Vefsíða lýðheilsufræðings

Reykingar og rafrettur

Nú hefur verið mikið í fjölmiðlum um skaðsemi rafretta eða veip eins og það er kallað. Í ljósi þess langaði mig að kanna þetta aðeins betur.

Ég rakst á þessa heimilidarmynd frá árinu 2016 um reykingar og rafrettur. Ég er algjör heimildamyndarfíkill og læri oft meira á því að horfa en að lesa þar sem ég er með svokallað ,,ljósmyndaminni“ 

Ef þið hafið áhuga þá heitir heimildarmyndin A Billion Lives og slóðin er:

https://www3.123movies.la/movie/a-billion-lives-5zqvr47/watching.html

Myndin byrjar á að fara yfir sögu tóbaksins og reykinga. Áhugaverðast fannst mér hvernig markaðsetning fyrir sígarettum var hérna áður fyrr með áherslur á börn, fátæka og konur. 

Mr. Flinstone var notaður til þess að auglýsa sígarettur og það þarf ekki geimvísindamann til að átta sig á því til hvaða markhóps sú auglýsing átti að ná til. 

Meiri að segja læknar þurfa að reykja camel til þess að komast í gegnum erfiða daga og mæla flestir læknar með Camel. Sígarettur gefa mikla sælutilfinningu og eru svo góðar á bragðið…. kunnuglegt?

Í dag finnst okkur þetta fyndið og heimskulegt þar sem flestir ættu að vita að reykingar eru skaðlegar heilsu. Alþjóðaheilbrigðisstofnuninn hefur gefið út að reykingar tengist 8 milljóna dauðsfalla á ári. Flest reykingafólk eða 80% koma frá lágtekju- og miðtekjulöndum. Kostnaður á samfélög er gríðarlegur vegna þess, sem birtist í heilbrigðiskostnaði, dauðsföllum og sjúkdómum (WHO, 2019). 

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnun hafa skattar á tóbak sýnt fram á minnkun á neyslu, einkum hjá ungu fólki og fólki sem lifir við fátækt. Til að mynda leiðir 10% skattur á tóbak til 4% minnkunnar á neyslu hjá hátekjulöndum og 5% hjá lágtekjulöndum. Aðeins 38 lönd í heiminum skattleggja tóbak (WHO, 2019).

Veip eða rafsígaretta var fyrst markaðsett árið 2010 og hefur notkun aukist gríðarlega. Nú er áætlað að markaður fyrir rafrettum sé 22.6 milljarða bandaríkjadala virði. Stærstu markaðir rafretta eru í Bandaríkjunum, Japan og Bretlandi. Af Norðurlöndunum er Svíþjóð efst eða í fjórða sæti og Noregur í því sjöunda. (Euromonitor, 2016). 

Úrval af veip vökva er mikið og er því erfitt að alhæfa að allt sé jafn skaðlegt. Sjálfstæð rannsókn fann 20 skaðleg efni í veip vökva og þar á meðal „carcinogens“ eða krabbameinsvaldandi efna (WHO, 2019). Alþjóðarheilbrigðisstofnuninn varar við nokun á rafrettum og kallar eftir reglugerðum þar sem rafrettan sjálf er ekki titluð sem tóbaksvara því nikótínið finnst ekki í tækinu sjálfu heldur í vökvanum. 

Nikótín í veip vökvanum getur verið ávanabindandi og valdið ýmsum einkennum frá hjarta-, heila- og miðtaugakerfi, öndunarfærum og fleiri líffærum. Nikótíneitrun getur stafað af of mikilli neyslu af nikótíni og hefur áhrif á hjarta og miðtaugakerfið (WHO,2019). Nikótín eitrun er hættuleg og getur valið dauða. Viðkvæmasti hópurinn fyrir nikótín eitrun eru börn og er orsökin oftar en ekki fljótandi nikótín og reyklausar tóbaksvörur sem börnin komast í. Um 30-60 milligröm af nikótíni er álitið vera banvænt fyrir fullorðna samkvæmt Archives of Tocicology (Cherney, K. 2017). 

Í heimilidarmyndinni hér að ofan (A billion lives) vilja menn meina að nikótínið sjálft sé ekki það skaðlegt og vilja menn setja það í flokk með koffíni. Þar er vitnaði í sænska rannsókn þar sem snus (munntóbak) var rannsakað. Þar kemur fram að notkun á nikótíni sjálfu eykur ekki líkur á krabbameini og að margir svíar noti snus allt sitt líf án þess að sýna aukna hættu á að fá krabbamein. Þessi rannsókn leiddi þó líka í ljós að Snus, er ekki skaðlaust og getur valdið sjúkdómum í munni, valdið skaðlegum áhrifum á ófætt fóstur ef það er notað af barnshafandi konu og að langtímanotkun geti stuðlað að hjarta og æðasjúkdómum þrátt fyrir að skortur sé á rannsóknum sem styðja þá tilgátu (Foulds et al, 2003) 

Þrátt fyrir það ættu foreldrar ekki að líta á veip sem skaðlaust fyrirbæri í lífi nútíma unglings. Markaðsetning á veip minnir á markaðsetningu sígaretta hér í denn. Markhópurinn eru börn og unglingar. Vape er töff og skaðlaust! Þetta er bara gufa! Í guðanna bænum ekki kaupa handa börnum ykkar vöru sem við vitum ekki nóg um og trúa því að hún sé skaðlaus. Börn eru framtíðin og það dýrmætasta sem við eigum…

Þessi auglýsing minnir óneitanlega á auglýsinguna frá 1950 um camel og winston. Erum við að fara í hringi? Erum við komin aftur í að auglýsa vöru sem við vitum ekkert um ? Mun það svo koma í ljós síðar meir að þessi vara er skaðleg? 

Allskonar samsæriskenningar hafa líka verið háværar. Að tóbaksframleiðendur séu að kosta þessar ,,neikvæðu“ umfjöllun um e-sigarettur, allir rannsakendur eru keyptir og fólk sem starfar við lýðheilsu séu mest megnis ,,keypt“ af fyrirtækjum til að markaðsetja þessar vörur sem ,,skaðlausar“ Ómögulegt er að vita en eitt sem ég veit fyrir víst er að græðgi blindar manninn.

Veip er ekki skaðlaust en getur hjálpað til við að minnka eða hætta neyslu reykinga. Við vitum hreinlega ekki nógu mikið um langtímaáhrif rafretta. Hvað vitum við um þessa vökva sem eru notaðir? Mjög lítið, nánast ekkert. 

Annar vinkill á umræðuna er að unglingar eru að nota rafretturnar fyrir kannabis neyslu og það veldur áhyggjum. New England Journal of Medicine rannsókn kom út fyrir nokkrum dögum um lugnasjúkdóma tengdum rafsígarettanotkunnar. Þar kom fram að 84% af 53 sjúklingum höfðu notað tetrahydrocannabinol (THC) vökva í rafretturnar sínar sem leiddi til öndunarerfileika og voru 94% af sjúklingunum innskráðir á spítala til þess að að fá meðferð við lugna og öndunarfæravandamálum. Helstu vandamál sjúklingana voru mæði, hósti, brjóstverkur, ógleði, magaverkir og hiti. Allt voru þetta ungir sjúklingar með enga fyrri sögu af öndunarerfileikum (Travis et al, 2019).

Rafrettan hitar veip vökva til að búa til loftúða (aerosol) sem notandinn andar að sér. Loftúðinn getur útsett notendur fyrir efnum sem vitað er að hefur skaðleg áhrif á heilsufar, svo sem ofurfínar agnir, þungamálm og rokgjörn efnasambönd sem notandinn andar að sér (Travis et al, 2019). Loftúðinn inniheldur einnig fjölmörg önnur efni sem minna er vitað um og gætu verið líkama notandans skaðleg en sú vinna er enn í gangi.

Í Ástralíu, Singapore, Víetnam og Brasilíu eru rafrettur bannaðar. Hvort það er jákvætt eða ekki er deilumál. Persónulega finnst mér skrítið að banna rafrettur en selja sígarettur því rafretturnar geta hjálpað reykingarfólki að hætta að reykja…..

Til að draga saman… við vitum ekki nóg, en við vitum þó að rafrettan er ekki skaðlaus! Til að hjálpa reykingamanni að hætta að reykja myndi ég mæla með rafrettu en að byrja að reykja rafrettur eða leyfa börnum þínum að reykja rafrettu set ég spurningarmerki við. Er það þess virði að taka sénsinn?

Þar sem ég vil hafa þessa síðu persónulega og segja frá minni eigin reynslu skal ég svara þessari spurning…. Hef ég prófað að reykja rafrettu? Svarið er JÁ… Eftir á að hugsa notaði ég rafrettuna til að falla betur inn í? JÁ. Fékk ég viðurkenninguna sem ég var að leitast eftir? Nei! 

Vertu með gagnrýna hugsun og leitaðu að áreiðanlegum heimildum til að taka rétta ákvörðina fyrir þig!

Heilsuseigla snýst um að taka bestu ákvarðirnar fyrir þína heilsu og gefast ekki upp þótt þú hafir tekið vitlausa ákvörðun. Þú getur alltaf byrjað upp á nýtt! Á morgun er nýr dagur og gerðu það sem er best fyrir þína heilsu.

*Kristín*

Heimildir

Cherney, K. 2017. Nicotine Poisoning, Overview. Health Line 2017. Available from: 

https://www.healthline.com/health/nicotine-poisoning

(Accessed 10.09.2019). 

Foulds J, Ramstrom L, Burke M, et al, Effect of smokeless tobacco (snus) on smoking and public health in Sweden,Tobacco Control 2003;12:349-359.

WHO (2019) Tobacco, Key facts.  Available from: https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/tobacco

(Accessed 09.09.2019). 

Henry Travis S., Kanne Jeffrey P., Kligerman Seth J.. (2019) Imaging of Vaping-Associated Lung Disease. N Engl J Med DOI: 10.1056/NEJMc1911995. 

https://www.nejm.org/doi/full/10.1056/NEJMoa1911614?query=recirc_curatedRelated_article

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur