Fyrir marga í kringum mig og þar á meðal mig voru fyrstu líkamlegu einkenni streitu, höfuðverkur eða mígreni með sjóntruflunum.
Mígreni er algeng tegund höfuðverks sem kemur oft í köstum og getur verið mjög hamlandi. Verkurinn varir í nokkrar klukkustundir og með honum getur fylgt ógleði og ljósfælni. Mígreni er taugasjúkdómur sem getur valdið mörgum einkennum1.
Algengustu einkennin eru:
- Lamandi höfuðverkur
- Ógleði
- Uppköst
- Talerfiðleikar
- Dofi eða náladofi
- Næmni fyrir ljósi og hljóði
Talið er að 50.000 Íslendingar þjáist af mígreni. Mígreni er þekkt í ættum og vitað er af erfðabreytum sem geta valdið mígreni3. Mígreni er oft í fjölskyldum og getur haft áhrif á alla aldurshópa. Mígreni er algengara hjá konum en körlum2.
Langvarandi mígreni er ástand sem einkennist af upplifun af mígrenishöfuðverku á að minnsta kosti 15 dögum í mánuði. Sjúklingar sem eru með langvarandi mígreni eru líklegri til að þróa með sér ofnotkun og jafnvel fíkn í verkjalyf sem eru samsett af ópíóíðum, triptan eða erfot-afleiðu. Mikilvægt er að greina sjúklinga snemma með langvarandi mígreni til að hægt sé að nota fyrirbyggjandi meðferðarúrræði áður en sjúklingurinn verður háður verkjalyfjum4.
Nafnið ,,mígreni“ kemur frá gríska orðinu hemicrania sem þýðir ,,helmingur höfuðsins“ sem táknar eitt af algengustu einkennum sjúkdómsins, þ.e. að sársaukin hefur aðeins áhrif á annan helming höfuðsins. Líka er algengt að sársauki finnist tvíhliða það er að segja að framan eða aftan á höfði. Sjaldnar er verkurinn í andliti og ennþá sjaldgæfari í líkamanum4.
Mígreni er flokkað í þrjá flokka1:
Mígreni með fyrirboða: Einkenni eins og sjóntruflanir og/eða aura koma fram stuttu áður en höfuðverkurinn byrjar.
Mígreni án fyrirboða: Þetta er algengasta tegundin en það er þegar höfuðverkurinn kemur skyndilega án nokkurs fyrirboða.
Blandað mígreni: Mígreni með fyrirboða án höfuðverks eða að fyrirboði komi án þess að höfuðverki fylgi eftir á. Þessi tegund er algengari hjá eldri einstaklingum.
Börn geta líka fengið mígreni en það er ekki algengt. Oft eru mígrenisköstin stutt og mild. Fyrsta mígrenikastið kemur þó oftast í kringum kynþroskaaldurinn hjá einstaklingum1.
Mígrenisköst geta varað allt frá nokkrum klukkustundum til þrjá sólarhringa. Margir upplifa þreytu, spennu í höfði og herðum, ógleði og áframhaldandi fælni fyrir hljóðum og ljósum. Eftir mígreinsköst upplifa einstaklingar eins og höfðinu hafi verið barið í vegg, eins og að hafa marbletti inn í höfðinu eða eymslatilfinningu í höfði4.
Greining á mígreni
Læknar greina mígreni með því að hlusta á einkenni, taka ítarlega sjúkra- og fjölskyldusögu og framkvæma líkamlega skoðun til að útiloka aðrar hugsanlegar orsakir. Myndaskönnun, eins og tölvusneiðmynd eða segulómskoðun getur útilokað aðrar orsakir eins og æxli, óeðlileg uppbyggingu heila og heilablóðfall2.
Mikilvægt er að ganga í skugg um hvernig höfuðverkurinn þróaðist upphaflega þegar sjúklingur er með langvarandi höfuðverk. Mígreni er algengasta orsök endurtekinna höfuðverkja. Yfir 20% kvenna upplifa það einhvern tímann á lífsleiðinni að fá mígreni og 10% karla. Erfðafræðilegur grundvöllur er fyrir þessu eins og sagt var frá hér áðan en einstök köst geta komið af stað af innri og ytri áhrifum eða komið af sjálfu sér án sýnilegra ástæðna4.
Allar hormónabreytingar hafa áhrif á mígreni kvenna. Tíðahringur, meðganga, brjóstagjöf og breytingarskeiðið getur haft þau áhrif á konur að þær fá tíðari mígrenisköst. Rannsóknir á mígreni og ófrískum konum sýndi að konur sem fá mígreni á meðgöngu voru líklegri til að eignast fyrirbura, fara í snemmbúna fæðingu, fá meðgöngueitrun og að börnin fæðist með lága fæðingarþyngd. Vísbendingar hafa líka verið að notkun getnaðarvarnalyfja sem innihalda hormóna geti aukið mígrenisköst hjá konum5 6

Mígreni og streita
Mígreni og spennuhöfuðverkur deila svipuðum einkennum en bregðast mismunandi við sömu meðferðum. Sameiginleg einkenni spennuhöfuðverks og mígreni eru: vægur til meðallagi sársauki, stöðugur verkur, verkur á báðum hliðum höfuðsins2.
Aðeins mígreni hefur eftirfarandi einkenni: Miðlungs til alvarlegur sársauki, þrýstingur og vangeta til að sinna venjulegum athöfum, verkur á annarri hlið höfuðsins, ógleði með eða án uppkasta, aura, næmni fyrir ljósi, hljóði eða hvoru tveggja2.
Streita og mígreni eru tengd saman í vítahring. Streita í lífi þínu getur kallað fram mígreni og haldið því gangandi. Langvarandi mígreni geta aukið streitu. Allt að 80% þeirra sem fá mígreni segja streitu vera algengasta kveikjan. Þessir einstaklingar hafa líka greint frá háu streitustigi. Ef þú ert með langvarandi mígreni er mjög líklegt að þú sért með hátt streitustig. Sambland af höfuðverkjum og streitu getur dregið úr lífsgæðum þínum7.
Tíð eða mikil streita getur haft áhrif á starfsemi og uppbyggingu heilans. Þessar breytingar verða bara verri eftir því sem streita heldur áfram. Ef þú ert með mígreni þá virkar heilinn á annan hátt en hjá heilbrigðu, mígrenalausu fólki. Breytingar á heilabyggingu getur stafað af tíðum mígrenisköstum. Sumar rannsóknir sýna að reglulegir streituvaldar frá degi til dags eins og krefjandi vinna, löng ferðalög eða barnauppeldi er líklegra til að valda höfuðverk en önnur streita. Dagleg streita getur leitt til langvarandi höfuðverkja. Algengt er að fólk sem upplifir mikla streitu í daglegu lífi t.d. í vinnunni fái mígrenisköst þegar það kemur helgi eða það ætlar að slaka á og fara í frí. Þá er mjög líklegt að þú fáir mígreniskast. Heilinn þinn er orðin vanur stöðugri streitu og skyndilegar breytingar á því getur valdið mígreni7.
Fyrirbyggjandi aðferðir
Helstu fyrirbyggjandi aðferð við streitu og mígreni eru að stunda líkamsrækt, borða hollan og næringaríkan mat, ná valdi á streitunni og fá nægan svefn. 85% af einstaklingum með mígreni segjast sofa illa og því er mikilvægt að fá nægan svefn. Streitan getur haldið þér vakandi á næturnar og orsakað þreytu. Þegar þú sefur er líkami þinn og hugi að endurhlaðast fyrir næsta dag. Til að fyrirbyggja mígreni er mikilvægt að þú :
- Hreyfir þig
- Borðir hollan og næringaríkan mat
- Skrifir niður streituvaldana
- Fáir nægan svefn og tileinkir þér góðar svefnvenjur
Mörgum finnst gott að byrja á því að hugleiða og skoða streituvaldana í sínu lífi og skrifa þá niður. Þegar þeir eru komnir niður á blað er gott að finna lausnir á því hvernig hægt er að draga úr streitunni. Byrjaðu að skrifa dagbók. Að skrifa dagbók getur verið mjög góð leið til að láta tilfinningarnar og hugsanir streyma út svo þú getir tekist á við þær í stað þess að láta streituna byggjast upp8.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað er að kveikja á mígrenisköstum. Kveikjur eru ólíkar meðal fólks og því er mikilvægt að finna það út og koma í veg fyrir þær. Algengustu kveikjurnar eru streita, líkamsrækt, þreyta og lyf. Áfengi og koffín geta orsakað mígrenisköst og einnig matvæli eins og ostur, súkkulaði, sætuefni, saltkjöt eða jafnvel sterk lykt8.
Gangi þér vel
-Kristín-
Heimildir
- Heilsuvera.is (2021) Mígreni. Sjúkdómar, frávik, einkenni. Sótt frá: https://www.heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/migreni/
- Rachel Nall and Deena Kuruvilla (2021) Everything you want to know about Migraine. Healthline. Sótt frá: https://www.healthline.com/health/migraine
- Visir.is (2021) Kalla 1000 Íslendinga inn í mígrenisrannsókn. Sótt af:https://www.mbl.is/frettir/taekni/2021/11/09/kalla_1_000_islendinga_inn_i_migrenirannsokn/
- Weatherall M. W. (2015). The diagnosis and treatment of chronic migraine. Therapeutic advances in chronic disease, 6(3), 115–123. https://doi.org/10.1177/2040622315579627
- Johnson CJ. Headache in women. Prim Care. 2004 Jun;31(2):417-28, viii. doi: 10.1016/j.pop.2004.02.012. PMID: 15172516.
- Healthline editorial (2020) Hormonal Headaches: Causes, treatment, prevention and more. Sótt frá: https://www.healthline.com/health/hormonal-headaches#TOC_TITLE_HDR_1
- Susan Bernstein (2019) When stress is a chronic migraine trigger. WebMD. https://www.webmd.com/migraines-headaches/stress-triggers-chronic-migraine
- Camille Noe Pagán (2020) What not to do if you get migraines. WebMD. https://www.webmd.com/migraines-headaches/not-to-do-migraines+
Share this post: on Twitter on Facebook on Google+