Vefsíða lýðheilsufræðings

, ,

Vitsmunaþroski barna og streita á heimili.

Streita foreldra og heilsa barna.

Streita foreldra getur haft neikvæð áhrif á heilsu barna. Foreldrar sem lifa annasömu og streituvaldandi lífi geta smitað það yfir á börnin sín sem getur birst í veikindum og fjarveru barna frá skóla. Börn sem búa við streituvaldandi aðstæður eru oftar veik heldur en börn sem búa síður við streitu á heimilum. Rannsókn sem gerð var við Rochester háskóla sem sýndi að börn sem eiga foreldra sem glíma við kvíða eða þunglyndi eru líklegri til að vera fjarverandi frá skóla vegna veikinda1.

Börn sem koma frá lágtekju heimilum, og þau sem búa við óstöðugleika og tilfinningalega vanrækslu eiga hættu á að þróa með sér skerta vitræna getu samkvæmt þessari rannsókn. Rannsakaðar voru 201 fjölskylda úr lágtekjustétt og var stress hormónið, kortisól, mælt hjá börnunum á aldrinum 2 til 4 ára. Þar kom í ljós að þau börn sem upplifa óstöðuleika í fjölskyldu og tilfinningalega fjarveru móður spáði fyrir um brenglun á kortisólseytingu og var það talið hafa bein áhrif á vitsmunalegan þroska barna2.

Óstöðugleiki í fjölskyldu felur í sér tíðar breytingar á umönnunaraðilum, heimilismönnum eða búsetu og getur valdið börnum mikilli streitu. Streita foreldra tengist meira andlegri vanlíðan og erfileikum við uppeldið vegna minni lífsánægju og meiri neikvæðni.

Heimilisaðstæður barna hafa gríðarleg áhrif á heilsu og þroska þeirra. Börn sem búa við óstöðugt fjölskyldulíf s.s. andleg veikindi foreldra, heimilisofbeldi, vanrækslu eða lítil samskipti við foreldra eru líklegri til að þróa með sér slæma sjálfsmynd og/eða geðraskanir10.

Langvarandi streita í fjölskyldunni getur því aukið veikindi hjá börnum. Dr. David Jessop sem hefur rannsakað streitu og heilsu frá Bristol University telur þó að börn hafi mikla seiglu og að kerfin þeirra séu nægilega öflug til að takast á við streitu og álag3. Aðrir umhverfis- og líffræðilegir þættir geta líka haft áhrif á vitsmunalegan þroska barna. Einnig hafa rannsóknir sýnt sterk tengsl á milli kortisól ójafnvægis og lægri vitsmunaþroska.

Uppeldisstreita og hegðunarvandamál barna eru talin hafa áhrif á þroska barna. Streita foreldra og hegðunarvandamál barna á aldrinum 3 til 9 ár meðal 237 barna voru rannsökuð og kom í ljós að 144 þeirra voru með eðlilegan þroska og 93 greindust með þroskaseinkun. Niðurstöðurnar bentu til þess að streita foreldra sé bæði undanfari og afleiðing hegðunarvandamála barna. Á sama tíma eru hegðunarvandamál streituvaldandi fyrir foreldra. Margar rannsóknir benda á mikilvægi þess að draga úr foreldrastreitu með fyrirbyggjandi inngripum sem getur líka dregið úr hegðunarvandamála barna. Aðferðir sem almennt eru notaðar eru meðal annars hugleiðsla, hugræn atferlismeðferð og nútvitund. Niðurstaða þessara rannsóknar sýndi fram á að ef dregið er úr streitu foreldra getur það haft í för með sér minni hegðunarvandamál á meðal barna þeirra.4

Vitsmunaþroski barna

Kenning Jean Piaget um vitsmunaþroska er kenning um eðli og þróun mannlegrar greindar. Kenningin fjallar um þekkingu og hvernig mannveran lærir smám saman að afla sér þekkingar, byggja úr henni og nota. Jean Piaget taldi að þroskastig ákvarðist af þeim verkefnum sem barnið gæti leyst og að ekki væri hægt að hraða þeirri þróun með aðgerðum. Kenningar Piaget hafa verið takmarkaðar og erfitt hefur verið að endurtaka þær. Samkvæmt kenningu Piaget er þroski sjálfkvæmur en ekki hluti af námi eins og Vygotsky, Skinner og Bandura lögðu áherslu á.7

Bandura byggði kenningar sínar á því að börn og unglingar læri af umhverfi sínu með því að fylgjast með hegðun annarra og þeim afleiðingum sem sú hegðun hefur.

Vitsmunaþroski eða greindarþroski er samsettur úr málþroska, hreyfiþroska og félagsþroska. Málþroskinn vegur þar sennilega þyngst en líka útsjónarsemi við lausn á sjónrænu og verklegu verkefni. Þrír helstu eiginleikar barna ráða mestu um vitsmunaþroska þess, þ.e. athygli og eftirtekt, hvernig barnið vinnur úr upplýsingum og minni þess, bæði hæfileiki barnsins til að byggja upp minni og hæfileikinn til að kalla fram úr minni þá þætti sem lært hefur áður. Eðlileg þróun vitsmunaþroska er aukinn skilningur, dómgreind og færni til að greina að rétt og rangt6.

Sjálfsmynd barna

Sjálfsmynd barna er sú mynd sem þau hafa af sjálfu sér og hefur gríðarleg áhrif á líf þeirra. Sjálfsmyndin endurspeglar tilfinningar, hegðun og samskipti við aðra. Sjálfsmynd barna myndast ekki við fæðingu heldur byggist hún upp á reynslu og í gegnum samskipti við umhverfið sitt. Fyrstu samskipti barna eru við foreldra sína og leitar það snemma eftir viðbrögðum frá þeim. Til að mynda örugg tengsl er mikilvægt að bregðast við samskiptaháttum barnsins og tengslin sem þau mynda við foreldar sína í bernsku hefur gríðarleg áhrif á hæfni barnsins til að eiga í samskiptum við aðra og mynda sambönd8.

Góð sjálfsmynd hefur áhrif á hamingju og vellíðan og eykur líkurnar á velgengni sjálfsöryggi og góðum félagslegum tengslum. Nærumhverfið hefur mest áhrif á sjálfsmyndina en það eru fjölskyldan, vinir og skólinn. Nærumhverfið er umhverfið sem barnið er í dags daglega og hefur mest áhrif á mótun sjálfsmyndarinnar9.

Fyrirbyggjandi inngrip

Forvarnir og úrræði fyrir börn sem upplifa mikla streitu foreldra er nauðsynleg fyrir heilsu allra á heimilinu. Þörf er á inngripum sem geta styrkt tengsl foreldra og barns og dregið úr streitu fjölskyldunnar mjög snemma í lífi barnsins. Fyrirbyggjandi inngrip sem kennir foreldrum og mæðrum jákvæða uppeldisaðferðir til að stjórna streitu heimilisins hefur sýnt jákvæðar niðurstöður í rannsóknum eins og lækkun í mælingu á kortisól hjá börnum2.

Uppeldisaðferðir sem byggjast á nútvitund eða hugarfarsleg uppeldisaðferð hefur sýnt fram á að koma í veg fyrir og meðhöndla geðraskanir hjá börnum, hegðunarvandamál og koma í veg fyrir að geðraskanir færist yfir frá foreldri til barna. Jákvætt uppeldi hefur einnig áhrif á viðbrögð barna og hjálpa þeim að alast upp til að verða betri manneskjur. Samskipti og örvun eru mjög mikilvæg fyrstu árin.

Núvitund er mikið notað sem inngrip við mismunandi sálrænum og lífeðlisfræðilegum vandamálum. Undanfarin ár hefur núvitund einnig verið kennd foreldrum til að nota við uppeldi. Rannsóknir benda til þess að athygli sé ein af þeim vitrænu aðferðum sem hafa áhrif á núvitund og gegnir mikilvægu hlutverki í að draga úr streitu foreldra, draga úr áhyggjum foreldra sem eiga við geðraskanir að stríða, bæta virkni hjónabands og auka sjálfsnærandi athygli 5.

Að vera foreldri getur verið mjög streituvaldandi. Við viljum ala upp sterka og hæfileikaríka einstaklinga framtíðarinnar. Við erum öll að gera okkar besta. Fyrsta skrefið er að vilja læra meira og fræðast meira til að gera betur.

-Kristin –


Heimildir

  1. Wyman PA, Moynihan J, Eberly S, Cox C, Cross W, Jin X, Caserta MT. Association of family stress with natural killer cell activity and the frequency of illnesses in children. Arch Pediatr Adolesc Med. 2007 Mar;161(3):228-34. doi: 10.1001/archpedi.161.3.228. PMID: 17339503.
  2. Suor, J. H., Sturge-Apple, M. L., Davies, P. T., Cicchetti, D., & Manning, L. G. (2015). Tracing Differential Pathways of Risk: Associations Among Family Adversity, Cortisol, and Cognitive Functioning in ChildhoodChild development86(4), 1142–1158. https://doi.org/10.1111/cdev.12376
  3. BBC (2008) Stressed parents „make kids ill“ Health. http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/7302955.stm
  4. Neece, C. L., Green, S. A., & Baker, B. L. (2012). Parenting stress and child behavior problems: a transactional relationship across time. American journal on intellectual and developmental disabilities117(1), 48–66. https://doi.org/10.1352/1944-7558-117.1.48
  5. Bögels, S.M., Lehtonen, A. & Restifo, K. Mindful Parenting in Mental Health Care. Mindfulness 1, 107–120 (2010). https://doi.org/10.1007/s12671-010-0014-5
  6. Sólveig Sigurðardóttir (2009) Leiðbeiningar um ung-og smábarnavernd. Embætti Landlæknis.
  7. Svava Björk Hákonardóttir (2015) Vitsmunaþroski barna, Stigbundinn eða samfelldur? Lokaverkefni til BS-gráðu. Sálfræðideild, Heilbrigðisvísindasvið. https://skemman.is/bitstream/1946/18650/1/BS%20ritger%C3%B0%20Vitsmuna%C3%BEroski%20barna%20Svava%20Bj%C3%B6rk%2028apr%C3%ADl14.pdf
  8. Lightfoot et al (2009). The development of children (6. útgáfa). New York: Worth Publishers.
  9. Berk, L. E. (2007). Development through the lifespan (4. útgáfa). Boston: Pearson.
  10. Kristin Omarsdottir (2020). Schoolteachers´perceptions and experiences of recognizing and identifying children exposed to domestic violence – a qualitative study from Iceland.

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur