Vefsíða lýðheilsufræðings

Heilbrigði og jákvæð líkamsvitund

Hver hefur ekki fengið samviskubit yfir því að hafa stútað heilum hraunbita kassa eða nóa kropps poka. Svo hugsaru: Ég fer í átak á morgun! eða ég hleypa extra langt um helgina. Afhverju erum við alltaf að refsa okkur, refsa líkamanum okkar með boðum og bönnum? Keyrum við þetta út af sjálfshatri og eigum skilið að líða illa?

Allar jafn þungar og misháar en með mismunandi BMI stuðul. Sumar eru í offituflokk aðra ekki. Eru þær allar heilbrigðar? Hvað er heilbrigði?

Jákvæð líkamsvitund er þegar manneskja hefur jákvæða líkamsímynd, skilur að tilfinningin fyrir sjálfvirðingu fer ekki eftir útliti hennar. Að hafa jákvæða líkamsvitund felur í sér, að þiggja og meta allan líkama sinn, þar á meðal hvernig hann lítur út og hvað hann getur gert. Jákvæð líkamsímynd getur verið mikilvæg heilsu okkar. Rannsóknir benda til þess að hún sé mikilvæg fyrir vellíðan, heilbrigði, lífsgæði og heilsuhegðun.

Rannsóknir í lýðheilsu sýna að jákvæð líkamsvitund sé verndandi þáttur fyrir ýmsum lífstílssjúkdómum. Minna er vitað um tengsl jákvæðar líkamsvitundar og heilsu meðal karlmanna þar sem oftast er horft til kvenna í þessum efnum. Rannsókn gerð í Bandaríkjunum meðal framhaldsskólanema sýndi að því jákvæðari sem þau voru gagnvart líkama sínum því minna var um skráð þunglyndi, þau voru með meira sjálfsálit, þau voru ólíklegri til að venja sig á megrunarkennda hegðun og höfðu meiri áform að vernda húðina gegn UV skemmdum. Þessi rannsókn var ekki kynjaskipt og tók mið af báðum kynjum. Niðurstöðurnar voru að það eru jákvæð tengsl milli jákvæðrar líkamsímyndar og andlegrar og líkamlegrar vellíðunar. Því ættu heilbrigðisstarfsmenn að hvetja til jákvæðrar líkamsímyndar til heilsubótar.

Önnur rannsókn sem var gerð meðal ungra stúlkna á aldrinu 12-16 ára kom í ljós að þær stúlkur sem höfðu jákvæða líkamsvitund voru ólíklegri til að byrja að reykja, hreyfðu sig meira og voru ólíklegri til að þróa með sér óheilbrigða megrunarhegðun. Þær stúlkur sem skráðu neikvæða líkamsvitund voru líklegri til að vera byrjaðar að reykja og neyta áfengis. Forvarnalegt gildi jákvæðra líkamsvitundar er því mikil og ætti að taka mið af því í forvarnastarfi gegn reykingum og áfengisneyslu meðal ungmenna.

Neikvæð líkamsvitund og slæm sjálfsmynd setur þig í hættu að þróa með þér andleg veikindi svo sem þunglyndi og átraskanir. Í dag er markaðsetning mjög háð útliti og óraunverulegum stöðlum um fegurð t.d. að vera mjó og ungleg. Meiri hluta ævinnar eru stelpur áreittar með skilaboðum um hvernig þær eiga að líta út. Með komu samfélagsmiðla hefur þetta versnað. Ungum stúlkum er oftast hrósað fyrir hvernig þær líta út á samfélagsmiðlum (TikTok, facebook og instagram) frekar en fyrir hugsanir sínar eða gerðir. Fjölmiðlar einbeita sér að konum sem eru grannar, aðlaðandi og ungar – og breyta oft ljósmyndum með myndaforritum. Samanburður við þessar ímyndir eru ógjörningur og skilar bara neikvæðum afleiðingum fyrir ungar stúlkur.

Þegar þú ert með góða, jákvæða líkamsímynd – þér líður vel í líkama þínum og líður vel með hvernig þú lítur út – er líklegra að þú hafir góða líkamlega og andlega heilsu.

Allar í sömu þyngd en mismunandi fatastærðir

Tölum aðeins um þyngd og BMI. Hvað er BMI?

Body mass index eða líkamsmassastuðull er einn af þremur þáttum til að meta hvort að einstaklingurinn sé of þungur. BMI er reiknaður með því að deila massa einstaklings í kílóum með líkamshæðinni í öðru veldi, það er þyngd(kg) / hæð (m)2. (Engin vísindaleg rök eru á bakvið formúluna og sá sem fann hana upp fyrir næstum 200 árum hafði engan læknisfræðilegan bakgrunn).

BMI hefur miklar takmarkanir sem margir vita ekki. Þær helstu eru:

  • BMI ofmetur fitumagn þar sem hann gerir ekki greinamun á vöðvamassa vs fitumassa. Vöðvamassi er þyngri en fitumassa og því getur orðið mikil skekkja þarna.
  • BMI getur vanmetið fitumagnið hjá einstaklingum sem hafa lítinn vöðvamassa.

BMI (Líkamsmassastuðull ) mælir ekki heilsu eða lífeðlisfræðilegt ástand sem getur verið vísbending um lífstílssjúkdóm. Einstaklingar með hátt eða lágt BMI geta verið heilbrigð eða óheilbrigð. Fullt af fólki með eðlilegt BMI lifir óheilbrigðum lífsstíl. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þrátt fyrir að hættan á ákveðnum sjúkdómum aukist með hækkandi BMI hefur fólk í raun tilhneigingu til að lifa lengur að meðaltali ef BMI þeirra er svolítið í hærri kantinum.

Sem mælikvarði er BMI ekki fullkominn mælikvarði á heilsu. Það er gagnlegt að hafa mælikvarða til að sjá þróun og upphafspunkt en það er ennþá mikilvægra að þekkja takmarkanir hans.

Margir hafa sterkar skoðanir á BMI og telja það valda meiri neikvæðum afleiðingum heldur en jákvæðum. Margir tala um að BMI sé ómannúðlegt tæki sem ýtir undir fitufordóma og ógnar viðkvæmu sambandi einstaklinga við líkama sinn.

Nýjustu rannsóknir benda til þess að þyngdarstimpill (BMI mælikvarðinn) geti komið af stað lífeðlisfræðilegum og hegðunarbreytingum sem tengjast slæmri efnaskiptaheilsu og aukinni þyngdaraukningu. Einstaklingar sem verða fyrir fitufordómum eiga meiri líkur á því að auka át, sjálfsstjórnun þeirra minnkar og kortisólgildi þeirra er hærra miða við samburðarhóp.

Fitufordómar, þyngdarmismunun og líkamsskömm eru ekki leiðir til að stuðla að heilsu.

Að einbeita sér að því að bæta samband þitt við sjálfan þig og líkama þinn hjálpar þér að verða heilbrigðari. Að hata líkama þinn hjálpar þér ekki að verða heilbrigðari. Að elska og ná sáttum við líkama sinn gerir þig ekki minna heilbrigða. Að koma á frið við líkama þinn getur í raun hjálpað þér að verða heilbrigðari þegar þú sleppir eigin líkamsgagnrýni og sjálfskúgun sem skapar svo mikið álag í lífi þínu. Að skammast sín yfir líkama þínum og hlutgera sjálfan þig mun aðeins stuðla að meira álagi og þar af leiðandi meiri heilsubrestum.

Hreyfum okkur af því okkur langar til þess og okkur líður vel með það en ekki vegna þess að við borðuðum snickers. Borðum góðan og hollan mat því okkur líður vel eftir á en ekki af því að við erum byrjuð á enn einum megrunarkúrnum.

-Kristin-

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur