Ég hef tekið eftir meiri umfjöllun um að sambönd séu mismunandi og það henti ekki endilega öllum að vera bara með einn maka. Opin sambönd, fjölkvæni, fjölveri og allskonar mismunandi tegundir af parasamböndum. Ég fór að grafa aðeins í þessu og spá í samskiptum hjóna, para, milli kynja og annarra.
Vinkona mín mælti með þessari bók og hef ég verið að hlusta á hana á Storytell. Hún er mjög áhugaverð og hefur góð ráð sem gott er að tileinka sér til að rækta sambönd.

Hér er verkefnabók fyrir pör að gera.
https://www.integralpsychology.org/uploads/1/5/3/0/15300482/wkbk_2.pdf
Skilnaður
Í bókinni er nefnt að rannsóknir sýna að þeir sem eru í óhamingjusömu hjónabandi eru 35% líklegri til að veikjast og getur minnkað lífslíkurnar þínar að meðaltali um 4-8 ár.
Skilnaður getur veikt ónæmiskerfið og veldur því að þú ert líklegri til að ná þér í flensur og sýkingar.
Fólk sem er hamingjusamlega gift lifir lengur og hafa betri heilsu heldur en þeir sem eru einstæðingar eða í óhamingjusömu hjónabandi. Vísindamenn hafa fundið þessar niðurstöður með rannsóknum en eru ekki vissir afhverju.
Einstaklingar sem eru í óhamingjusömu hjónabandi eru líklegri til að hafa króníska sjúkdóma, verra ónæmiskerfi, líkamlega streitu, upplifa andlega þreytu sem getur orðið að háum blóðþrýsing, hjartasjúkdómum og andlegum veikindum eins og kvíðaröskun, þunglyndi, misnotkun á lyfjum eða áfengi, ofbeldi og sjálfsvíg1.
Á Íslandi eru tæplega 40% hjónabanda sem enda í skilnaði og er þá ótalinn sá hópur sem slítur sambúð. Nýlega fór félagsmálaráðuneytið af stað með tilraunaverkefni í þágu foreldra og barna í kjölfar skilnaðar4.
Skilnaðir geta verið erfiðir fyrir alla sem eiga í hlut. Börn eru þar á meðal og mikilvægt að þau fái stuðning til að aðlagast breytingunum. Þegar samband leysast upp lenda sumir foreldrar í því að spyrja spurninga eins og: Eigum við að vera saman fyrir börnin? Foreldrar sem standa í skilnaði og eiga börn hafa mestar áhyggjur af því hvernig börnin munu takast á við skilnaðinn. Því fagna ég úrræðum á vegum félagsmálaráðuneytisins því skilnaðir geta haft slæm sálfræðileg áhrif á börn. Skilnaður foreldra er streituvaldur fyrir sum börn. Foreldrar geta gert ráðstafanir til að draga úr sálrænum áhrifum skilnaðar á börn með faglegri aðstoð8.
Rannsóknir á parasamböndum og heilsu
Vísindamenn segja að pör hafi tilhneigingu til að deila sömu heilsuhegðun og áhættuþættum. Þessi þróun getur verið vegna þess að fólk sem tengist hafa svipaða eiginleika og áhugamál. Pör geta líka haft neikvæð heilsufarsáhrif á hvort annað og ýtt undir óheilbrigðalegan lífstíl. Margir vilja meina að til þess að ná lífstílsbreytingum hjá einstaklingum þurfi heilbrigðiskerfið að einblína á fjölskyldueininguna til að ná árangri en ekki bara einstaklinginn sjálfan. Rannsókn frá Brigham and Women´s Hospital í Boston skoðaði heilsufar hjá 5000 pörum og þar kom í ljós að 79% para höfðu það sameiginlegt að vera í sama heilsufarsflokki, það er að segja að pör eru mjög líkleg til að hafa sömu heilsufarslegu vandamál. Þessi rannsókn sýnir að heilbrigðiskerfið þarf að skoða betur hvernig það færir heilsueflingu og lífstílsbreytingar til einstaklinga. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á heilsu fjölskyldunnar sem heild eða heimaeiningum2.
Við manneskjurnar erum hjarðdýr og viljum tilheyra hóp eða samfélagi. Tengslin sem við myndum við annað fólk er okkur lífsnauðsynlegt fyrir andlega og tilfinningalega vellíðan okkar og jafnvel til að lifa af. Manneskjunni er það eðlislægt að vilja vera nálægt öðru fólki, mynda tengsl og byggja upp sambönd. Heilbrigð sambönd hvort sem þau eru rómantísk, vinátta eða fjölskyldutengsl geta hjálpað til við að gera lífið heilbrigðara. Félagslegur stuðningur er mjög mikilvægur hlutur og hefur mikil áhrif á geðheilsu okkar og vellíðan. Félagslegur stuðningur ætti þó ekki að koma að aðeins einu sambandi samkvæmt Sheehan D. Fisher, sálfræðing við Northwestern Medicine. Hún segir að það sé mikilvægt að einblína ekki á að reyna fá allt sem þú þarft út úr einu sambandi t.d. hjónabandi eða parasambandi. Mikilvægt er að hafa flóru af samböndum til að bæta heilsu, bæði rómantískum og vináttutengdum. Dr. Fisher telur mikilvægt að hjónabönd og parasambönd hvetji og styðji hvort annað en einnig að einstaklingarnir innan sambandsins hafi önnur félagsleg tengsl svo að öll ábyrgð sé ekki sett á makann til að uppfylla alla félagslegar þarfir einstaklingsins því það getur haft neikvæð áhrif á sambandið5.

Mikil streita hjá einstaklingum innan hjóna eða parasambanda getur haft neikvæð áhrif á heilsu beggja einstaklinga. Rannsóknir sýna að vera í skuldbundnu sambandi tengist minni framleiðslu á kortisól sem er streituhormón. Þetta bendir til þess að fólk sem er í stuðningsríku og jöfnu sambandi tekur betur á sálrænu álagi og að félagslegur stuðningur maka getur verið frábær stuðpúði gegn streitu5.
Margar jákvæðar heilsufarslegar niðurstöður eru tengdar hjónaböndum og parasamböndum. Einstaklingar sem eru í sambandi hafa betri heilsu en einstæðingar og lifa lengur. Langtímasambönd hafa jákvæð áhrif á andlega heilsu kvenna en betri líkamlega heilsu fyrir karlmenn samkvæmt British Medical Journal. Samt sem áður sýndi rannsókn frá Cardiff University að sambönd geti líka haft neikvæðar afleiðingar á heilsu og það sérstaklega sambönd sem eru þvingandi eða byggð á ójafnrétti. Það er að segja að einstaklingar innan sambandsins veita ekki hvort öðru stuðning og meginþungi heimilisins bitnar á einum einstakling í stað þess að vera á jafnréttisgrundvelli6 7.
Leiðir til að viðhalda góðu sambandi
Mikilvægt er að rækta sambönd eins og það er mikilvægt að rækta sjálfan sig. Gott er að eiga sameiginlegt áhugamál eða iðju sem þið bæði hafið gaman af. Búið til áætlun saman um það hvernig þið ætlið að rækta sambandið. Það þarf ekki að vera flókið, það getur verið eins einfalt og að fara út að ganga á hverju kvöldi eftir kvöldmat.
Pararáðgjöf eða hjónabandsráðgjöf hefur hjálpað pörum til að greina og leysa vandamál en einnig að bæta sambandið. Oft er gott að fá utankomandi aðila til að setja viðhorf og jafnvel vandamál ykkar í nýtt samhengi. Helstu ástæður fyrir því að pör fara í pararáðgjöf er vegna samskiptaörðuleika, vandamál í kynlífi, ágreiningur tengt barnauppeldi, áfengi og vímuefnavandamál, reiði eða framhjáhöld3.
Helstu ástæður skilnaðar eða sambandslita eru:
- Ágreiningur, átök, rifrildi
- Skortur á skuldbindingu
- Framhjáhald
- Fjarlægð í hjónabandi / skortur á líkamlegri nánd
- Samskiptavandamál milli aðila
- Heimilisofbeldi, munnlegt, líkamlegt eða andlegt ofbeldi af hálfu maka
- Gera sér grein fyrir að maki manns hefur mismunandi gildi/siðferði
- Fíkniefnaneysla / áfengisfíkn
- Skortur á rómantískri nánd / ást
- Fjárhagsvandmál / skuldir3
Að rækta sambönd er vinna en ef þú og maki þinn nálgist þetta með samkennd þá getið þið náð gríðarlegum framförum til hins betra. Öll pör rífast segir Dr. Elana Hoffman, klínískur sálfræðingur í Washington. Hér eru nokkkur ráð frá Dr Elana til að rækta og bæta sambönd9
- Hugsaðu um hvað gæti ýtt undir núverandi tilfinningar maka þíns undir yfirborðinu.
- Ekki taka hlutum persónulega, jafnvel þó neikvæðar tilfinninar beinist að þér.
- Mundu að orða þakklæti og biðjast afsökunar.
- Vertu meðvitaður um eigin hlutdrægni og ör frá fyrri samböndum.
- Spyrðu opinna spurninga.
- Æfðu virka hlustun og hugsandi hlustun.
- Lærðu ástartungumál maka þíns. 9
Stundum þurfa einstaklingar innan sambanda bara upplifa að það sé verið að hlusta á það. Það þarf ekki alltaf að koma með ráð eða metast yfir því hvor eigi það erfiðara eða upplifi eitthvað verra en hinn. Samkennd og virk hlustun er mikilvæg í samskiptum og einnig hvernig þú orðar hlutina. Allar setningar sem byrja á ÞÚ eru ávísun á varnarviðbragð frá maka og rifrildi. Reynið að nota í staðinn, ég upplifi eða mér leiðist svo að/þegar…
Mikilvægt er að rækta sambönd og gefa sér tíma saman. Hér eru nokkrar hugmyndir sem pör geta gert saman.

-Kristín –
Heimildir
- John M. Gottman & Nan Silver (1999). The Seven Principles for Making Marriage Work. (1st ed.). New York: Crown Publishers
- Shiffman D, Louie JZ, Devlin JJ, Rowland CM, Mora S. (2020). Concordance of Cardiovascular Risk Factors and Behaviors in a Multiethnic US Nationwide Cohort of Married Couples and Domestic Partners. JAMA Netw Open. 2020;3(10):e2022119. doi:10.1001/jamanetworkopen.2020.22119
- Mayo Clinic (2019). Marriage counseling. https://www.mayoclinic.org/tests-procedures/marriage-counseling/about/pac-20385249
- Félagsmálaráðuneytið (2020) Efst á baugi. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/01/17/xxx/
- Sheehan D. Fisher (2021) Why healthy relationships are so Important. https://www.nm.org/healthbeat/healthy-tips/5-benefits-of-healthy-relationships
- Amanda L. Chan (2019) Relationship Helath Benefits: 10 reasons why it´s good for you to have a significant other. https://www.huffpost.com/entry/relationship-health-benefits-significant-other_n_2602397
- Emma Dickinson (2011) Marriage is good for physical and mental health. Student BMJ Editiorial. https://www.eurekalert.org/news-releases/907002
- Amy Morin (2021) The Psychological Effects of Divorce on Children. https://www.verywellfamily.com/psychological-effects-of-divorce-on-kids-4140170
- Jacquelyn Johnson & Steven Rowe (2021). 7 Evidence – Based Ideas to improve your relationship. PsychCentral. https://psychcentral.com/lib/simple-steps-to-improve-your-relationship
Share this post: on Twitter on Facebook on Google+