Vefsíða lýðheilsufræðings

, ,

Hundar og heilsa

Þar sem ég er stödd á Íslandi yfir hátíðarnar þurfti elsku besta Ísey hundurinn minn að bíða heima í Svíþjóð. Söknuðurinn er gríðarlegur en við vorum svo heppin að fá vinahjón okkar til að sjá um hana á meðan. Þar er hún í þvílíku dekri og heillar alla upp úr skónum með sínum einstaka karakter.

Árið 2020 í miðjum covid faraldri fengum við okkur hund eftir að hafa leitað af rétta hundinum síðan 2018. Ég var á þessum tíma atvinnulaus og upplifði mikinn einmanaleika. Börnin fóru í skólann og maðurinn minn í vinnuna en ég sat ein eftir í þögninni. Þessi knístandi þögn sem getur verið svo slæm fyrir mína andlega heilsu.

Við hjónin erum ekki alin upp með hundum en höfum alltaf viljað fá okkur hund. Aldrei hafði okkur grunað hversu mikil áhrif þessi yndislegi hundur hefur á okkur og hversu heitt er hægt að elska hund.

Rannsóknir

Gæludýr hafa mjög mikil áhrif á heilsu einstaklinga. Hundar, kettir eða önnur dýr geta hjálpað einstaklingum við þunglyndi, kvíða, minnkað streitu og bætt heilsu. Við erum ómeðvituð um þá líkamlegu og andlegu heilsufars ávinning sem getur fylgt ánægjunni af því að eiga dýr sem hægt er að kúra með. Það er aðeins nýlega sem rannsóknir hafa byrjað að kanna á vísindalegum grunni tengsl manna og dýra. Gæludýr hafa þróast til að aðlagast okkur mönnunum, hegðun okkar og tilfinningum. Hundar til dæmis geta skilið mörg orð sem við notum en þeir eru enn betri að túlka raddblæ okkar, líkamstjáningu og látbragð1.

Með því að horfa í augun á þér geta hundar metið tilfinningalegt ástand þitt og reynt að skilja hvað þú ert að hugsa eða hvernig þér líður. Hundur og kettir sérstaklega, geta minnkað streitu, kvíða og þunglyndi, auðveldað með einmanaleika, hvatt til hreyfingar og leikgleði og haft jákvæð áhrif á hjarta og æðakerfið1.

Fólk með gæludýr hefur lægri blóðþrýsting í streituvaldandi aðstæðum en þeir sem eru án gæludýra. Ein rannsókn fylgdi eftir fólki sem hafði háþrýsting sem síðan ættleiddi hund og innan fimm mánaða hafði blóðþrýstingurinn þeirra lækkað verulega 1.

Að leika við hund, kött eða önnur gæludýr getur hækkað magn serótóníns og dópamíns sem hefur þau áhrif að þau róar og slaka á taugakerfinu okkar4.

Serótónín hefur áhrif á skapferli og almenna virkni. Skortur á serótónín getur valdið höfuðverkjaköstum. Dópamín stjórnar ánægju og hreyfingu. Skortur á dópamíni hefur verið tengt við Parkison og Tourette heilkenni12 13

Þegar við höfum samskipti eða leikum við hunda eykst oxýtósin magnið okkar. Það er hormónið sem er að miklu leyti ábyrgt fyrir félagslegum tengingum og eykur þetta ,,ástarhormón“ sálfræðilega vellíðan okkar7.

Einstaklingar sem hafa fengið hjartaáfall og fengið sér svo gæludýr lifa lengur en þeir sem eru án. Gæludýraeigendur eldri en 65 ára fara 30% færri heimsóknir til lækna sinna en þeir sem eru án gæludýra. Nýlegar rannsóknir þar á meðal frá Háskólanum í Missouri í Kólumbíu og önnur frá Glasgow Caledonian Háskólanum í Bretlandi leiddi í ljós að fullorðnir 60 ára og eldri njóta betri heilsu þökk sé ,,þvinguðu“ hreyfingunni sem þeir fá með því að fara út að ganga með hunda sína. Gæludýr veita dýrmætan félagsskap fyrir eldri fullorðna sem eru hættir að vinna og upplifa mikinn einmanaleika.4.

Börn og gæludýr

Að annast dýr getur hjálpað börnum að alast upp í öruggara og virkara umhverfi. Að eiga gæludýr getur kennt börnum að bera ábyrgð en það mikilvægast er þó að gæludýr geta bætt gleði og veitt skilyrðislausa ást.

Í yfirferð á 22 rannsóknum kemur í ljós að börn sem alast upp með gæludýrum skilar jákvæðum áhrifum á vitsmunaþroska þeirra. Niðurstöður frá þessum rannsóknum sýna að börn sem alast upp með gæludýrum þróa með sér betri sjálfsmynd, betri vitsmunaþroska og betri félagslega hæfni. Gæludýraeign í æsku er sérstaklega góð fyrir börn sem upplifa mikinn einmanaleika eða eiga erfitt með félagslega hæfni. Skortur er þó á vönduðum langtímarannsóknum á áhrifum þess að alast upp með gæludýrum og hvaða áhrif það getur haft síðar á fullorðinsár3.

Börn sem eiga gæludýr eru að mælast með betri almenna heilsu, vera líkamlega virkari, hafa færri hegðunavandamál og færri námsvandamál2.

Rannsóknir sem birtar voru á síðasta ári benda til þess að börn sem voru ennþá í móðurkviði- þar sem mæður þeirra eyddu tíma í kringum hunda á meðgöngu- væru í minni hættu á að fá exem í æsku7.

Erlendis hafa hundar verið notaðir sem þjálfunar- og meðferðarleiðir fyrir börn með einhverfu. Rannsóknir á þessari þjálfunar- og meðferðarleið styður það að hundar getur aukið á tækifæri til samskipta og veita börnum tilfinningalegt öryggi með sinni skilyrðislausu ást. Samskipti barna með einhverfu við gæludýr geta verið öðruvísi en við menn og minnkað einkenni einhverfunnar sem og aukið lífsgæði barnanna. Niðurstöður rannsókna hafa líka leitt í ljós að börn með einhverfu eiga það til að leita eftir huggun hjá gæludýrunum með snertingu frekar en við manneskjur8 9.

Hvernig tengist gæludýraeign lýðheilsu?

Hundaeign tengist lýðheilsu þar sem rannsóknir hafa sýnt að það getur haft heilsubætandi áhrif á hreyfingu og hjarta- og æðasjúkdómum. Mælt er með að fullorðnir einstaklingar hreyfi sig að minnsta kosti 150 mínútur við kröftuga hreyfingu á viku eða um miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu minnst 30 mínútur á dag. Samkvæmt staðreyndartafla frá Alþjóðaheilbrigðisstofnun stunda 71.8% karla og 74.5% kvenna á aldrinu 18-64 ára næginlega hreyfingu á dag árið 20196

Einstaklingar sem þurfa að auka hreyfingu ættu samt ekki að fá sér hund í þeim eina tilgangi. Hundar þurfa meira en bara göngutúra. Þetta er mikil ábyrgð og mikil vinna sem þú þarft að vera tilbúin í.

Hundar sem hjálpartæki

Hundar hafa verið þjálfaðir í að hjálpa fólki með allskonar sjúkdóma. Hundar hafa verið þjálfaðir í að þefa uppi blóðsykurfall hjá eigendum sínum sem eru með sykursýki. Leiðsöguhundar eru þekktastir en þeir hafa hjálpað blindum og sjónskertum til að öðlast frelsi og aukið öryggi. Lögregluhundar hafa einnig verið notaðir til þess að þefa uppi fíkniefni, brotamenn á flótta og fleira. Björgunarhundar hafa verið þjálfaðir í leitarstarfi og verið notaðir í mannshvörfum og snjóflóðum hér á landi. Þjónustuhundar eru hundar sem aðstoða fólk með sérþarfir s.s. einstaklinga með flogaveiki, auka félags- og tilfinningaþroska, aðstoða einstaklinga sem eru í hjólastólum ásamt þvi að aðstoða einstakling með einhverfu8 9.

Fyrr á þessu ári greindi Medical News Today frá rannsókn sem lýsir því hvernig vísindamenn leitast við að búa til byltingakennda aðferð til að nota hunda til að greina krabbamein í eggjastokkum. Hundar hafa verið þjálfaðir til að greina þvagsýni úr sjúklingum sem voru með krabbamein í þvagblöðru. Hundarnir náðu að greina krabbameinið á bilinu 56% til 92% tilvika10.

Með gæludýrum fylgir ábyrgð

Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma í að vega og meta hvaða hundur hentar. Það þarf líka að átta sig á því að þetta krefst mikillar vinnu og ábyrgð. Þetta er heilmikil skuldbinding, það þarf að hreyfa hunda, gefa þeim að borða, sinna þjálfun og tryggja þeim öruggt híbýli. Þetta er 10-15 ára skuldbinding. Hvolpur getur ekki verið einn allan daginn.

Margt þarf að hugsa áður en maður ákveður að fá sér hund. Fólk ætti alls ekki að fá sér hund óhugsað, í fljótfærni eða undir þrýstingi frá öðrum. Hundar eru lifandi verur sem þurfa athygli og umönnun. Nokkrar spurningar sem Heiðrún Villa, hundaþjálfari vill að þú svarir áður en þú tekur þessa ákvörðun11.

Afhverju viltu fá þér hund?

Hvers konar hund vilt þú?

Hefur þú tíma fyrir hund?

Þegar þú velur þér hund þarftur að hafa í huga hversu orkumikill hann er, kyn hundsins, aldur hundsins, stærð hundsins, hreinræktaðan hund eða blending, feldur og hreyfing. 11

Ég elska að eiga hund en þetta hefur verið vinna. Það er mjög erfitt fyrst að fá hvolp, krefst mikillar vinnu og svefnleysi. Talið er að fyrstu tvö árin séu erfiðust því þá eru bæði hormónabreytingar í gangi hjá hundinum en einnig eru það grundvallarárin að þjálfa hundinn. Þú þarft að fara út í hvaða veðri sem er og það getur verið kostnaðarsamt. Hundar geta orðið veikir, þú þarft að fara með þá í bólusetningar, hreinsanir, klippingu eða snyrtingu og fleira. Hundanámskeið eru líka dýr en mjög mikilvæg sérstaklega fyrir fyrstu eigendur.

Þrátt fyrir þetta myndi ég aldrei vilja skipta né sé ég eftir því að hafa fengið mér hund. Ísey hundurinn minn hefur gefið mér margfalt til baka og hún er orðin partur af fjölskyldunni.


Heimildir

 1. Kai Lundgren, Lawrence Robinson, and Robert Segal, M.A (2021) . The Health and Mood-Boosting Benefits of Pets. Health Guide. Sótt af: https://www.helpguide.org/articles/mental-health/mood-boosting-power-of-dogs.htm
 2. Hal Herzog Ph.D. (2017) Why kids with Pets Are Better off. Psychology Today. Sótt af: https://www.psychologytoday.com/us/blog/animals-and-us/201707/why-kids-pets-are-better
 3. Purewal et al (2017) Int. J. Environ. Res. Public Health 201714(3), 234; https://doi.org/10.3390/ijerph14030234
 4. Megan K. Mueller, Erin K. King, Kristina Callina, Seana Dowling-Guyer, Emily McCobb. (2021) Demographic and contextual factors as moderators of the relationship between pet ownership and healthHealth Psychology and Behavioral Medicine 9:1, pages 701-723.
 5. Westgarth, C., Christley, R.M., Jewell, C. et al. Dog owners are more likely to meet physical activity guidelines than people without a dog: An investigation of the association between dog ownership and physical activity levels in a UK community. Sci Rep 9, 5704 (2019). https://doi.org/10.1038/s41598-019-41254-6
 6. WHO.int (2019) Iceland, Physical Activity, Factsheet 2019. Sótt frá: https://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0006/465558/Iceland-physical-activity-factsheet-2019-eng.pdf
 7. Whiteman, Honor (2013) Medical detection dogs: how they could save our lives in a sniff. Medical News Today. Sótt frá: https://www.medicalnewstoday.com/articles/269099
 8. Guðbjörg Snorradóttir og Helga María Gunnarsdóttir (2011) ,,Besti vinur mannsins“ ; aðstoð hunda í daglegu lífi barna með einhverfu. Sótt frá: https://skemman.is/handle/1946/9412
 9. Ingibjörg H. Harðardóttir (2016) sótt frá: https://www.einhverfa.is/is/fraedsla/ahugaverdar-greinar-og-skyrslur/besti-vinur-mannsins
 10. Cohut, Maria (2018) Dogs: Our best friends in sickness and in health. Medical News Today. Sótt frá: https://www.medicalnewstoday.com/articles/322868
 11. Heiðrún Villa. (2008). Gerðu besta vininn betri. Bókaútgáfan Tindur.
 12. HMS. „Hvaða tilgangi þjónar serótónín í heilanum? Hverjar eru afleiðingarnar ef starfsemi þess er raskað?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2007. Sótt 28. desember 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=6507.
 13. Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað gerir dópamín?“ Vísindavefurinn, 30. september 2003. Sótt 28. desember 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=3766.

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur