Vefsíða lýðheilsufræðings

Sýklalyfjaónæmi og forvarnir

Hvað er sýklalyfjaónæmi? Þarf ég að hafa áhyggjur af því?

Í meistaranámi mínu í Lýðheilsuvísindum (MPH Public Health) við Háskólann í Lundi var mikið talað um sýklalyfjaónæmi (Antibiotics Resistance). Ég viðurkenni að ég kom alveg af fjöllum. Ég var ein af fáum sem voru með félagsfræðilegan bakgrunn og var eitt spurningarmerki þegar ég átti að finna lausnir á sýklalyfjaónæmi. Eru sýklalyf ekki bara sýklalyf og þau virka? Þau hafa virkað vel fyrir mig og mína.

Seinna áttaði ég mig á því að sýklalyfjaónæmi er með því lægsta á Íslandi og því ekki skrítið að ég hafði aldrei heyrt um það áður. Samnemendur mínir, sérstaklega frá Afríku og Asíu vissu upp á hár hvað þetta var.

Sýklalyf og sagan

Alexander Fleming fann upp á pencillínið árið 1928 og er það mesta afrek vísindalegrar læknisfræði. Næstu áratugina eftir það var framleiðsla annarra sýklalyfja þróuð og von var um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af hættulegum sjúkdómum heimsins. Stuttu eftir að notkun sýklalyfja jókst fóru ónæmar bakteríur að koma fram og nú eru til tegundir af bakteríum sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum.

Sýklalyfjaónæmi er það þegar baktería verður ónæm fyrir áhrifum sýklalyfs sem áður verkaði gegn henni. Þá er miklu erfiðara að meðhöndla sýkinguna og oft þarf að grípa til dýrari lyfja eða lyfja sem geta haft í för með sér eiturverkanir. Þær bakteríur sem eru komnar með vörn fyrir mörgum gerðum af sýklalyfjum kallast fjölónæmar bakteríur.

Alþjóðaheilbrigðistofnunin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af mestu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur haft slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og veldur aukningu á kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Í Evrópu hefur (European Centre for Disease Prevention and Control) ECDC áætlað að í Evrópu komi upp um það bil 700 þúsund sýkingar á hverju ári sem er af völdum ónæmra sýkla sem leiðir til 30 þúsund dauðsfalla. Talið er að það sé vegna aukinnar ferðalaga milli landa og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshorna á milli sem veldur því að bakteríur dreifa sér. Því er sýklalyfjaónæmi alþjóðlegt vandamál.

Sýklalyf og menn

Vitundarvakning á sýklalyfjanotkun á Íslandi hefur skilað sér með minnkun á ávísunum almennt. Sérstök áhersla var lögð á að fækka ávísunum hjá börnum þar sem notkunin var sem hæðst. Tölur frá árinu 2018 sýna að almenn minnkun er á sýklalyfjanotkun hjá mönnum, sérstaklega börnum og minnkun á breiðvirkum sýklalyfjum. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi er almennt séð óbreytt milli áranna 2017 og 2018. Þrír einstaklingar greindust með karbapenemasa myndandi bakteríu sem er nær alónæm fyrir öllum sýlalyfjum. Í maí 2019 sendi ríkisstjórn Íslands frá sér yfirlýsingu að Ísland ætlar sér að vera í fararbroddi í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Eftirlit með sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum er til fyrirmyndar á Íslandi en er því miður ekki alls staðar. Í mörgum löndum eru sýklalyf ekki lyfseðilskyld sem leiðir til þess að einstaklingar eru að taka sýklalyf við veirusýkingum og öðrum veikindum sem sýklalyf vinna ekki gegn.

Í Lagos, Nigeríu er ástandið verst. Þar er tíðni notkunnar á sýklalyfjum með því hæsta í heiminum. 48% af ávísuðum lyfseðlum eru fyrir sýklalyfjum. Helsta ástæða dauðsfalla eru sjúkdómar sem hægt er að lækna með sýklalyfjum en vegna ónæmis eru einstaklingar að deyja úr berklum, öndunarfærissýkingum, lungnabólgu, niðurgangspestum, heilahimnubólgu og þvagfærasýkingum. Sjúklingar með heilahimnubólgu svara ekki ódýrum sýklalyfjum eins og pencillíni og það eykur kostnað við meðhöndlun þar sem sterkari sýklalyf eru dýrari. Þar sem sýklalyf eru ódýr og aðgengileg í Nígeríu fer fólk frekar í apótek og kaupir sér sýklalyf heldur en að borga dýra heilbrigðisþjónustu. Sýklalyfjaónæmi er talið vera 89% í Lagos.

Image result for antibiotics abuse in nigeria

Rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort að það sé munur á uppáskrifuðum sýklalyfjum hjá einkarekna heilbrigðisþjónustu í samanburði við almenna heilbrigðisþjónustu. Þar hafa menn fundið að í einkageiranum er fimm sinnum hærri notkun á sýklalyfjum. Ástæðan er sú að einka heilbrigðisþjónusta er dýr og læknar telja sig vera skuldbundna sjúklingnum að veita þjónustu.

Sýklalyf og dýr

Rannsóknir hafa verið gerðar til þess að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi sem nær til manna, dýra, matvæla og umhverfis. Ísland hefur þá sérstöðu að hafa lágt hlutfall af ónæmi sýklalyfja sem gerir aðstæður Íslands einstaklega góðar til rannsóknar. Ísland notar meira af sýklalyfjum í menn en gert er í nágrannalöndum okkar en hins vegar notum við minna af sýklalyfjum í landbúnaði en þekkist víðast hvar annars staðar.

Rannsakendur hafa það að markmiði að auka þekkingu og rannsaka hversu mikil hætta stafar af sýklalyfjaónæmi sem berst með dýrum og matvælum til manna. Dr. Lance Price hefur verið fremstur í rannsóknum á þessu sviði. Hans rannsóknarteymi rannsaka nú E.coli bakteríuna sem finnst í búfénaði, umhverfi og svo í innlendum og innfluttum kjötvörum og bera þær sama við E.coli bakteríur sem greinast í sýkingum í mönnum.

Hvað er til ráða?

Rannsóknir og eftirlit er grundvallaratriði til að sporna við sýklalyfjaónæmi. Vitundarvakning og fræðsla á sýklalyfjaónæmi er líka mikilvæg sem og takmarkað aðgengi að sýklalyfjum. Á Íslandi eru sýklalyf lyfseðilsbundin en ekki í lausasölu eins og í flestum löndum þar sem sýklalyfjaónæmi er sem hæst. Það hefur skilað okkur framúrskarandi árangri í sýklalyfjaónæmi.

Fyrirbyggja sýkingar og nota sýklalyf á vel ígrundaðan hátt. Leyfum læknum að sjá um að meta og greina hvort þörf sé á sýklalyfjum því þeir hafa aðeins eytt 7-14 árum í að læra læknisfræði. Það er ástæða fyrir því að þeir skrifa ekki strax upp á sýklalyf því ónæmi gegn sýklalyfjum er fljótt að myndast.

Venjulegar flensur og kvefpestir stafa oftast af veirum sem sýklalyf vinna ekki gegn. Gagnsemi sýklalyfja eru aðeins þegar um bakteríusýkingar er að ræða. Förum því sparlega með sýklalyf, hlustum á lækna og forðumst að sjúkdómagreina okkur sjálf.

Ég vann sem læknaritari árið 2013 og tók við lyfjaendurnýjunum fyrir læknana á heilsugæslunni. Þar voru margir einstaklingar fúlir og pirraðir að geta ekki fengið uppáskrifað sýklalyf án þess að hitta lækni. Þeir hefðu sjúkdómsgreind sig sjálfir og voru bandvitlausir yfir að unga kona væri að segja þeim að þeir fengu ekki sýklalyf. Þeir vildu aðeins eitt, SÝKLALYF!

Í eitt skipti var mér hótað lögsókn ( sem ég bíð ennþá eftir) vegna þess að ég neitaði að skrifa út beiðni fyrir endurnýjun á sýklalyfjum.

Virðing er lykilatriði í samskiptum.

– Kristín Ómarsdóttir-

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur