Vefsíða lýðheilsufræðings

Átak og megrunarkúrar

Nú er janúar gengin í garð með tilheyrandi auglýsingum og fréttum um líkamsrækt og megrunarkúra. Þú getur ekki horft á sjónvarpið án þess að sjá auglýsingar um fæðubótaefni, megrunarkúra og líkamsræktarkort. Allir eru í átaki eftir jólin og byrjaðir á þessum og hinum kúrum.

Því langar mig að skoða aðeins þessa kúra, virka þeir eða eru þetta allt skammtímalausnir?

Ketó (ketosis) :

Ketósa er ástand sem líkaminn kemst í þegar hann skiptir úr því að nota kolvetni (glúkós) sem orkugjafa yfir í það að nota fitu. Til að kalla fram þetta ástand þarf að takmarka kolvetni verulega en neyta í staðin meiri fitu. Allar kornvörur, brauð, kex, pasta og sterkjuríkt grænmeti og flestir ávextir eru útilokaðir. Þegar líkaminn er nánast alveg laus við kolvetni fer lifrin að framleiða ketóna sem líkaminn notar sem orkugjafa í stað kolvetnis. Líkaminn nýtir ketónana sem orkugjafa og brennir fituforða sem eldsneyti. Matarræðið er mjög strangt og býður alls ekki uppá neitt svindl þar sem líkaminn er fljótur að skipta yfir í kolvetnisbrennslu.

Á heimasíðu Axels F. Sigurðssonar hjartalæknis mataræði.is kemur fram að engar rannsóknir hafi sýnt fram á að þetta ketósis ástand sé neikvætt eða hættulegt. Hann mælir þó aðeins með ketó eða lágkolvetnamataræði fyrir einstaklinga sem eru of þungir og þurfa að léttast, einstaklinga sem glíma við efnaskiptavillu, sykursýki 2 eða háþrýsting sem megi rekja til ofþyngdar eða offitu.

Ávinningurinn er að þú munt líklega grennast, blóðsykur lækkar, blóðþrýstingur lækkar, HDL-kólesteról hækkar og insúlínmótstaða minnkar. Mikilvægt er þó að ráðfæra sig við lækni, næringafræðing eða aðra fagaðila eigi að breyta svona drastískt um matarræði og hugsa þetta sem langtímabreytingu en ekki skammtímalausn.

Image result for keto diet

Paleo:

Er matarræði sem er svokallað steinaldarmatarræði og kemur frá Paleolithic tímabilinu. Hugmyndafræðin byggir á því að matur sem kemur beint úr náttúrunni sé hollastur. Matarræðið samanstendur af kjöti, sjávarfang, eins mikið og þú vilt af ávöxtum, berjum og grænmeti sem ekki innihalda sterkju, Þú mátt ekki borða mjólkurvörur, morgunkorn, baunir, sterkju eða unnar matvörur.

Hugmynd um paleo byggist á því að nútíma matarræði sé í ósamræmi við erfðir mannslíkamans og hvernig við erum gerð. Erfðamengi mannsins hefur breyst minna en 0.02% á 40 þúsund árum. Með búskap hefur matarræði mannsins breyst í formi aukinnar mjólkur- og korn neyslu sem mannslíkaminn hefur ekki aðlagast sem veldur misræmi sem er talið útskýra aukna tíðni offitu, sykursýki og hjartasjúkdóma í dag.

Kostirnir við Paleo er að þú getur borðað eins mikið og þú vilt, kjöt, grænmeti, ávextir, hnetur og eggjahvítur. Þessi fæða getur verið kostnaðarsöm. Kjöt, fiskur og ávextir eru dýrar matvörur og sérstaklega á Íslandi.

Margir gagnrýna Paleo vegna of mikillar neyslu á kjöti og fiski en einnig er varað við óhóflegri eggjahvítuneyslu. Kornmeti af skornum skammti í Paleo og hefur það einnig verið gagnrýnt.

Klínískar slembirannsóknir á Paleo í samanburði við annað matarræði hafa sýnt fram á nokkurn ávinning paleo matarræðis, t.d. meira þyngdartap, bætt glúkósaþol, betri stjórn á blóðþrýsting og betri matarlyst. Hins vegar er þörf á langtímarannsóknum með stórum hóp handhófs valinna einstaklinga á mismunandi fæði til að skilja langtíma heildarávinning og mögulega áhættu af Paleo mataræði.

Image result for paleo

16:8 fasta:

Matarræðið felur í sér að fasta í 16 tíma og að neysla á mat sé aðeins yfir 8 klukkustundir á dag. Flestir neyta ekki matar frá 20:00-12:00 það er að segja nýta sér næturnar til þess að fasta. Engar hömlur eru á tegund matar eða magni þegar einstaklingur er ekki að fasta en þessi sveigjanleiki gerir þennan kúr auðveldari í framkvæmd. 16:8 getur stutt við þyngdartap, bætt blóðsykur og minnka áhættuna á sykursýki 2. Þegar þú ert að fasta máttu aðeins drekka vatn, te og svart kaffi.

16:8 getur haft mismunandi áhrif á karla og konur. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að konur sem eru á barneignaraldri eigi ekki að fasta í langan tíma þar sem þetta getur haft áhrif á hormónastarfsemi og frjósemi. Konum er því ráðlagt að taka pásur inn á milli.

Hafa ber í huga að flestar rannsóknir 16:8 hafa aðeins verið gerðar á dýrum og vantar því betri rannsóknir til að meta gagnsemi.

HCG kúrinn:

HCG (Human chorionic gonadotropin) er hormón sem hefur verið notað sem megrunarefni frá árinu 1954. Breskur læknir að nafni Albert Simeons lagði til að efnið væri notað til þess að minnka matarlyst og auka fitubrennslu. Mataræði hans samanstóð af 500 hitaeiningum á dag og HCG hormón gefið með sprautum.

HCG er próteinbundið hormón sem konur framleiða fyrstu mánuði meðgöngu sem lætur líkama kvenna vita að hún sé barnshafandi en hormónið hefur einnig verið notað til að meðhöndla ófrjósemi. Hins vegar getur hækkað magn HCG í blóði einnig verið einkenni margra krabbameina þar á meðal krabbamein í fylgju, eggjastokkum og eistum.

Talsmenn HCG kúrsins halda því fram að það auki efnaskipti og hjálpi þér að missa mikið magn af fitu án þess að vera svangur. Margar rannsóknir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þyngdartap sem náðst hefur á HCG kúrnum sé vegna neyslu á fáum kalóríum í einu og hefur ekkert með hormónið að gera. Einnig hafa þær staðfest að HCG hormónið hefur ekki áhrif á hungurtilfinninguna.

Sumar rannsóknir hafa tengt HCG vörur við mögulega aukningu á krabbameini. HCG getur hvatt til framleiðslu á andrógen efna sem getur leitt til vaxtar ákveðinna tegunda krabbameina.

Afhverju er ég að tala um þetta? Því ég hef heyrt að þessi kúr sé að ná fótfestu á Íslandi…

Allt eða ekkert hugsun.

Margir byrja sterkir í janúar eftir allt jólaátið en gefast svo upp í febrúar því markmiðin voru of háleitt. Hugsunin allt eða ekkert tekur sér eining fótfestu.

Ég fer í ræktina 5 x í viku, annars er mér að mistakast.

Sleppum hugsununni að hreyfing og hollt matarræði sé einungis til þess að missa kíló eða til þess líta vel út. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á svo margt annað sem við ættum að einblína frekar á eins og betri svefn, eflir sjálfsmynd, spornar gegn þungyndi, hefur jákvæð áhrif á minni og rökhugsun.

Stundum er hreyfing leiðinleg. Okkur finnst við vera að gera endalausar hnébeygjur og gefumst upp. En ekki gefast upp. Prófaðu frekar eitthvað nýtt t.d. dans, hópleikfimi, yoga, göngutúr eða fjallgöngur.

Hættum að leita að ,,quick fixum“ Ekkert fæðubótarefni eða kúrar munu viðhalda bættri heilsu. Notaðu gagnrýna hugsun og aflaðu þér upplýsingar áður en þú kaupir þér brennsluefni og efni sem eiga að hjálpa þér við fitubrennslu.

Settu þér raunhæf markmið og hugsaðu að breyta um lífstíl til langtíma. Ekki falla í þessa gryfju að allt verði frábært þegar þú verður x kíló. Hamingjan er ekki mæld í kílóum.

Fann þess auglýsingu hjá lyfjaeftirlitinu í Bandaríkjunum sem ég varð að deila með ykkur.

Gangi ykkur vel 🙂

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur