Vefsíða lýðheilsufræðings

,

Fæðingarþunglyndi

Hvað er fæðingarþunglyndi? Áður fyrr hélt ég að fæðingarþunglyndi einskorðaðist af því að vilja gera nýfæddu barni sínu mein en svo er alls ekki. Ég sjálf var mjög ung þegar ég átti mitt fyrst barn eða um 22 ára og ég hafði allt aðrar hugmyndir af fæðingu, fæðingarorlofi og andlegri heilsu en raunin var. Ég greindist þó ekki með fæðingarþunglyndi fyrr en með son minn þegar ég var 26 ára. Þá var meiri vitundarvakning um fæðingarþunglyndi og fleiri úrræði í boði eins og sálfræðingar á heilsugæslustöðvum.

Skilningur manna og rannsóknir á fæðingarþunglyndi hefur aukist á síðust áratugum. Fyrsta ritaða heimildin um fæðingarþunglyndi nær aftur til árið 460 f.Kr en þá skrifaði Hippocrates um fæðingarsótt, æsing, óráð og oflæti sem konur upplifa eftir fæðingu3. Það var þó ekki fyrr en á 19.öld sem nýtt viðhorf um tengsl geðsjúkdóma kvenna við meðgöngu, fæðingu og tíðir fór að aukast4.

Fæðingarþunglyndi er algengt og hafa heilsugæslustöðvar boðið konum upp á skimun við fæðingarþunglyndi með svokölluðu DSM IV-TR prófi. Einkenni fæðingarþunglyndis þurfa að hafa komið fram á fyrstu fjórum vikum eftir barnsburð. Rannsóknir sýna að mesta áhættan á fæðingarþunglyndi er frá annarri viku eftir barnsburð allt til 18 mánuði frá barnsburði. Þunglyndið getur varað í marga mánuði en 25% til 60% kvenna ná sér innan þriggja til sex mánaðar og 15% til 25% innan 12 mánaðar7.

Heimaljósmæður eru líka mikilægar í þessu hlutverki að sjá einkenni og koma einstaklingum í viðeigandi úrræði. Algengi fæðingarþunglyndis á Íslandi er talið vera 10-15%. Talið er að 40-80% kvenna upplifi sængurkvennagrátur sem nær yfirleitt hámarki á 5.degi eftir barnsburð7.

Fæðingarþunglyndi getur haft ólíkar birtingarmyndir og því skipt helst í þrjá flokka1.

 • Sængurkvennagrátur (postpartum blues): Er skammtímaástand og eru venjulega í hámarki á fjórða til fimmta degi eftir fæðingu og er gengin til baka á degi tíu.
 • Fæðingarþunglyndi (postpartum depression) án sturlunareinkenna: Þunglyndiseinkenni koma oftast fram á fyrsta mánuði eftir fæðingu og eru einkennin áhugaleysi, þreyta og sektarkennd. Sjálfsvígshugsanir koma oft fram. Kvíði og þráhyggjuhugsanir, önuglyndi, svefntruflanir auk breytinga á matarlyst.
 • Fæðingarsturlun (puerperal psychosis): Er sjaldgæft en kemur fyrir hjá einni til tveimur konum af hverjum þúsund kvenna við fæðingu. Veikindin byrja skyndilega og byrja oftast öðrum degi eða þriðja degi frá fæðingu. Fæðingarsturlun getur þó komið allt frá fyrstu tveimur vikum eftir fæðingu til 3 mánuði eftir fæðingu.

Flesta nýbakaðar mæður upplifa þó ,,baby blues“ eftir fæðingu sem felur í sér skapsveiflur, grátkast, kvíða og svefnerfileika. Þetta tímabil byrjar venjulega á fyrstu tveimur til þremur dögum eftir fæðingu og getur varað í allt að tvær vikur1.

Eftir fæðingu er hröð lækkun á estrógen og prógesteron gildum í blóðinu og hafa þessar hórmónabreytingar áhrif á skapsveiflur og þunglyndi. Estrógeni og prógesteron hafa hrif á framleiðslu serótónín. Serótónín er taugaboðefni sem er þekktast fyrir það að hafa áhrif á vellíðan, minni og mótar hugsun en spilar einnig mikilvægu hlutverki í meltingarfærum. 2

Áhættuþættir fæðingarþunglyndis

Fyrri saga um þunglyndi og kvíða er meðal þeirra áhættuþátta sem tengjast því að fá fæðingarþunglyndi. Margar rannsóknir hafa verið gerðar um tengsl milli fæðingarþunglyndi og fyrri sögu af þunglyndi. Vísbendingar eru einnig skýrar um að konur með þunglyndi séu næmari fyrir hormónabreytingum. Konur sem hafa upplifað PMS (Premenstrual syndrome) eða fyrirtíðarspennu eru í áhættuhópi að fá fæðingarþunglyndi. Hjá konum sem hafa fyrirtíðarspennu getur serótónín framleiðsla breyst og getur það tengst alvarlegu þunglyndi.5

Fyrri saga af þunglyndi, neikvætt viðhorf til meðgöngu, fjölda lífsatburða og saga um kynferðislega misnotkun eru áhættuþættir fyrir fæðingarþunglyndi. Lítið sjálfsálit, kvíði fyrir fæðingu, lítill félagslegur stuðningur og lágar tekjur eru líka nefndar sem áhættuþáttur í rannsóknum.6

Rannsóknir vilja meina að hormónasveiflur geti ýtt undir fæðingarþunglyndi en sálrænir og félagslegir þættir hafa einnig áhrif. Rannsóknir á áföllum á meðgöngutíma eða við fæðingu eykur líkurnar á að fæðingarþunglyndi komi fram. Konur sem búa við slæmar félagslegar aðstæður og búa við heimilisofbeldi eða í slæmri sambúð eru í sérstaklegri hættu að fá fæðingarþunglyndi1.

50% kvenna sem hafa sögu um fæðingarþunglyndi fá það aftur og því er mikilvægt að fylgjast vel með konum sem eru með sögum um fæðingarþunglyndi1.

Afleiðingar fæðingarþunglyndis

Afleiðingar þunglyndis eru alvarlegar og benda rannsóknir til þess að fylgni sé á milli hegðunar og þunglyndis sem eru skaðleg heilsu verðandi mæðra og nýbakaðra mæðra s.s. aukin reykinga og áfengismisnotkun. Áhrif fæðingarþunglyndis hefur líka bein og óbein áhrif á heilsu barnsins. Rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli fæðingarþunglyndis og seinkaðs vitsmuna-og málþroska, aðskilnaðarkvíða, hærri tíðna hegðunarvandamála og lægri einkunnar í skóla. Að auki eru einnig tengsl á milli fæðingarþunglyndis og hærri tíðni þunglyndis hjá börnum síðar á unglingsárum 16-18 ára8.

Nýbakaðir feður geta líka fengið fæðingarþunglyndi sem getur valdið tilfinningalegu álagi. Þeir geta upplifað sorg, þreytu, kvíða og breytingu á matarlyst. Feður sem eru ungir og hafa sögu um þunglyndi, upplifa sambandsvandamál eða eiga í fjárhagslegum erfileikum eru í mestri hættu að fá fæðingarþunglyndi. Ef að móðirinn er að upplifa fæðingarþunglyndi er aukin hætta á að faðir upplifi líka fæðingarþunglyndi.2

Forvarnir

Konur sem hafa undirliggjandi geðsjúkdóma eins og þunglyndi og kvíða, áfallastreituröskun o.s.frv. þurfa að vera í auknu eftirliti þegar þær verða ófrískar. Því líkurnar að þróa með sér fæðingarþunglyndi eru háar. Ómeðhöndlað fæðingarþunglyndi hjá móður getur haft langtíma vitsmunaleg, tilfinningaleg og hegðunartengd vandamál hjá börnum. Þeir heilbrigðisstarfsfólk sem annast eftirlit með konum á meðgöngu og eftir fæðingu þurfa að greina vandamálið snemma og meðhöndla strax. Meðferð sem hefur sýnt fram á bestu niðurstöðurnar eru lyf, stuðningur og viðtalsmeðferð1.

Á meðgöngu er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk fylgist vel með og bjóði þér úrræði ef þú ert með sögu um þunglyndi. Eftir að barnið þitt fæðist getur ljósmóðir skimað fyrir einkennum fæðingarþunglyndis. Þær sem eru með sögu um fæðingarþunglyndi eða þunglyndi þurfa í samráði við lækni að ræða lyfjagjöf. Sum þunglyndis og kvíðalyf má taka á meðgöngu1.

Góð ráð

 • Hvíldu þig eins mikið og hægt er.
 • Vertu dugleg að sækja aðstoð frá maka, fjölskyldu og vinum.
 • Ræddu líðan og tilfinningar við maka, fjölskyldu og vini.
 • Slakaðu á kröfunum og fullkomnaáráttunni
 • Fáðu hjálp með heimilisverkin.
 • Fáðu hjálp við að sjá um önnur börn ef þau eru á heimilinu
 • Biddu fjölskyldu og vini að koma með mat svo þú þurfir ekki að elda
 • Hafðu gestagang í lágmarki því áreiti getur verið streituvaldandi9

-Kristin-


Heimildir

 1. Ólafur Bjarnason. (2008, 27. janúar). Hvernig lýsir fæðingarþunglyndi sér? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7030
 2. Mayo Clinic (2018) Postpartum depression. https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/postpartum-depression/symptoms-causes/syc-20376617
 3.  Brockington I (2005). „A Historical Perspective on the Psychiatry of Motherhood“. Perinatal Stress, Mood and Anxiety Disorders. Bibliotheca Psychiatrica. KARGER. pp. 1–5. doi:10.1159/000087441ISBN 3-8055-7865-2.
 4. Quawas R (May 2006). „A New Woman’s Journey into Insanity: Descent and Return in The Yellow Wallpaper“. Journal of the Australasian Universities Language and Literature Association2006 (105): 35–53. doi:10.1179/000127906805260310
 5. Ghaedrahmati, M., Kazemi, A., Kheirabadi, G., Ebrahimi, A., & Bahrami, M. (2017). Postpartum depression risk factors: A narrative review. Journal of education and health promotion6, 60. https://doi.org/10.4103/jehp.jehp_9_16
 6. Leigh, B., & Milgrom, J. (2008). Risk factors for antenatal depression, postnatal depression and parenting stress. BMC psychiatry8, 24. https://doi.org/10.1186/1471-244X-8-24
 7. Linda Bára Lýðsdóttir, Halldóra Ólafsdóttir og Jón Friðrik Sigurðsson. (2008). Fæðingarþunglyndi: Algengi, afleiðingar og helstu áhættuþættir. Sálfræðiritið, 13, 171-185.
 8. Netsi E, Pearson RM, Murray L, Cooper P, Craske MG, Stein A. Association of persistent and severe postnatal depression with child outcomes. JAMA Psychiatry. 2018;75(3):247-253. doi: 10.1001/jamapsychiatry.2017.4363.
 9. Björn Vernharðsson (2016) Meðgönguþunglyndi eða fæðingarþunglyndi? Fréttablaðið. https://doktor.frettabladid.is/grein/medgonguthunglyndi-eda-faedingarthunglyndi

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur