Vefsíða lýðheilsufræðings

Brjósklos og bakverkir

Persónulega saga af bakverkjum…..

Ég þekki af eigin raun að vera með stanslausa bakverki. Ég var með útbungun í L4 og L5 sem olli mér miklum verkjum í rúm tvö ár. Ég keyrði mig áfram á verkjalyfjum og allskonar lyfjum. Ég var í sjúkraþjálfun, nálastungum, nuddi, yoga, sund og prófaði meiri að segja heilun en ekkert virkaði! 

Eftir tvö ár af því sagði líkaminn bara stopp og ég hneig niður í götuna fyrir framan Kaffi París 17.júní 2012. Eftir það sagði sjúkraþjálfarinn minn frá bakskólanum í Stykkishólmi og hún fékk tíma fyrir mig í viðtal á þriðjudegi. Bílferðin á Stykkishólm var hræðileg þar sem ég átti erfitt með að sitja lengi í bíl. Þegar ég kem inn á stofuna kynnir Jósep Ó Blöndal læknir sig og spyr mig ,,Sæl, hvað segir þú gott í dag?

Ég brotnaði niður! Ég grét eins og smábarn! Þessi litla saklausa spurning braut múrinn. Hann var fjórði læknirinn til að skoða mig og ég var gjörsamlega búin á því af verkjum. Eftir smá tíma náði ég að jafna mig og hann skoðaði mig. Eftir skoðun segir hann ,, jæja vinan þú ert að koma hingað í innlögn á mánudaginn“

Ég get ekki lýst því hvernig tilfinningin var að finna að eitthver lækni sem trúði mér. Virkilega hlustaði á mig! Ég var ekki að verða geðveik og ég var ekki að búa til verkina.

Mynd frá Kristín Ómarsdóttir.
Yndislegar konur sem ég kynntist á bakdeildinni.

Sú stofnun bjargaði bæði líkamlegri og andlegri heilsu minni. Að kúpla sig úr sínu daglega umhverfi og kynnast einstaklingum sem voru að upplifa það sama og þú var ómetanlegt!

Á bakdeildinni vinna læknar og sjúkraþjálfarar náið saman að einstaklingsmiðaðri meðferð og með vikulega fræðslu um líkamsbeitingu, forvarnir og meðferðarúrræði. Baksjúklingar sem hafa verið með verki í langa tíma þurfa oft að fá hvíld frá daglegu lífi og skipta um umhverfi. Ég lagðist inn á deildina tvær vikur í senn fjórum sinnum frá 2012-2013. Meðferð mín samanstóð af sterasprautum í bogaliðina, sjúkraþjálfun, vatnsleikfimi og æfingum á svínahrygg til að styrkja djúpavöðva í kvið.

Mynd frá Kristín Ómarsdóttir.
Halla hjúkrunarfræðingur með fræðslu um streitu.

Ég var óþolinmóð með bata eins og flestir baksjúklingar með króníska verki eru. Ég vildi aðgerð og það helst í gær en á bakdeildinni lærði ég að það er ekki alltaf besta lausnin. Með fræðslu og meðferð jókst þekking mín og áhugi á lýðheilsulegum málefnum. Þar lærði ég margt sem ég vildi að ég hafði lært í byrjun á mínum bakveikindum. Með þessari grein langar mig að segja frá því hvað ég lærði og hvað hjálpaði mér. 

Ef þið viljið lesa meira um bakdeildina á Stykkishólmi, þá er mjög góð grein HÉR

Mynd frá Kristín Ómarsdóttir.
Ýmsum aðferðum var beitt í minni meðferð t.d. krókar til að losa um fasíur í bakinu.

Afhverju bakverkir og hvað veldur?

Flestir kannast við það að fá verk í bakið eða svokallað þursabit. Talið er að 60% fullorðina fái einhvern tímann þursabit og er það algengast hjá ungu og vinnandi fólki. Þursabit er skilgreint sem verkir eða óþægindi í mjóbaki. Einkennin eru miklir verkir, tak í baki og vöðvabólga. Oftast líður það hjá með hvíld og bólgueyðandi en stundum ekki. Talið er að flestir sem fá í bakið í fyrsta skipti ná bata eftir 1-3 mánuði en um 10% þróa með sér króníska bakverki (Garcy et al, 1996). 

Orsök bakverkja er oft óþekkt en rannsóknir hafa sýnt að andlegir og líkamlegir þættir í lífstíl skipta máli svo sem atvinnuumhverfi og vinnuaðstaða. Í rannsókn frá árinu 2009 kom fram að tíðni bakverkja hefur verið að aukast síðustu ár. Helsta aukning er meðal kvenna ótengt aldri og jókst hún um þrefalt á árunum 1992-2009. Lífslíkur hafa áhrif á aukningu, þar sem við erum að eldast og lífslíkur eru hærri (Freburger et al, 2009).  

Related image

Brjósklos eða útbungun.

Hvað er brjósklos? Á einföldu máli, er þegar kjarninn eða brjóskið inn í brjóskþófunum sem liggur á milli hryggjaliðanna, þrýstir á bandvefshringinn og veldur því að hann bungar út eða rifnar og veldur þrýsting á nærliggjandi taugarætur. Brjóskþófarnir eru 80% vatn og liggur umhverfis hlaupkenndan kjarna sem gerir hann mjög teygjanlegan og eykur hreyfigetu hryggsins og styður við hann. Brjósklos getur orðið vegna áreynslu við líkamlegri vinnu eða slys. Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar geta verið með útbungun á brjóskþófunum án einkenna en aðrir hafa mikil einkenni. Brjósklos er algengast hjá einstaklingum á aldrinum 30-50 ára og er oftast staðsett í mjóbaki (Sólveig Dóra Magnúsdóttir, 2006).

Aukin áhætta á brjósklosi eru þeir sem vinna við að lyfta þungu, snúa sér og beygja við vinnu, langkeyrslu og kyrrseta. Rangar líkamsæfingar geta valdið brjósklosi þar sem einstaklingur beitir sér vitlaust við miklar þyngdir. Talið er að aðeins 2-3% þeirra sem fá bakverki séu með brjósklos (Sólveig Dóra Magnúsdóttir, 2006).

Afhverju ekki strax í myndatöku eða segulómun???

Flestir vilja fá bót meina sinna og fá svör við verkjum. Oft kalla baksjúklingar eftir myndartöku eða segulómun og skilja ekki afhverju læknirinn er svona tregur að senda sig í myndatöku. Ástæðurnar eru nokkrar. Fyrsta er að myndatökur af hrygg sýna yfirleitt ekki ástæðu bakverkja heldur útiloka aðeins alvarlega sjúkdóma í hryggnum. Myndatökur geta sýnt fram á slitbreytingar en ástæða bakverkja er oftast önnur en það. Önnur ástæðan er að myndatökur á hrygg eru framkvæmdar þannig að sjúklingurinn er liggjandi sem sýnir ekki raunverulegt álag á hrygginn. Mesta álag á hryggnum er þegar við sitjum eða stöndum (Jósep Ó Blöndal, 2009). Þriðja ástæðan er heilbrigðiskostnaður. Segulómun er mjög dýrt fyrir skattgreiðendur og gefur sjaldnast útskýringar.

Heilbrigðiskostnaður vegna stoðkerfissjúkdóma.

Bakverkir eru ein algengasta ástæðan fyrir því að fólk fer til læknis eða missir úr vinnu og fer á örorku. Flestir fá bakverki eða þursabit að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Bakvandamál eru algengust hjá fólki á aldrinum 20-50 ára og ná hámarki við 40 ára aldur. Bakvandamál eru eitt dýrasta heilbrigðisvandamál vestræna þjóða og kosta samfélögin mikið í heilbrigðiskostnaði, vinnutapi og meðferð (Mayo Clinic).

Árið 2003 er talið að um 33.5 milljarðar hafi verið tapið í vinnuframlagi vegna örorku miða við heildarvinnutap á Íslandi. Talið er að bakvandamál séu helsta orsök örorku undir 45 ára aldri á Íslandi og kosti samfélagið um 12 milljarða á ári (Jósep Ó Blöndal, 2009). Helsta örsök örorku hjá 50 ára og eldri konum á Íslandi eru stoðkerfissjúkdómar og eru stoðkerfissjúkdómar önnur algengasta örsök örorku á eftir geðröskunum. Árið 2018 voru 5661 einstaklingur á Íslandi á örorku vegna stoðkerfissjúkdóma (Tryggingastofnun, 2018)

Fjöldi karla (blár) og kvenna (rauður) með 75% örörkumat- og endurhæfingarmat í gildi í janúar, vegna stoðkerfissjúkdóma frá árunum 2011-2019

Áhugavert er að velta fyrir sér að bakvandamál eru sjaldgæfari hjá þjóðum eins og Kína, Nepal, Kúbu og Pakistan (Hoy et al, 2012). Hvers vegna er það? Margir vilja meina að það sé lífstíll vestræna þjóða sem spilar þar inní og mikil kyrrseta sé ástæða þess.

Rannsóknir hafa sýnt að skemmdir í liðþófum í hrygg byrjar á leikskólaaldri og geta sést á börnum allt niður í 9 ára aldur (Jósep Ó Blöndal, 2009). Með þróun samfélagsins hefur skólavist og skólakerfið stuðlað að mikilli kyrrsetu sem veldur miklu álagi á hrygginn. Við byrjum í grunnskóla við 6 ára aldur og sitjum við nám til 15 ára aldurs. Eftir það er mismunandi hvaða leiðir einstaklingar velja sér en bóklegt nám bíður upp á mikla setu. Hlusta á fyrirlestra, lesa námsefnið, verkefnavinna og fleira. Í mínu mastersnámi var eðlilegt fyrir mig að sitja við tölvuna í 8-10 tíma. 

Í Ástralíu var gerð rannsókn á heilsu barna sem sýndi að börn í leikskóla eru mjög aktív en um leið og þau fara í grunnskóla breytist hreyfing úr 6 tímum á dag í 1 ½ klst á dag. Hreyfing minnkar því með aldri og er ein ástæða þess að tölvutengdar tómstundir hafa aukist (Australian Health Survey, 2011-2012). 

Við sitjum mest megnis allan daginn og það gera börnin okkar líka. Margir vinna fullan vinnudag 8+ tíma við tölvur sem krefst mikillar kyrrsetu. Mörg fyrirtæki bjóða upp á hækkanleg borð og betri stóla en miða við mína reynslu hefur hið opinbera ekki veitt nóg fjármagn í það.

Sjúkraþjálfun

Klínísku leiðbeingar um meðferð sýna að hreyfing og bætt líkamstaða er besta meðferð við bakverkjum. Meðferðir hjá sjúkraþjálfara geta dregið úr verkjum og haft forvarnalegt gildi til framtíðar. Meðferð hjá sjúkraþjálfara samanstendur af nuddi, liðlosun, hnykkingar, nálastungur, æfingar og  komast að undirliggjandi orsökum bakverkjana (Magnús Ólason og fleiri, 2003).  Ég mæli með facebook síðu sem heitir sjúkraþjálfarahornið um betri fræðslu um sjúkraþjálfun. Hafa ber í huga að sjúkraþjálfara eru mismunandi eins og allt annað heilbrigðisfólk. Það gæti þurft nokkur skipti til að finna sjúkraþjálfara sem hentar þér..

Kírópraktor er meðferð sem sumir hafa nýtt sér í baráttunni við stoðkerfisvandamál. Ég, persónulega hef aldrei nýtt mér þá þjónustu en það hefur hjálpað mörgum.

Forvarnir

Hvaða ráðleggingar eru fyrir fólk í skrifstofuvinnu eða námi? 

 • Ganga eða hjóla í og úr vinnu/skóla. 
 • Fara í göngutúr eftir vinnu/ skóla eða stunda líkamsrækt. 
 • Nota stiga í staðinn fyrir lyftur. 
 • Leggja bílnum lengra í burtu frá vinnustaðnum/ skóla til að auka hreyfingu. 

Ekki láta veðrið stoppa þig! Hugmyndir af hreyfingu í vondu veðri því jú við búum á Íslandi! 

 • Dansa
 • Sund
 • Yoga
 • Pilates
 • Bardaga íþróttir
 • Skvass
 • Klifur

Streita getur valdið stoðkerfisvandamálum og verkjum. Til að ná stjórn á streitu er mikilvægt að fá hjálp. Það sem hefur hjálpað mér er hugleiðsla, líkamsrækt, lesa bækur og yoga.

Streita er umræðuefni næstu viku.

Heimildarskrá

Mayo Clinic (2019) Back pain. Overview. Available from: https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/back-pain/symptoms-causes/syc-20369906

Freburger JK, Holmes GM, Agans RP, et al. The Rising Prevalence of Chronic Low Back Pain. Arch Intern Med.2009;169(3):251–258. doi:10.1001/archinternmed.2008.543

Garcy et al, (1996) Recurrent or New Injury Outcomes After Return to work in Chronic Disabling Spinal disorders: Tertiary prevention efficacy of functiona restoration treatment. Spine. 21(8):952-959, April 15, 1996.

Australian Health Survey: Physical activity, 2011-2012. Australian Bureau of Statistics. Available from: https://www.abs.gov.au/ausstats/abs@.nsf/Lookup/4364.0.55.004main+features12011-12

Gunnar Svanbergsson et al, Segulómun við greingu lendahryggjaverkja: Nýting, samband við einkenni og áhrif á meðferð. Læknablaðið. 01.tbl.103.árg. 2017.

Magnús Ólason og fleiri (2003). Greining og meðferð bráðra bakverkja. Læknablaðið. 01.tbl.89.árg 2003

Jósep Ó Blöndal (2009) Markmiðið er að virkja sjúklinginn. Við við starfsfólk háls- og bakteymis í Stykkishólmi. Læknablaðið. 09.tbl.95. árg. 2009.

Hoy et al (2012). A systematic Review of the Global Prevalence of Low Back pain. Arthritis & Rheumatism, vol.64, pp 2028-2037.

Sólveig Dóra Magnúsdóttir. „Af hverju stafar brjósklos og hvaða einkenni fylgja því? “ Vísindavefurinn, 30. janúar 2006. Sótt 23. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5603.

Tengdar greinar

Kristín Ómarsdóttir

Lýðheilsufræðingur

Ég heiti Kristín Ómarsdóttir og er með brennandi áhuga á heilsu og vellíðan. Ég er með BA- í Tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og Master í Lýðheilsuvísindum (Public Health) frá Háskólanum í Lund, Svíþjóð.

Allt sem mun birtast hér verður unnið frá vísindalegum heimildum og mun fylgja heimilidaskrá eftir hverja færslu.

 

Kristín Ómarsdóttir

Vinsælar greinar

Uppskriftir

Glútenfrí Pizza

Glútenfrír Hafragrautur