Vefsíða lýðheilsufræðings

Fentanýl og lyfjamisnotkun

Fentanýl og morfín heyrir maður oft þegar talað er um lyfjamisnotkun og fíkniefnaneyslu. Mikil umræða hefur skapast með átakinu ,,Á allra vörum. Ég á bara eitt líf“ Mörg ungmenni á Íslandi eru að deyja úr ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja. Því hef ég áhuga á að fræðast um: Hvað er fentanýl? Hvernig fá þau efnið? Eru læknar að skrifa of mikið af fentanýl? Hvað þarf að gera?

Fentanýl er öflugt tilbúið ópíum sem er svipað og morfín en er 50 til 100 sinnnum öflugara. Tilbúið ópíum þýðar að lyfið er búið til af vísindamönnum sem nota sömu efnasamsetningu og er í ópíum plöntunni sjálfri. Fentanýl er lyfseðilsskyltlyf sem er einnig framleitt og notað ólöglega. Fentanýl er lyf sem er notað á skurðstofum, til að verkjastilla sjúklinga eftir aðgerð og verkjastillingu langt genginna krabbameinssjúklinga. Áður var fentanýl notað til að verkjastilla sjúklinga með króníska verki en með aukinni þekkingu á lyfinu er það talið vera óæskilegt vegna þess hversu ávanabindandi það er (NIDA, 2019). Hægt er að sprauta sig með fentanýli, taka í töfluformi, plástra eða nefúða. Áhrifin eru djúp slökun, ofskynjanir, blóðþrýtingur snarlækkar og það hægir á öndun sem getur leitt til dauða (Freyr Eyjólfsson, 2018)

Image result for fentanýl
Fentanýl plástrar

Á Íslandi hafa innflutningstölur hjá lyfjastofnun á fentanýli ekki aukist sem gefa vísbendingar til að, líkt og í Bandaríkjunum, er fentanýlið mest flutt inn á svörtum markaði (Kolbeinn Guðmundsson, 2016). Lögreglan á Íslandi hefur áhyggjur af að fentanýlið sem gangi hér kaupum og sölum séu í formi dufts, kristalla og taflna. Fentanýl hefur verið til sölu á netinu hjá aðilum í Asíu og Suður-Ameríku (lögreglan.is, 2016). Það fentanýl sem tengt er við ofneyslu og dauðsföll í Bandaríkjunum eru oftast duft sem er selt ólöglega og úr þeim gerðar pillur sem líta eins út og önnur lyfseðilsskyld ópíum lyf.

Þau dauðsföll sem landslæknisembættið tók til skoðunnar vegna sterkra verkjalyfja leiddi í ljós að í mörgum tilvikum átti viðkomandi einstaklingur ekki ávísuðum lyfseðli á sig fyrir lyfinu stuttu fyrir andlát. Lyf sem tilheyra flokki ópíóíða eru fentanýl, morfín, tramadól, oxycódon, ketóbebidón og búprenorfín sem eru eftirsótt. Árið 2013 fengu 483 einstaklingar ávísað fentnýli á Íslandi (Magnús Jóhannsson, Lárus S. Guðmundsson og Ólafur B. Einarsson, 2014).

Því má álykta að einstaklingar eru að nálgast lyfið á svörtum markaði hvort sem það er selt af einstaklingum sem hafa fengið þetta lyf ávísað, stolið því eða eins og í tilvikum í Bandríkjunum, innflutt og framleitt ólöglega. Annar vinkill á Íslandi er að ekkert eftirlit er með lyfjum sem skilað er í apótek. Ekkert eftirlitskerfi hefur verið yfir þau lyf sem skilað er inn til eyðingar né eftirlit þegar einstaklingur fellur frá og/eða það er afgangur er af sterkum lyfjum. Það er undir sjúklingnum sjálfum og/eða ættingja að skila því samviskusamlega í næsta apótek. Margar brotalamir eru í eftirliti yfir endurskil á lyfjum til eyðingar.

Í frétt frá RÚV segir Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi að þrátt fyrir að átak í því að fækka lyfjaávísunum á sterk verkjalyf fer fíklum í ópíum lyf samt fjölgandi. Dregið hefur verið úr ávísunum frá læknum en nýgengi er að aukast og hópurinn er að stækka.

Fentanýl er í síauknum mæli framleitt af ólöglegum lyfjaframleiðendum en engar skýrslur eða tölur eru til um það hvort svo sé líka á Íslandi. Í Bandríkjunum kemur mikið magn af fentanýli frá Kína og algengt er að dópsalar blandi fentanýl saman við önnur efni s.s. kókaín, heróin og krakk til að tryggja að neytandinn verði háður efninu.

Auglýsing frá 1998

Talið er að það ríki ópíumfaraldur í Bandaríkjunum sem rekja má að hluta til lyfjafyrirtækis sem markaðsetti oxycontin sem undralyf fyrir sjúklinga með verki og auglýstu lyfið væri aðeins 1% ávanabinandi. Í góðri trú skrifuðu margir læknar upp á þetta undralyf með skelfilegum afleiðingum. Sjúklingar urðu fljótt háðir lyfinu og jókst þolið með þeim afleiðingum að þau þurftu alltaf hærri skammta. Þegar það kom í ljós síðar meir að oxycontin væri ekki svo skaðlaust, dró úr ávísun af lyfinu en eftir sátu einstaklingar með fráhvörf. Í mörgum tilvikum leituðu þessir sjúklingar í heróín til að forðast fráhvörf og verki en 80% af heróínfíklum í Bandaríkjunum byrja í verkjapillum. Sackler fjölskyldan eru helstu eigendur Purdue Pharma og er fjölskyldan metin á 13. billjónir bandaríkjadala. Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttir er farið í gegnum þetta mál og Sackler fjölskylduna. Fyrir áhugasama er linkurinn hér

Í European Drug Report frá 2019 kemur fram að árið 2018 dóu 8200 einstaklingar í Evrópu vegna ofneyslu og 80% af þeim vegna neyslu á ópíata lyfjum. Í skýrslunni kemur fram að dauðsföll af völdum ópíata eru að aukast og á sama tíma eru dauðsföll vegna heróín neyslu að minnka. Þrátt fyrir það er faraldurinn ekki eins alvarlegur og í Bandaríkjunum en EMCDDA (Eurpean Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction) fylgist vel með gangi mála. (EMCDDA, 2019)

Image result for óminni
Óminni eru íslenskur heimildarþættir um ungt fólk og lyfjamisnotkun.

Á Íslandi hefur verið mikil umræða um lyfjamisnotkun og ungt fólk. Óminni eru heimildarþættir sem hægt er að nálgast á vísir.is Þar er hægt að skyggnast inn í heim ungs fólk sem hefur ánetjast bensódíasepín og ópíum lyfjum. Árið 2018 voru 39 andlát tengd lyfjamisnotkun og á sama ári voru 453 útköll vegna ofneyslu á höfuðborgasvæðinu. Í þáttunum Óminni er rætt við Valþór Ásgrímsson hjá rannsóknastofu HÍ í lyfja og eiturefnafræðum þar sem hann talar um eitt dæmi þar sem um ræðir falskar Xanax töflur þar sem innihaldið var ekki hrein tafla. Það er að segja að eitthvað hefur verið bætt við töfluna. Hann nefnir líka rannsókn í Svíþjóð þar sem 1300 Xanax töflur voru skoðaðar frá árunum 2011-2018 og þar voru fentanýl afleiður. Í viðtali við einstakling sem hefur selt fíkniefni á Íslandi talar hann um að aðeins einu sinni hafi hann selt ópressað xanax sem þýðir að það er ekki búið að blanda öðrum efnum við töfluna. Þessi þróun er grafalvarleg og passar við þróunina í Bandaríkjunum þar sem dópsalar/framleiðendur eru að ánetja neytendur af fentanýl þar sem það er ódýrt og auðvelt að framleiða á svörtum markað. Algengar er að ,,dílerar“ eru að pressa töflurnar sjálfir eða fá efnin í duftformi. Þar af leiðandi vita þessir einstaklingar ekkert hvað þessar pillur innihalda. 

Lyfjagagnagrunnur hefur verið starfræktur frá árinu 2006 og inniheldur gögn frá 2003. Í gögnum frá landlæknisembættinu um 20 stærstu lyfjaflokkana árið 2018 sést að ópíóið notkun hefur dregist saman um 2-22% frá árunum 2017 og 2018. Mest hjá aldursflokknum 17 ára og yngri en minnst hjá 67 ára og eldri. Mesta notkun á ópíumskyldum lyfjum er þó í aldursflokknum 45-66 ára. Þrátt fyrir að ópíum notkun hafi dregist saman frá 2017 til 2018 trónir ópíóíðar ennþá 2 sæti yfir stærstu lyfjaflokkarnir á Íslandi en í fyrsta sæti eru sýklalyf (Landlæknir, 2019).

Með þessari töflu er hægt að sjá að aukning er á dauðsföllum vegna lyfjamisnotkunnar á Íslandi frá árunum 2014 til 2018.

Hér má sjá töflu frá landlækni um dauðsföll vegna misnotkunnar á lyfjum frá árinu 2018.

Hvað er til ráða? Hvað er verið að gera? 

Afhverju leiðast einstaklingar út í vímuefni? Af minni reynslu tel ég vímuefnaneyslu vera vegna flótta. Flótti vegna vanlíðan, andlega vandamál, erfiðar heimilisaðstæður, áfalls, tilfinningarkrísu, hópþrýstings, til að öðlast viðurkenningu, vonleysi, svo lengi mætti telja. Þú ert að flýja núverandi ástand. Til þess að sporna við þessu þurfum við að grípa einstaklinginn áður en þessi hugsun kemur. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að áfengisfíkn og vímuefnafíkn erfist og að líkurnar séu háar fyrir ættmenni að verða fíklar. Það er að segja að um 50% líkur eða hærri eru á að þú þróir með þér fíknisjúkdóm ef annað foreldri þitt er með fíknisjúkdóm (Dick et al, 2008). Þessa einstaklinga þurfum við líka að horfa til með fræðslu og stuðning í huga.

Það þarf líka að auka úrræði! Úrræði fyrir lækna til að vísa sjúklinga í sem hafa ánetjast verkjalyf, svo kallaða verkjameðferð. Ég held að flestir læknar séu meðvitaðir um hversu ávanabindandi verkjalyfin eru en það skortir úrræði. Að mínu mati er vel fylgst með ávísun lækna en að sjálfsögðu er alltaf hægt að gera betur.

Image result for preventions to young prescription misuse

Árið 2010 þegar ég útskrifaðist úr BA- í tómstunda og félagsmálafræði skrifaði ég ritgerð og gerði rannsókn á meðferðarheimilinu Götusmiðjunni sem þá var starfandi. Ég fékk að fylgjast með starfinu og kynnast yndislegum unglingum í þrjár vikur. Þessi reynsla kenndi mér MARGT! Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst þessari stofnun áður en henni var lokað. 

Í lok ritgerðar hvatti ég stjórnvöld til að fjölga meðferðarúrræðum fyrir unglinga og eftirmeðferð s.s. áfangaheimilum væri fjölgað. Í staðinn var Götusmiðjunni lokað, áfangaheimilum var lokað og eftir stendur, Stuðlar, Laugaland og Lækjarbakki. Það eru fyrir börn og unglinga á aldrinum 12-18 ára (bvs.is) 

SÁÁ rekur meðferðarúrræði fyrir einstaklinga í fíknivanda með fjárstuðning frá einstaklingum, fyrirtækjum og ríkinu. Starfsemin fer fram á þremur stöðum á Vogi, Vík og göngudeild Von. Árið 2017 voru 157 einstaklingar undir 20 ára aldri í meðferð á SÁÁ. Biðlistarnir eru langir og oft þurfa einstaklingar að bíða eftir að komast í meðferð (saa.is) Það er mikilvægt að grípa einstaklinginn strax og hann hefur vilja til að fara í meðferð en oft þurfa einstaklingar að bíða sem verður til þess að ,,glugginn“ lokast.

Forvarnir

Í mínu Mastersnámi tók ég áfanga sem hét Heilsuhagfræði. Forvarnir sem miða af því að sporna gegn heilsufarsvandamálum og eru framkvæmdar áður en vandamálið hefur verið greint eru bestu íhlutunaraðferðirnar til að bæta heilsu og líðan fólks (cost-effective). Forvarnir í grunnskólum og framhaldsskólum eru því hagkvæmasti kosturinn til að sporna við aukningu á vímuefnavanda (McPake et al, 2013).  

Hvað erum við að gera í forvarnarmálum á Íslandi?

Í almenna hluta aðalnámskrár frá 2011 er fjallað um forvarnir í kafla 7.8. Það kemur fram að „Grunnskólinn skal vinna markvisst að forvörnum og heilsuefnlingu þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda skólans. Lögð skal áhersla á almennar forvarnir, s.s. gagnvart tóbaki, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn, t.d. net- og spilafíkn,, Allir grunnskólar eiga að koma sér upp forvarnaáætlun sem kynna skal öllum aðilum skólasamfélagsins (Aðalnámskrá Grunnskóla, 2011). 

Hver og einn skóli býr til sína eigin forvarnaáætlun. Ég velti fyrir mér, afhverju er það í höndum skólastjórnenda að búa til forvarnaráætlun? Hafa þau þekkingu og getu að meta forvarnastörf? Afhverju er ekki í heildræn stefna í forvarnamálum á Íslandi? Þar sem forvarnastörf eru metin og tölfræði upplýsingum safnað saman. Ég hef ekki fundið mikið af forvarnaverkefnum á Íslandi sem hafa verið rannsökuð eða metin út frá heilsuhagfræði.

Í rannsókn sem var gerð á vegum rannsókn og greiningar á mati á forvarnafræðslu frá árunum 1997-2004 kemur fram að það skortir yfirsýn og yfirumsjón með forvarnamálum í Reykjavík. Forvarnarstarf hafi skilað árangri á þessum árum en það vantar yfirsýn yfir starfið. Það er erfitt að afla upplýsinga, fá yfirlit yfir forvarnarmál í borginni og sumt forvarnarstarf hefur ekki verið skjalfest (Silja Björk Baldursdóttir, 2004).

Því er greinilegt að það skortir heildræna stefnu í forvarnarmálum á Íslandi. Fyrirlestrar frá gömlum fíklum og poppstjörnum sem hafa farið í meðferð hefur ekki skilað árangri en samt eru skólar ennþá að sækjast í svoleiðis fræðslu án nokkurrar ígrundunnar.

Auður tónlistamaður kom nýlega fram þar sem hann sagðist hafa verið beðinn um að halda fræðslu um geðræn vandamál og neyslu sem hann afþakkaði. Hver metur hann sem réttann aðila í forvarnafræðslu? Hver ákveður að hann muni ná fram árangri í forvarnamálum? Við þurfum aðeins að vanda betur valið! Frábær tónlistamaður og veit greinilega betur. https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/rabbabari/29297?ep=8ncngm

Forvarnir eru stórt viðfangsefni sem ég ætla að taka fyrir í næstu grein. Hvað eru forvarnir? Hvernig virka þær? Hvaða kenningar eru notaðar í forvörnum? Afhverju ætti ég að taka mark á þeim?

______________________________________________________________________________

Heimildir

National Institute on Drug Abuse (2019). Drug facts. Fentanyl. National Institutes of Health; U.S. Department of Health and Human service. https://www.drugabuse.gov/publications/drugfacts/fentanyl

Kolbeinn Guðmundsson (2016) Fentanýl hundrað sinnum sterkara en morfín. Viðtal við vísir. Aðgengilegt á: https://www.visir.is/g/2016160829404/fentanyl-hundrad-sinnum-sterkara-en-morfin

Magnús Jóhannsson, Lárus S. Guðmundsson, Ólafur B. Einarsson. (2014) Dauðsföll vegna sterkra verkjalyfja eru til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Aðgengilegt á: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item22620/Daudsfoll-vegna-sterkra-verkjalyfja-eru-til-skodunar-hja-Embaetti-landlaeknis

Freyr Eyjólfsson (2018) Versti eiturlyfjafaraldur sögunnar. Morgunvaktin, Rúv.

Logreglan.is (2016) Varað við fentanýl. Fréttir og tilkynningar. https://www.logreglan.is/varad-vid-fentanyl/

EMCDDA (2019) Drug-related deaths and mortality in Europe. http://www.emcdda.europa.eu/system/files/publications/11485/20193286_TD0319444ENN_PDF.pdf

Dick et al (2008) The Genetics of Alcohol and other Drug Dependence. Alcohol Research & Health. Vol.31,No 2, 2008.

Landlæknir (2019) Tölfræði, Lyfjanotkun. Þrjátíu mest ávísuðu lyfin 2018, fjöldi notenda og hlutfall þjóðar. https://www.landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/tolfraedi/lyfjanotkun/

Silja Björk Baldursdóttir (2004) Forvarnir – virka þær? https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10692/Forv.Rvk.2004.lokautg.pdf

Bvs.is (2019) Viltu vita um úrræði í barnavernd? http://www.bvs.is/almenningur/urraedi/

McPake et al (2013) Health economics, An international perspective. Third Edition. New York. Routledge. 

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur