Vefsíða lýðheilsufræðings

Ofbeldi meðal ungmenna og forvarnir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur farið af stað með herferð gegn ofbeldi meðal ungmenna. Mig langaði að kanna þessi mál aðeins betur og fræðast meira.

Slagsmál meðal ungmenna er áhættuhegðun sem lögreglan hefur haft áhyggjur af. Á samfélagsmiðlum s.s facebook, instagram og tiktok eru til lokaðir hópar þar sem birt eru myndbönd af ungmennum í jafnvel grófum slagsmálum þar sem aðrir standa aðgerðarlausir í kring og/eða hvetja þau til dáða. Oftast eru þetta unglingar á grunnskólaaldri, bæði stelpur og strákar. Slagsmálin eru gróf með endurtekin högg og spörk í höfuð og búk andstæðingsins sem getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar.

Til þess að breyta viðhorfi og þessari menningu meðal íslenskra ungmenna hefur lögreglan farið af stað með myndbönd sem leggja áherslu á að taka ekki þátt og upplýsa unglinga að þó svo þau taki ekki þátt bera þau ábyrgð á að vera á staðnum sem áhorfandi ef eitthvað alvarlegt gerist. Lögreglan hefur verið að fylgjast með þessum samfélagsmiðla hópum þar sem myndböndum er dreift en hvetja líka unglinga og almenning til að taka höndum saman og tilkynna svona brot.

Rýnum í gögn.

„Heilsa og lífkjör skólanema“ er nýleg alþjóðleg rannsókn sem unnin var af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og tekur til gagna frá árunum 2014 og 2018. Þar kemur í ljós að fjöldi íslenskra ungmenna sem tekið hafa þátt í slagsmálum minnst þrisvar sinnum síðustu tólf mánuði hefur aukist á milli þessara ára.

Hér er hægt að sjá að þátttaka í slagsmálum hefur aukist mikið meðal stúlkna í 6, 8 og 10 bekk. Hvað er að valda þessari aukningu í ofbeldishegðun meðal stúlkna er erfitt að segja til um en þegar rýnt er í áhrif fjárhagsstöðu heimila eru börn sem koma frá heimilum þar sem fjárhagsstaðan er verri koma þau verr út. Þau meta heilsu sína verri og líður verr í skólanum.

Á alþjóðagrundvelli hefur ofbeldi með ungmenna verið skilgreint sem alþjóðlegt lýðheilsuvandamál. Ofbeldi meðal ungmenna hefur gríðarleg áhrif á sálræna og félagslega virkni einstaklingsins en einnig valdið líkamlegum áverkum svo sem alvarlegum meiðslum og varanlegrar fötlunar. Þetta getur haft áhrif á fjölskyldur fórnalamba, vina og samfélög. Ofbeldi ungmenna eykur kostnað vegna heilbrigðis-, velferðar- og refsiréttarþjónustu, dregur úr framleiðni og lækkar verðmæti eigna.

Áhættuþættir fyrir ofbeldi eru margir og skilgreinir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) þrjá yfirflokka og 22 áhrifaþætti. Þar kemur fram að fátækt, atvinnuleysi, erfileikar í skóla og námi, geðrænir sjúkdómar meðal foreldra, fíkn, vanræksla og ofbeldi inn á heimilinu geti haft áhrif á að ungmenni leita í slagsmál meðal jafningja.

Forvarnir gegn ofbeldi eru markvissari þegar þær eru innleiddar í skólana og afleiðingar ofbeldis eru skoðaðar. Mikilvægt er að börnin og unglingarnir sjálfir fái að taka þátt í að þróa og búa til forvarnaverkefni og á þau sé hlustað. Ég hef lengi verið talsmaður þess að heilstæð forvarnaráætlun og heildrænt námsefni sé innleitt í öllum skólum til þess að öll börn á Íslandi fái sömu fræðslu óháð búsetu.

Foreldrar eru líka mikilvægur hlekkur í keðjunni og mikilvægt er að foreldrar ræði við börnin sín um afleiðingar ofbeldis og hvað það þýðir að vera þátttakandi í svona glæp. Í myndbandinu að neðan er lögreglan að hvetja foreldra sem eiga börn á unglingsaldri að tala við börn sín og fræða þau um skaðsemi ofbeldis.

Ábyrgðin liggur hjá foreldrum. Ræðið við börnin ykkar og hvetjið þau til að segja frá.

Ekki öll börn hafa þó foreldra sem þau geta rætt við og því er mikilvægt að skólakerfið grípi inn í með rannsóknamiðuðum forvörnum, samvinnu meðal nemenda og gefi sér tíma til að heyra hvað unglingarnir hafa að segja.

Við getum öll gert betur og verðum að vera vakandi! Afleiðingar ofbeldis eru mjög alvarlegar og geta fylgt einstaklingnum á fullorðinsár. Það er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir samfélagið að missa þessa einstaklinga af vinnumarkaði og því ætti fókusinn að vera á forvörnum.

Verum góð hvort við annað og ræðum við börnin okkar.

-Kristín-

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur