eða þriðja þriðjungi, samanborið við óbólusettar þungaðar konur. Þessi rannsókn styður því öryggi þess að fá bólusetningu gegn covid-19 á meðgöngu9.

Svipaðar meðgönguútkomur eru að koma í ljós hjá konum sem eru bólusettar í samanburði við þær sem eru það ekki en áhættan á fylgikvillum af því að smitast af covid-19 er gríðarleg og þá eykst áhættan á fyrirburafæðingu og fylgikvillum.

Örvunarbólusetningar fyrir ófrískar konur

Í Bretlandi er þunguðum konum sem hafa lokið frumbólusetningu ráðlagt að fá covid-19 örvunarskammt ef þær fengu seinni skammtinn minnst 3 mánuðum fyrr. Ég hef ekki fundið rannsóknir á því að fá þrjá skammta af bóluefninu gegn covid-19 á einni meðgöngu. Þær konur sem fóru í grunnbólusetningu þ.e.a.s. tvö skammta fyrir meðgöngu er mælt með að fá þriðju á meðgöngu (auka skammt). Það þarf að líða 5-6 mánuður frá því grunnbólusetningu lauk miða við íslenskar ráðleggingar. Því er ólíklegt að þungaðar konur nái að fara í þrjár bólusetningar á einni meðgöngu5 6.

Niðurstaða rannsókna í Ísrael sýndi að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær sprautur af Pfizer bóluefninu6.

Ákvörðun um notkun bólefnisins á meðgöngu þarf að byggja á mati um ávinning og mögulega áhættu notkunarinnar.

Þróun bóluefnis

Mikið var búið að rannsaka SARS veiruna áður en covid-19 varð að heimsfaraldri. Vilja menn meina að þess vegna hafi bóluefnið tekið svona stuttan tíma í þróun. Fyrri rannsóknir höfðu fundið út ákveðið prótín (S-prótín) sem er mikilvægast fyrir ónæmiskerfið okkar til að þekkja kórónuveirur sem skýrði út hvaða hluta kórónuveirunnar ætti að ráðast gegn með bóluefni. Þar af leiðandi var búið að vinna mikla forvinnu fyrir þróun bóluefnis gegn covid-193.

Niðurstöður

Ég er sjálf ólétt, komin 30 vikur og hef farið í fyrstu tvær sprauturnar af Pfizer. Fyrsta sprautan áður en ég vissi að ég væri ólétt og seinni sprautuna fékk ég þegar ég var komin 14 vikur á leið. Ég upplifði engar aukaverkanir og allar mælingar hafa komið vel út.

Bóluefnin gegn covid-19 eru örugg fyrir óléttar konur og eru engar vísbendingar um að bólusetningar gegn covid-19 hafi nokkur neikvæð áhrif á barnshafandi konur eða á fóstrið. Engar staðfestar vísbendingar eru um að bólusetningar gegn covid-19 trufli tíðir eða hafi áhrif á frjósemi. Þú þarf heldur ekki að bíða eftir að verða ólétt til að bólusetja þig7.

Þegar ég var ófrísk af fyrsta barninu mínu 2009-2010 var svínaflensan að ganga og fékk ég bólusetningu þá. Ég fékk engar aukaverkanir né sýnir dóttir mín þess merkis að sú bólusetning hafi haft áhrif á hana. Ég skil samt að fólk sé með efasemdir þar sem rannsóknir eftir bólusetningar við svínaflensunni sýndi fram á drómasýki sem aukaverkun á unglings stúlkur. Drómasýki var samt sjaldgæf og var algengið 20-50 á hverja 100.000 einstaklinga á ári. Pandemrix bóluefnið gegn svínaflensunni sýndi að meðal bólusetttra barna voru 5.4 tilfelli af hverja 100.000 bólusettra og um 1 tilfelli fyrir hverja 181.000 bólusettra meðal fullorðinna8.

Því þarf að vega og meta ávinning og mögulegar áhættur að hverju sinni.

Við vitum að konur sem eru óbólusettar gegn covid-19 geta orðið veikari af smiti og meira er um fósturlát þegar óbólusettar konur fá covid. Því tel ég að það sé mikilvægt að bólusetja sig á meðgöngu en hver og einn þarf að meta það út frá sér hvort áhættan sé þess virði.

Vonandi hjálpar þetta þér að taka ákvörðun.


Heimildir

  1. Þróunarmiðstöð Íslenskrar heilsugæslu (2021) Covid-19 meðganga, brjóstagjöf og bólusetning. Fróðleiksmoli um mæðravernd. https://throunarmidstod.is/library/contentfiles/COVID-19%20me%c3%b0ganga%20og%20brj%c3%b3stagj%c3%b6f%20-%20Copy%20(6).pdf
  2. Lyfjastofnun ríkisins (2021). Comirnaty (BioNTech/Pfizer). https://www.lyfjastofnun.is/covid-19/comirnaty-biontech-pfizer-2/
  3. Embætti landlæknis (2021) Bólusetning gegn covid-19 – Algengar spurningar og svör. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item43978/bolusetning-gegn-covid-19-algengar-spurningar-og-svor
  4. Shimabukuro et al ( 2021) Preliminary Findings of mRNA Covid-19 Vaccine Safety in Pregnant Persons. The New England Journal of Medicine. https://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMoa2104983
  5. UK Health Security Agency (2021) Pregnant women urged to come forward for COVID-19 vaccination. Gov.uk. Sótt frá: https://www.gov.uk/government/news/pregnant-women-urged-to-come-forward-for-covid-19-vaccination
  6. Embætti landlæknis (2021) Örvunarbólusetning. covid.is. Sótt frá: https://www.covid.is/orvunarbolusetningar
  7. Folkhälsomyndligheten (2021) Till dig som är gravid. Om vaccination mot covid-19. Sótt frá https://www.folkhalsomyndigheten.se/contentassets/e10769cc25934bd6a7b8dc888f4782e7/till-dig-som-ar-gravid-om-vaccination-mot-covid-19.pdf
  8. Björn Rúnar Lúðvíksson. (2020, 18. desember). Er það rétt að bólusetning við svínainflúensu hafi valdið drómasýki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5456
  9. Lipkind HS, Vazquez-Benitez G, DeSilva M, Vesco KK, Ackerman-Banks C, Zhu J, Boyce TG, Daley MF, Fuller CC, Getahun D, Irving SA, Jackson LA, Williams JTB, Zerbo O, McNeil MM, Olson CK, Weintraub E, Kharbanda EO. Receipt of COVID-19 Vaccine During Pregnancy and Preterm or Small-for-Gestational-Age at Birth – Eight Integrated Health Care Organizations, United States, December 15, 2020-July 22, 2021. MMWR Morb Mortal Wkly Rep. 2022 Jan 7;71(1):26-30. doi: 10.15585/mmwr.mm7101e1. PMID: 34990445.

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur