Vefsíða lýðheilsufræðings

Grein út frá rannsókn minni um þekkingu og reynslu kennara á að meta og greina heimilisofbeldi í skólum.

Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi eða verða vitni að ofbeldi, allra síst á heimili sínu. 

Fréttir af heimilisofbeldi hafa verið áberandi í fjölmiðlum síðan heimsfaraldurinn Covid-19 byrjaði í febrúar á þessu ári. Rannsóknir hafa sýnt fram á að heimilisofbeldi hefur aukist í ljósi takmarkana á ferðum fólks, skólar eru með takmarkaða opnun, sumir hverjir jafnvel lokaðir og útigöngubann víða um heim vegna farsóttarinnar. Börn sem búa við heimilisofbeldi hafa oft verið falinn hópur og börn sem tilheyra málaflokknum hafa í mörgum tilfellum ekki fengið viðeigandi þjónustu. Viðhorf samfélagsins í garð barna sem verða vitni af ofbeldi er á þá leið að ofbeldið hefur ekki verið talið skaðlegt börnunum og hafa þau ekki verið viðurkennd sem þolandi ofbeldis þrátt fyrir að margar rannsóknir hafi sýnt fram á annað. Síðustu ár hefur þó Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu og Kvennaathvarfið aukið vitundarvakningu en við eigum enn langt í land. Rannsóknir sýna að þótt börnin verði ekki sjálf fyrir ofbeldi, eða séu beinlínis vitni af því, getur það samt haft alvarlegar afleiðingar fyrir þau. Börn verða óbeint vitni að ofbeldi t.d. þegar þau heyra hvað gerist í næsta herbergi, taka eftir ummerkjum ofbeldisins á heimilinu eða skynja spennu og vanlíðan foreldra sinna. 

Rannsóknir sýna að skömmin sem fylgir því að vera þolandi heimilisofbeldis komi meðal annars fram með þeim hætti hjá mæðrum að þær gera sér oft ekki grein fyrir því að ofbeldið sem þær verða sjálfar fyrir hafi áhrif á börnin og halda því jafnvel fram að  börnin hafi ekki orið vör við ofbeldið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að heimilisofbeldið sem konur hafa orðið fyrir eða búa jafnvel við hefur skaðleg áhrif á tengslamyndun þeirra við börnin. Það býr til ákveðna skekkju á ákvarðanartöku þegar móðir á að taka ákvörðun um það hvort barn þurfi faglega aðstoð eða ekki. 

Í skýrslu frá árinu 2017 um átak gegn heimilisofbeldi samstarfsverkefni sveitarfélaganna Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi kom í ljós að erfitt reynist að veita börnum þá þjónstu sem í boði er og þau eiga rétt á. Bæði foreldrar og börn vilja ekki ræða við barnaverndastarfsfólk og foreldrar vilja ekki þvinga börnin í viðtal. Lögreglan skráir einungis hvort börn séu skráð til heimilis á vettvangi heimilisofbeldis en ekki hvort þau eru stödd á vettvangi. Í skýrslunni kemur í ljós að heilbrigðiskerfið, skólinn og meðferðaraðilar þurfa að auka aðkomu barna sem verða fyrir heimilisofbeldi.   

Rannsókn á þekkingu og reynslu kennara á að meta og greina nemendur og heimilisofbeldi.

Í Mastersnámi mínu í Lýðheilsuvísindum við Háskólan í Lundi, ákvað ég að leggja málefnum barna sem verða fyrir heimilisofbeldi lið og vekja athygli á málaflokknum. Ég velti fyrir mér hvar börn verja meiri hluta dagsins, hvernig getum við hjálpað þeim og hvar er best að nálgast þessi börn. Spurningunni er auðsvarað, Skólinn! Með sænska rannsókn til hliðsjónar og aðstoð leiðbeinanda míns, Marie Emmelin prófessors í eigindlegum rannsóknar aðferðum við Háskólann í Lundi,ákvað ég að taka eigindleg viðtöl við 11 kennara víðsvegar um Ísland til að kanna hvort kennarar hafi vitneskju um það hvort börn í bekkjardeildum þeirra upplifi heimilisofbeldi. Rannsóknin leiddi í ljós að þekkingu og skilningi kennara á heimilisofbeldi er ábótavant á Íslandi. Flestir kennara sem ég ræddi við höfðu enga eða litla þekkingu á hvaða afleiðingar það hefur á börn sem verða vitni af heimilisofbeldi. Þá vakti einnig athygli mína að skilgreining á heimilisofbeldi var ekki sú sama meðal kennara. Rannsóknin sýndi fram á að afar takmörkuð fræðsla er um heimilisofbeldi í skólum, hvorki hjá nemendum né starfsfólki skólans. Helstu niðurstöður mínar eru á þá leið að kennarar vanmeta afleiðingarnar heimilisofbeldis á börn og hika við að tilkynna mál nemenda sinna. Í sumu tilfellum sögðu kennarar að tregðan við að tilkynna málin væri vegna slæmrar reynslu af samstarfi við barnavernd. Rannsóknin sýndi einnig fram á að kennara vilja fá betri faglega aðstoð innan veggja skólans svo sem frá sálfræðingi, félagsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðingi til að hlúa að félagslegru hlið nemenda. Kennararnir sem ég ræddi við óskuðu líka eftir leiðbeiningum við að lesa í hegðun barna sem verða fyrir og/eða verða vitni af heimilisofbeldi svo börn fái viðeigandi aðstoð strax.  Það sem kom mér á óvart var að allir þeir 11 kennarar sem ég tók viðtöl við höfðu reynslu af því að vera með nemenda sem bjó við eða grunur var um að  heimilisofbeldi viðgengist á heimili barnsins. Í öllum tilvikum voru málin aldrei tilkynnt til Barnaverndar! Algengt var kennararnir gæfu þau svör að skólastjórnendur stæðu í veg fyrir því að málið yrði tilkynnt til barnaverndar og skólastjórnendur gerðu tilraun til að draga úr alvarleika málsins. Kennarar höfðu einnig slæma reynslu af því að tilkynna sjálfir til barnaverndar og upplifðu úrræðaleysi þar sem þeir fengu ekki upplýsingar frá barnavernd hvort málinu hefði verið fylgt eftir. Upplýsingarflæðið milli barnaverndar og kennara var lélegt og samstarfið stendur höllum fæti sérstaklega í stærri sveitarfélögum. Hugsanlega þarf að skoða persónuverndalögin betur svo samstarfið við barnavernd og kennara séu með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi en núverandi lög hindra upplýsingarflæði þarna á milli sem hefur skapað vantraust.

Hlutverk skólans og heilsa nemenda. 

Að mínu mati er ekki hægt að auka á vinnuálag kennara með því að ætlast til þess að þeir verði gerðir að einhverskonar rannsakendum á heimilisaðstæðum barnanna sem þeir hafa umsjón með á degi hverjum. Vissulega verða kennarar að vera meðvitaðir og fylgjast með aðstæður nemenda en það getur ekki átt að vera þeirra aðal hlutverk,  mín draumsýn er sú að skólarnir fái aukna aðstoð í tengslum við að stuðla að góðri andlegri heilsu barna. Með auknum rannsóknum hefur aukist fókusinn á það hvað mikilvægt er að grípa snemma inn í vonda líðan og slæmar aðstæður barna og hversu þýðingamikið forvarnastarf getur verið fyrir börn. Ég tel að kennarar þurfi að fá markvissari aðstoð með félagsleg vandamál, svo sem einelti, félagslega getu, samskipti, andlega heilsu og forvarnir barna. Ein lausnin sem svíar hafa innleitt og ég tel að gagnast gæti hér á landi er að ráða inn tómstundafræðinga í hvern grunnskóla bekk til að styðja við kennarana. Kennara hafa margir hverjir bent á að þeir hafi einfaldlega ekki tíma til að sinna þörfum einstakra nemenda sem eiga við vanda að stríða vegna annarra krafa sem á þeim hvílir. Það er gríðarlegur ávinningur fólginn í því að auka þjónustu við heilsuvernd og vellíðan barna í skólum. Mikilvægi þessa málaflokks hefur sjaldan verið augljóstari eða meira aðkallandi en einmitt nú í miðjum heimsfaraldri þar sem börn sem búa við heimilisofbeldi eru enn aðþrengdari en áður. Ég skora því á stjórnvöld að setja aukið fjármagn í  í þennan málaflokk og bæta lífsgæði barna. 

Tengdar greinar

Kynslóðaáföll

Hvað eru kynslóðaáföll? Margar hefðir í kringum jólahátíðina erfast á milli kynslóða. Nú eru jólin

Read More

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur